Þá er komið að húsráði vikunnar úr smiðju fyrirliða íslenska kokkalandsliðsins, Ísaks Arons Jóhannssonar eins og hefð er fyrir. Hann gefur lesendum matarvefsins góð húsráð flestalla föstudaga og nú er það gott ráð við eldhússtörfin. Þegar unnið er á skurðarbretti, skiptir máli hvernig frágangurinn er og hægt er að koma í veg fyrir að brettið renni til og frá.
„Kyrrsettu skurðarbrettið, að skera á bretti sem rennur til og frá getur verið óþolandi og jafnvel hættulegt. Til að koma í veg fyrir þetta er sniðugt að bleyta pappír eða tusku og setja undir skurðarbrettið. Skurðarbrettið nær þannig gripi við borðið og fer ekki á flug þegar verið er að skera,“ segir Ísak og bætir við að hann noti þetta ráð ávallt.