Einfaldi og bráðholli haustpottrétturinn

Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir blómstrar í eldhúsinu á haustin og þá …
Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir blómstrar í eldhúsinu á haustin og þá verða töfrar til. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir hefur brennandi áhuga á heilsu og matargerð. Þegar haustið er skollið á í allri sinni dýrð blómstrar hún í eldhúsinu. Hún elskar að komast aftur í rútínu eftir sumarið og töfrarnir gerast í eldhúsinu þar sem haustréttirnir verða til hver af öðrum.

Þórdís er 29 ára gömul tveggja barna móðir og gerðist grænkeri (vegan) árið 2016. „Ég hef aldrei litið til baka og held úti uppskriftasíðunni sem ber heitið Grænkerar þar sem ég birti heilsusamlegar og grænar uppskriftir,“ segir Þórdís og bætir við að líðan hennar sé miklu betri eftir að hún breytti mataræðinu.

Nú þegar allt er komið í fastar skorður eftir sumarfrí og haustrútína komin í gang líður Þórdísi mjög vel.

„Þrátt fyrir að vera klemmt milli bestu tíma ársins, sumarsins og jólanna, þá blómstra ég á haustin. Ég hef alltaf elskað að komast aftur í rútínu eftir sumarið og fundið hvernig ég þrái að koma skipulagi á hina ýmsu þætti lífsins. Ég man vel eftir mér sem barni í hverri einustu haustbyrjun að hvolfa úr öllum skúffum og skápum til að koma skikki á leikföng, liti eða servíettusafn. Með tvö ung börn finn ég í dag hvað mér finnst mikilvægt að einfalda lífið og skipuleggja mig á haustin.

Haustin eru kjörinn tími til að draga fram stærsta pottinn og útbúa matarmikinn pottrétt sem dugar allri fjölskyldunni í nokkrar máltíðir. Afganginn má svo frysta í nokkrum boxum og eiga þannig holla máltíð sem er hægt að draga fram á dimmum haustkvöldum eða taka sem nesti í vinnu og skóla,“ segir Þórdís.

Aðspurð segir Þórdís að hún þurfi ekki að sækja innblásturinn fyrir matargerð sína langt. „Ég fæ mínar hugmyndir að réttum reglulega út frá því sem er til, og ekki til, í ísskápnum heima. Mér finnst hræðilega leiðinlegt að skreppa út í búð ef eitthvað vantar og redda mér því oft með mjög áhugaverðum niðurstöðum,“ segir Þórdís og hlær.

Bragðast jafnvel betur daginn eftir

Einn pottréttur er í miklu uppáhaldi hjá Þórdísi og er iðulega borinn á borð þegar laufin eru byrjuð að falla af trjánum og fyrsta haustlæðgin gerir vart við sig. „Þessi einfaldi en bráðholli pottréttur hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því ég varð vegan og bragðast jafnvel betur daginn eftir. Sæt kartafla, blómkál og kjúklingabaunir í rjómakenndri kókos-tómatsósu mynda uppistöðuna en kummín, kóríander, hvítlaukur, engifer og túrmerik gefa hlýtt, kryddað bragð. Þessi slær ávallt í gegn og má segja að hann sé vinsælasti pottrétturinn sem ég ber á borð.“

Haustpottrétturinn er hinn girnilegasti en í honum eru sæt kartafla, …
Haustpottrétturinn er hinn girnilegasti en í honum eru sæt kartafla, blómkál og kjúklingabaunir í rjómakenndri kókos-tómatsósu. Ljósmynd/Þórdís Sigurjónsdóttir

Þegar kemur að nestishugmyndum spretta þær iðulega fram hjá Þórdísi í skólabyrjun.

„Ég er stöðugt að leita að sniðugum uppskriftum til að nýta afganginn af súrdeigsbrauðinu sem við kaupum reglulega á sunnudögum en náum sjaldnast að klára. Nýlega útbjó ég frábæra grillsamloku sem hentar fullkomlega í nesti í skóla eða vinnu þar sem er samlokugrill,“ segir Þórdís dreymin á svip.

Þessi grillsamloka lítur vel út og bráðinn osturinn kallar fram …
Þessi grillsamloka lítur vel út og bráðinn osturinn kallar fram hungurtilfinningu og steinliggur í nestisboxið. Ljósmynd/Þórdís Sigurjónsdóttir

Haustpottréttur og Avókadó-chipotle-grillsamloka

Haustpottréttur

Fyrir 6

  • 1 laukur
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 1 tsk. ferskt engifer, rifið smátt
  • 2 tsk. ferskt túrmerik, rifið smátt
  • 2 tsk. kummín
  • cayennepipar eftir smekk
  • 2 dósir kjúklingabaunir, vökvinn sigtaður frá
  • 2 dósir tómatar
  • 2 dósir þykk kókosmjólk, aðeins þykki hlutinn notaður
  • 1 blómkálshaus
  • 1 sæt kartafla
  • 1 grænmetisteningur
  • handfylli ferskt kóríander, saxað smátt

Aðferð:

  1. Saxið laukinn smátt og rífið hvítlauk, engifer og túrmerik smátt á rifjárni.
  2. Steikið í djúpum potti upp úr olíu þar til mjúkt.
  3. Bætið kummíni og cayennepipar út í pottinn og steikið í 2-3 mínútur.
  4. Skerið sætu kartöfluna niður og rífið blómkálið í smá blóm og bætið í pottinn ásamt kjúklingabaununum.
  5. Setjið tómata í dós út í ásamt þykka hlutanum af kókosmjólkinni.
  6. Bætið einnig grænmetisteningi út í og salti og pipar.
  7. Leyfið réttinum að malla í um 40 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.
  8. Rétt undir lokin er fersku, söxuðu kóríander bætt út í.
  9. Berið fram með soðnu kínóa eða hrísgrjónum og fersku kóríander.

Avókadó-chipotle-grillsamloka

Fyrir 1

  • 2 sneiðar súrdeigsbrauð
  • chipotle-majónes (t.d. frá Taco Truck)
  • 1/2 fullþroskað avókadó
  • 1 tómatur
  • sterkur rifinn ostur (frá Ellu Stínu)

Aðferð:

  1. Dreifið chipotle-majónesinu yfir báðar brauðsneiðarnar. Skerið avókadó og tómat í þunnar sneiðar og leggið ofan á aðra brauðsneiðina.
  2. Dreifið því næst rifna ostinum yfir og lokið samlokunni.
  3. Hitið í samlokugrilli þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið er orðið stökkt.
  4. Ef vill má dreifa smá sjávarsalti yfir samlokuna í lokin, sem setur punktinn yfir i-ið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert