Nýr bar, Daisy, opnaði nýlega í miðbæ Reykjavíkur í fyrrum húsakynnum Spánska barsins á Ingólfsstræti 8. Þetta er þriðji staðurinn sem „Jungle strákarnir“ opna en ásamt hinum víðþekkta Jungle Cocktail Bar reka þeir einnig Bingó Drinkery á Skólavörðustíg.
Á Daisy má finna klassíska kokteila auk kokteila sem eru minna þekktir hér á landi en eiga sér engu að síður langa sögu á börum erlendis.
„Hugmyndin með þessum bar er að bjóða upp á huggulega stemningu ásamt því að kynna fólki fyrir minna þekktum en samt frábærum klassískum kokteilum. Þetta eru kokteilar sem barþjónar hafa verið að gera í hátt í hundrað ár eða jafnvel lengur á börum í New York og London svo fátt sé nefnt en hafa ekki ennþá fest rætur sínar á hér Íslandi,” Jakob Eggertsson, einn af eigendum Daisy.
Jakob er einn af bestu barþjónum landsins og lenti í 10. sæti stóru World Class keppninni þar sem bestu barþjónar heims mættust og töfruðu fram kokteila hver með sínu nefni.
„Þetta er náttúrulega huggulegt rými sem fangar augun, hálf niðurgrafið með opnum steinveggjum og múrsteinssúlum Við breyttum ekki miklu varðandi uppsetningu á staðnum en við erum búnir að skreyta hann á öðruvísi hátt, aðeins til að setja okkar fingraför á hann,“ segir Jakob enn fremur.
„Á öllum þessum stöðum snýst leikurinn náttúrulega um bjóða upp á skemmtilega og þægilega stemningu. Við erum samt með mismunandi fókus punkt á öllum þessum stöðum. Til að mynda er Jungle staðurinn til að smakka nýjar og framandi kokteilhugmyndir sem barþjónarnir þar eru stanslaust að galdra fram. Á Bingó berum við einnig fram skemmtilega kokteila ásamt því að einblína mikið á íslenskan handverksbjór. Síðan hér á Daisy verða ekta klassískir kokteilar verða bornir fram og við munum einnig vera með 8 tegundir af léttvín í glösum og létt snarl.”
Opið er á Daisy alla daga frá klukkan 16:00-01:00 með hamingjustund frá klukkan 16:00-18:00. Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með strákunum á Daisy hér.