Það er komið að einni stærstu kokteilviku ársins, „Negroni Week 2024“ eða Negroni vikunni, sem er alþjóðleg góðgerðarvikan. Hún hófst í gær, mánudaginn 16. september og stendur til sunnudagsins 22. september næstkomandi.
Negroni vikan er haldin með pomp og prakt út um alla borg. Klakavinnslan er meðal þátttakanda í kokteilavikunni og eins og áður hefur komið fram er vikan haldin til að safna fé fyrir góðgerðarmál gegnum hinn fræga og ástríðufulla drykk Negroni.
„Eins og hefð er fyrir sameinum við ástríðu okkar fyrir þessum heimsfræga drykk og góðu málefni. Í ár til styrktar Mia Magic seljum við derhúfur og taupoka og allur ágóðinn af sölunni rennur beint til samtakanna,“ segir Fannar Alexander hjá Klakavinnslunni.
„Negroni Week eða Negroni vikan hófst í fyrsta skiptið árið 2013 í samstarfi Imbibe Magazine og Campari, til þess að safna fé fyrir góðgerðarmál í gegnum ástríðu fyrir þessum einstaka drykk. Fyrsta árið tóku 120 barir og veitingastaðir þátt, en í dag eru þúsundir staða um allan heim hluti af þessu frábæra framtaki. Við á Íslandi höfum tekið virkan þátt og í ár eru 42 staðir á höfuðborgarsvæðinu skráðir til leiks. Hægt er að finna þá hér.“
Eru margir sem munu leiða krafta sína saman í tilefni þessa?
„Já, svo sannarlegar. Við erum mjög þakklát fyrir þann stuðning sem Negroni vikan hefur fengið hér á landi. Allir helstu barir, birgjar, eimingarhús og veitingastaðir landsins hafa lagt sitt af mörkum til að gera þessa viku að veruleika.“
Hvaða viðburður mun standa upp í tilefni þessa?
„Vikan verður full af spennandi viðburðum. Allir barir og veitingastaðir sem taka þátt bjóða upp á sínar einstöku útfærslur af Negroni og í raun er engin eins. Lokakvöldið verður hápunktur vikunnar og fer fram á sunnudaginn 22. september í Rauða herberginu í gamla Kvennaskólanum við Austurvöll. Húsið mun opna klukkan 20:00. Þar verður styrktarfé afhent og Barþjónaklúbbur Íslands veitir verðlaun fyrir besta Negroni drykkinn fyrir árið 2024, besta óáfenga Negroni og besta ginið í Negroni. Þetta verður skemmtilegur og veglegur lokapunktur á frábærri viku.“
Í fyrra var Ljónshjartað styrkt en í ár verður það Mia Magic. Segðu okkur aðeins frá því hvernig þetta er valið og fyrir hvað samtökin standa.
„Við styrktum Ljónshjartað í fyrra með frábærum árangri. Við báðum Ljónshjartað um að velja góðgerðasamtök fyrir þetta ár og þau völdu Mia Magic sem eru samtök sem vinna ómetanlegt starf fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem glíma við alvarleg veikindi. Á næsta ári mun því Mia Magic velja þau samtök sem njóta stuðningsins árið 2025. Mia Magic eru einstök samtök og við erum ánægð með að geta lagt okkar af mörkum til þeirra í ár. Við hvetjum alla til að kynna sér þeirra mikilvæga starf,“ segir Fannar einlægur.
Finnst þér skipta sköpun að styðja við gott málefni og láta gott af ykkur leiða um leið og þið standið fyrir viðburð sem þessum?
„Mjög svo, þetta er í raun kjarni Negroni vikunnar, sem var upphaflega hugmynd Imbibe Magazine árið 2013. Þátttakan snýst ekki bara um að njóta frábærra drykkja heldur einnig um að láta gott af sér leiða.“
Segðu okkur hvað er leyndarmálið bak við hinn fullkomna Negroni?
„Það sem gerir Negroni að einstökum drykk er að hann býður upp á óteljandi möguleika til að laga að eigin smekk. En leyndarmálið að hinum fullkomna Negroni er einfaldleikinn og gæði hráefnanna. Þó að það sé engin ein rétt leið til að búa hann til, þá er til hin klassíska uppskrift sem mig langar að deila með lesendum Matarvefsins ávallt góð. Þetta er hinn fullkomni drykkur hvort sem það sé fyrir eða eftir mat. Getur ekki klikkað og tilvalinn í matarboðið.“
Fannar segir að drykkurinn eigi sér langa og áhugaverða sögu. „Sagan Negroni hófst árið 1919 í Flórens á Ítalíu. Þar er talið að greifinn Camillo Negroni hafi beðið barþjónn á Caffè Casoni, bar sem nú í dag er þekktur sem Giacosa1815, um að breyta klassíska kokteilnum Americano. Í stað þess að fá sódavatn bað greifinn um gin og þannig varð Negroni til. Þessi nýi drykkur sló í gegn og varð fljótt mjög vinsæll. Negroni-fjölskyldan sá tækifæri í þessum vinsældum og stofnaði „The Negroni Distillery“ og hófu framleiðslu á drykknum í flöskum undir nafninu Antico Negroni 1919.
Árið 1947 var það svo kvikmyndagerðarmaðurinn Orson Welles sem kynntist Negroni í Róm. Hann lýsti drykknum með ensku orðunum: „The bitters are excellent for your liver, the gin is bad for you. They balance each other.“
Negroni hefur síðan þá þróast í fjölmargar útgáfur. Árið 1967 varð fyrsta afbrigðið til, Negroni Sbagliato, á Bar Basso í Mílanó. Sagan segir að barþjónninn hafi óvart gripið Prosecco í stað gins þegar mikið var að gera, en mistökin slógu í gegn og Sbagliato er enn vinsæll í dag. Bar Basso er ennþá opinn og ef þú átt leið hjá þá mæli ég með því að kíkja inn í einn,“ segir Fannar með bros á vör.
„Árið 2002 kom svo The White Negroni, þegar Wayne Collins, þekktur barþjónn, breytti klassíska kokteilnum með því að nota Lillet Blanc í stað vermouths og Suze í stað Campari. Árið 2010 kynnti Jeffrey Morgenthaler, frá Portland, Oregon nýjan snúning á Negroni með því að tunnuþroska kokteilinn. Þó staðurinn hans, Clyde Common, sé lokaður í dag, lifir Barrel-Aged Negroni áfram í minni drykkjarmenningarinnar. Þessar fjölbreyttu útgáfur sýna hversu sveigjanlegur og vinsæll Negroni er, hvort sem hann er klassískur eða í nýrri útfærslu.“
Fannar segir að þátttaka allra skipti miklu máli og þakklæti þeim hjá Klakavinnslunni efst í huga eftir viðburði sem þessa.
„Við hjá Klakavinnslunni viljum þakka öllum sem komið hafa að Negroni vikunni í ár, fyrst og fremst þökkum við öllu því frábæra veitingafólki sem tekur þátt í þessu með okkur og gerir þessa viku að veruleika með því að skrá sig til þátttöku og bjóða upp á Negroni. Við viljum einnig þakka öllu því fjölda af fólki, fyrirtækjum og samtökum sem komið hafa að þessari viku á einn eða annan hátt.
Síðast en alls ekki síst viljum við þakka öllum þeim gestum sem munu leggja leið sína á betri bari og veitingahús bæjarins til þess að prófa og smakka allar þær frábæru útgáfur af Negroni sem í boði verða.“
Fannar deilir hér með lesendum Matarvefsins uppskrift af klassískum Negroni sem upplagt er að bjóða upp á í fordrykk í næsta matarboði.
Klassískur Negroni
Fyrir 1
Aðferð: