Jana grillaði þessar paprikur í bragðgóðu salsa

Grillaðar íslenskar paprikur með salsa bornar fram með burrata-osti.
Grillaðar íslenskar paprikur með salsa bornar fram með burrata-osti. Ljósmynd/Kristjana Steingrímsdóttir

Kristjana Steingrímsdóttir, alla jafna kölluð Jana, heilsumarkþjálfi og ástríðukokkur veit fátt skemmtilegra en að leika sér í eldhúsinu og útbúa bragðgóða og holla rétti. Á dögunum gerði hún þennan ljúfa rétt, sem á vel við haustið. Hún grillaði íslenskar paprikur í bragðgóðu og skemmtilegu salsa og bar þær síðan fram með burrata-osti. Þetta er skemmtileg framsetning og gefur paprikunum gott bragð. Hægt er að fylgjast með Jönu í eldhúsinu hér.

Bakaðar paprikur með salsa og burrata-osti

  • 3 íslenskar rauðar paprikur
  • Smá ólífuolía
  • 2 tsk. cummin-duft eða cummin-fræ (ekki kúmen)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 1/2 búnt dill, saxað gróft
  • 1/2 búnt steinselja, söxuð gróft
  • 3 msk. sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 1/2 bolli valhnetur, saxaðar gróft 
  • Börkur af 1 sítrónu

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C hita.
  2. Kjarnhreinsið paprikurnar og skerið í grófa bita.
  3. Setjið paprikubitana á ofnskúffu klædda bökunarpappír, skvettið smá ólífuolíu, salti, pipar og cummin yfir bitana.
  4. Bakið í ofninum í um það bil 15-20 mínútur eða þar til paprikurnar eru farnar að grillast.
  5. Hellið bökuðu paprikubitunum ásamt afganginum í góða skál og hrærið vel saman. 

Fyrir lokasamsetningu:

  • 1 stk. ricotta-ostur, burrata-ostur eða mozzarella-ostur

Aðferð:

  1. Setjið síðan ost að eigin vali inn í mitt salatið þegar það er tilbúið.
  2. Hellið að lokum smá ólífuolíu yfir salatið og kryddið til með salti og pipar.
  3. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert