Fyrir hvað stendur franska orðið „confit“?

Andalæri geta verið algjört hnossgæti.
Andalæri geta verið algjört hnossgæti. Ljósmynd/Unsplash

Orðið confit, borið fram „kon-fee“ er dregið af frönsku sögninni „confire“ sem þýðir að varðveita. Í hefðbundinni franskri matreiðslu vísar „confit“ til alls sem varðveitt er með því að hægelda það í fitu eða olíu.

Þetta þekkjum við Íslendingar ágætlega frá fornu fari undir þeim formerkjum að auka geymsluþol líkt og það var gert hér áður fyrr með því að súrsa, salta, sýra eða nota mysu til að koma í veg fyrir að maturinn myndi rotna á sínum tíma þegar lítið var um kæliaðferðir.

Baðaðir í salti

Aukið geymsluþol á ýmis konar mat tíðkaðist annars staðar erlendis á öldum áður. Það átti ekki bara við kjötmeti, ávextir voru til að mynda hjúpaðir í sykursírópi og hvítlaukur í ólífuolíu . Þekktir „confitréttir“ í Frakklandi eru og voru andaleggir sem baðaðir voru í salti áður en þeir voru soðnir og eldaðir í bræddri andafitu og leggjunum síðan komið fyrir í þéttlokuðum ílátum.

Til að varðveita kjötmeti

Þessi „confit“ aðferð hefur verið notuð í mörg hundruð ár og uppruni hennar er talin koma af Gascony svæðinu í suðvesturhluta Frakklands. Varðveisla matvæla af þessu tagi varð til af neyð til að varðveita kjötmeti, koma í veg fyrir rotnun og bakteríusýkingar sem hefðu getað valdið skelfilegum afleiðingum fyrir neytendur.

Andalæri „confit“ þykir mörgum hverjum hnossgæti og er víða á matseðlum í Frakklandi.  Á Matarvef Morgunblaðsins má til að mynda finna nokkrar uppskriftir sem hægt er að notast við og er tilvalið að elda ljúffeng „confit“ andalæri sem eru bæði meyr og bragðgóð þar sem farið er að hausta og kólna. Andalæri fást í flestum betri matvöruverslunum landsins.

Sjá hér nokkrar uppskriftir:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert