Húsfyllir þegar nýsveinar í iðngreinum tóku við sveinsbréfum sínum

Útskriftanemendur í bakaraiðn ásamt formanni LABAK, Sigurði Má Guðjónssyni bakarameistara …
Útskriftanemendur í bakaraiðn ásamt formanni LABAK, Sigurði Má Guðjónssyni bakarameistara og kökugerðarmanni. Ljósmynd/Aðsend

Húsfyllir var á Hótel Hilton Nordica þriðjudaginn 17. september sl. þegar 223 nýsveinar í 16 ólíkum iðngreinum tóku við sveinsbréfum sínum við hátíðlega athöfn. Um er að ræða eina fjölmennustu útskrift iðnsveina sem haldin hefur verið.

Einn stærsti hópur nýsveina í bakaraiðn

Nýsveinar í húsasmíði fjölmenntu á viðburðinn enda var 81 sveinsbréf afhent í þeirri grein. Það vakti líka mikla athygli að þarna tók við sveinsbréfum sínum einn stærsti hópur nýsveina í bakaraiðn í áraraðir, 13 talsins. Auk fyrrnefndra greina voru sveinsbréf afhent í bifreiðasmíði, bílamálun, blikksmíði, framreiðslu, húsgagnabólstrun, húsgagnasmíði, kjötiðn, matreiðslu, málaraiðn, múraraiðn, pípulögnum, stálsmíði, veggfóðrun og dúkalögn og síðast en ekki síst veiðafærartækni.

Vilborg Helga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs og Sigurður Már Guðjónsson, …
Vilborg Helga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs og Sigurður Már Guðjónsson, formaður LABAK og sveinsprófsnefndar í bakaraiðn. Ljósmynd/Aðsend

„Þessi fjölbreytti hópur nýsveina sem tók við sveinsbréfum sínum endurspeglar mikilvægi iðnnáms og þá miklu breidd sem er að finna í íslenskum iðnaði í dag. Með sveinsbréf í farteskinu opnast nýr heimur tækifæra fyrir þessa 223 einstaklinga. Þeir eru nú fullgildir meðlimir í samfélagi íslenskra iðnaðarmanna,“ segir Vilborg Helga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs.

Sigurður Már Guðjónsson formaður LABAK var stoltur af nemendunum í bakaraiðn og þeirri aukningu nemenda sem hafa sótt í bakariðn síðastliðin ár. „Það má með sanni segja að framtíð íslensks iðnaðar sé björt,“ sagði Sigurður eftir athöfnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert