Hér er á ferðinni uppskrift að krakkavænum kjúklingaleggjum sem kemur úr smiðju Hildar Rutar Ingimarsdóttir matarbloggara. Uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gerum daginn girnilegan. Þetta eru kjúklingaleggir sem bornir eru fram með kartöflubátum sem er fljótlegt að útbúa. Þetta fer allt saman í eitt fat og inn í ofninn. Fullkomið þegar þú vilt einfaldan og hagkvæman kvöldmat sem krakkarnir elska. Hildur Rut leikur þessa list leikandi vel í myndbandinu sem hún deildi með fylgjendum sínum á Instagram á dögunum.
Krakkavænir kjúklingaleggir
- 8 kjúklingaleggir
- 6 kartöflur, meðalstærð
- 2 msk. ólífuolía
Krydd á kjúklinginn
- 1 msk. ólífuolía
- 1 tsk. salt
- 1 tsk. lauk- og hvítlauksduft
- 1 tsk. paprikukrydd
- 1 tsk. oreganó
- 1/4 tsk. pipar
Krydd á kartöflur
- 1 msk. ólífuolía
- 1 tsk. salt
- 1 tsk. laukduft
- 1 tsk. hvítlauksduft
- 1/4 tsk. pipar
Aðferð:
- Stillið ofninn á 200°C (180°C ef blástursofn) og leyfið honum að hitna.
- Undirbúið hráefnin næst.
- Flysjið og skerið kartöflurnar í báta.
- Setjið kartöflubátana í skál og blandið þeim saman við 1 msk. af ólífuolíu, salt, laukduft, hvítlauksduft og pipar.
- Blandið vel saman þannig að kartöflurnar séu þaktar kryddi og olíu.
- Setjið kjúklingaleggina í aðra skál og blandið þeim saman við 1 msk. af ólífuolíu.
- Stráið kryddblöndunni yfir kjúklingaleggina (salt, lauk- og hvítlauksduft, paprikukrydd, oreganó og pipar) og nuddið kryddinu vel inn í kjúklinginn.
- Raðið kartöflubátunum og kjúklingaleggjunum í stóra eldfasta ofnskúffu eða fat þannig að allt passi vel.
- Setjið fatið í ofninn og bakið í um 40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og kartöflurnar eru mjúkar og gullinbrúnar.
- Snúið kjúklingnum einu sinni eftir um 20 mínútur til að ná jöfnum lit.
- Takið fatið úr ofninum.
- Hildur Rut elskar tilbúnar sælkerasósur og ber hún kjúklingaleggina og kartöflurnar fram með þessari Heinz Saucy Sauce.