Matreiðslubók sem varðveitir minningarnar

Íris Ann og Lucas Keller héldu útgáfupartí á dögunum ásamt …
Íris Ann og Lucas Keller héldu útgáfupartí á dögunum ásamt sonum sínum, Indigo Mími Keller og Óðni Sky Keller, þar sem útgáfu bókarinnar var fagnað. Synirnir hafa fylgt foreldrum sínum gegnum veitingareksturinn frá upphafi og fengið að taka þátt í honum með þeim. Ljósmynd/Rebekka Rut Marinósdóttir

Hjónin Íris Ann Sigurðardóttir ljósmyndari og Lucas Keller kokkur gáfu út matreiðslubókina The Coocoo‘s Nest á dögunum þar sem þau sameinuðu krafta sína og hlúðu að þeim minningum sem þau hafa skapað saman.

Bókin er hin veglegasta og er afrakstur þeirra hjóna eftir rekstur veitingastaðarins The Coocoo's Nest í áratug út á Granda. En þau áttu og ráku veitingastaðinn The Coocoo’s Nest í liðlega tíu ár.

Áferðin á bókinni er gróf og falleg og sjávargræni liturinn …
Áferðin á bókinni er gróf og falleg og sjávargræni liturinn fangar augað. Lógóþrykkingin fram á bókinni er hönnun Lucasar og táknar „hreiðrið“. Í hreiðrinu eru tveir fuglar, hrafn og ugla með lítinn unga. Ljósmynd/Rebekka Rut Marinósdóttir

Myndirnar eru augnakonfekt að njóta en Íris Ann tók allar myndirnar og uppskriftirnar hver annarri spennandi enda sviptir Lucas hulunni af uppskriftunum af vinsælustu réttum staðarins. Bæði eru þau listamenn og þegar kemur að matargerðinni og bókaútgáfunni má sjá listræna hæfileika þeirra skína í gegn.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að gefa út þessa veglegu og fallegu matreiðslubók?

„Það var erfið ákvörðun að loka The Coocoo's Nest, við vorum mjög tilfinningabundin og kúnnarnir okkar líka. En okkur fannst kominn tími til breytinga og við vorum líka tilbúin í nýjar áskoranir sem við hefðum ekki tekist á við nema með þeirri ákvörðun að loka. Við vildum fanga þennan áratug okkar á Grandanum í bók einfaldlega til þess að varðveita þessar minningar,“ segir Íris Ann.

Hún segir að það hafi tekið sinn tíma að gera bókina og hún spanni í raun sögu þeirra á The Coocoo's Nest. „Lucas var um það bil tvö ár að skrifa bókina en myndirnar og uppskriftirnar eru frá því við opnuðum veitingastaðinn árið 2013, þannig að í raun mætti segja að bókin sé búin að vera í 11 ár í bígerð.“

Liturinn til heiðurs verbúðunum

Bókin er hin veglegasta og er yfir þrjú hundruð blaðsíður. Áferð kápunnar og sjávargræni liturinn fanga augað.

„Við vorum afar heppin og ánægð með samstarf við vin okkar André Visage, sem er frábær hönnuður með meiru, þegar kom að hönnun bókarinnar. André hannaði til að mynda umbúðirnar fyrir Omnom-súkkulaðigerðina á sínum tíma, allt sem hann gerir er vandað og fallegt. Það var mikið lagt í öll smáatriði og við erum þakklát fyrir það að fólk taki eftir því. Liturinn á kápunni eru til heiðurs verbúðunum en þetta er sami litur og er á hurðunum í dyrunum sem við opnuðum og lokuðum árum saman. Lógóþrykkingin að framan er hönnun eftir Lucas, tveir fuglar, hrafn og ugla með lítinn unga, verndardýrin okkar.“

The Coocoo’s Nest er yfir þrjú hundruð blaðsíður og þar …
The Coocoo’s Nest er yfir þrjú hundruð blaðsíður og þar er að finna uppskriftirnar að öllum frægustu réttum Lucasar sem voru í boðiðá veitingastaðnum. Ljósmynd/Rebekka Rut Marinósdóttir

Lærði matargerð á Ítalíu

Lucas hefur mikla ástríðu fyrir matargerð og sækir innblástur víða en sérstaklega frá tveimur stöðum. „Ég er fæddur og uppalinn í Norður-Kaliforníu þar sem er mikið af lífrænum mat. Svo lærði ég matargerð á Ítalíu, þannig að minn helsti innblástur kemur frá þessum tveimur stöðum. Ég vann á sveitabýlum á Ítalíu og lærði mikið um sjálfbærni sem mér finnst mikilvægt að tileinka sér.“

Uppskriftirnar sem er að finna í bókinni eru hugarfóstur Lucasar. „Uppskriftirnar eru meira og minna frá mér en ég hef auðvitað fengið innblástur héðan og þaðan en reyni ávallt að setja mitt fingrafar á það sem ég geri. Svo má líka finna nokkra klassíska ítalska rétti sem við buðum upp á á veitingastaðnum okkar,“ segir Lucas og brosir.

Aðspurð segja hjónin að það sé erfitt að velja einhverjar uppáhaldsuppskriftir, allar eigi þær sína sögu og rætur.

„Smásögur fylgja flestum uppskriftum sem hægt er að lesa í bókinni og gefa réttunum ákveðna dýpt. Okkur þykir ákaflega vænt um réttina okkar og þeir eiga sér stað í matarhjarta okkar,“ segja Íris Ann og Lucas.

Fjölskyldan er samhent og hlúa vel að hvert öðru og …
Fjölskyldan er samhent og hlúa vel að hvert öðru og kunna að vinna vel saman. Ljósmynd/Aðsend

Leyndarmálið ást, athygli og virðing

Súrdeigsbrauðið hans Lucasar hlaut verðlaun fyrir að vera besta súrdeigsbrauð landsins og það voru ófáir viðskiptavinir sem komu reglulega eingöngu til að kaupa súrdeigsbrauðið.

Súrdeigsbrauðið ykkar hlaut verðlaun í nokkur ár fyrir að vera besta súrdeigsbrauðið á landinu, er einhver leyndardómur á bak við uppskriftina sem gerir það svona ómótstæðilega gott?

„Eins og með alla lifandi hluti, það sem þú veitir ást og athygli vex og dafnar. Þetta hljómar eins og klisja en það er í raun bara leyndarmálið, ást, athygli og virðing.“

Þið stofnuðuð og rákuð veitingastaðinn The Coocoo's Nest við góðan orðstír en ákváðuð síðan að loka þrátt fyrir vinsældir staðarins, hver var ástæða þess?

„Sumir góðir hlutir þurfa að taka enda, við vorum tilbúin í breytingu. Það var alveg tilfinningaþrungið að loka staðnum, við vorum mjög tilfinningabundin staðnum og fólkinu sem bæði vann þar og sótti hann. Við grétum eiginlega öll síðasta daginn, við, starfsfólkið og kúnnarnir. Það vildi svo til að bróðir Lucasar var í heimsókn á þessari stund og hann var eiginlega gapandi yfir því hversu mikið samfélag þetta var,“ segir Íris Ann einlæg.

Bókin spannar yfir 300 blaðsíður.
Bókin spannar yfir 300 blaðsíður. Ljósmynd/Rebkka Rut Marinósdóttir

Þarf þá að finna sér nýja viðskiptafélaga

Ástríðan fyrir að opna stað að nýju blundar í Lucasi. „Lucas vill opna nýjan stað helst í gær. Hann er með margar hugmyndir og finnst enn þá vera rými hér til þess að fylla af einhverju sem er ekki þegar í boði hér. Ég hef sagt honum að hann þurfi þá að finna sér nýjan viðskiptafélaga þar sem ég er komin á kaf í sálfræðinám ásamt því að sinna ljósmyndaverkefnum, en svo myndi ég eflaust byrja að blanda mér í málin og finna mér hlutverk ef til þess kæmi. En þangað til erum við að njóta þess að skipuleggja pop-up-viðburði og vera í samstarfi við aðra í veitingabransanum,“ segir Íris og brosir.

Hægt er að fylgjast með komandi viðburðum á heimasíðu þeirra ilnido.is en nafnið merkir einfaldlega „hreiðrið“ á ítölsku. Einnig halda þau úti hópi á Facebook sem heitir The Coocoo's Nest, Fan Club.

Lucas og Leifur sameina krafta sína

Á dögunum byrjaði Hnoss Bistro með bröns þar sem Lucas og Leifur Kolbeinsson matreiðslumeistari og eigandi La Primavera sameina krafta sína í matargerð. Íris Ann segir það ekki tilviljun að þeir hafi sameinað krafta sína.

„Það er gaman að segja frá því að fyrsta starf Lucasar var á La Primavera hjá Leifi og Jónínu þegar það var staðsett í Austurstræti, þetta var árið 2007. Síðan þá hafa þau alltaf verið kærir vinir okkar, sýnt okkur stuðning í öllu því sem við höfum tekið okkur fyrir hendur og við höfum ávallt elskað La Primavera. Þau tóku nýverið yfir reksturinn á Hnossi Bistro og buðu okkur Lucasi að koma í samstarf.“

Leifur Kolbeinsson matreiðslumeistari og eigandi La Primavera og Lucas hafa …
Leifur Kolbeinsson matreiðslumeistari og eigandi La Primavera og Lucas hafa sameinað krafta sína og bjóða upp á bröns um helgar á Hnoss Bistro í Hörpu. mbl.is/Hákon

Það má með sanni segja að kræsingarnar sem í boði eru kalli fram minningar hjá þeim sem sóttu The Coocoo's Nest. „Hlaðborðið er í anda þess sem var á Coocoo's og það eru klárlega kunnuglegir réttir ásamt einhverju nýju. Það má alveg búast við einhverri nostalgíu, svo verður brauðið hans Lucasar á boðstólum sem var alltaf undirstaðan hjá okkur,“ segir Íris sposk á svip.

Galdurinn þolinmæði og virðing

Svo er það stóra spurningin, þið hjónin eruð ótrúlega samhent og vinnið vel saman, hver er galdurinn við það að geta unnið svona vel saman án þess að verða leið hvort á öðru?

„Frábær spurning. Við erum ótrúlega góðir vinir og höfum nú verið saman í 17 ár og lært ýmislegt á þessari vegferð saman. Ætli lykillinn sé ekki bara þolinmæði og virðing. Sem betur fer erum við oftast sammála og erum kannski eins þenkjandi að mestu leyti sem hjálpar líka. Við höfum lært mikilvægi þess að reyna að passa vel upp á andlegu heilsu okkar til að vera besta útgáfan af okkur sjálfum, þá er maður líka betri maki og í bara öllum þeim hlutverkum sem maður tekur að sér. En auðvitað þurfum við reglulega að minna okkur á að gleyma því ekki. Ég er ekki viss um að þetta hefði gengið eins vel hefðum við bæði verið í eldhúsinu, en við vorum að sinna sitt hvorum hlutanum, erum með sitt hvorn styrkleikann þannig að það hentaði afar vel þegar allt kom heim og saman,“ segir Íris Ann með bros á vör.

Lentum bæði í kulnun

Þið hafið rekið saman veitingastað með stórkostlegri útkomu, svo er það þessi fallega og veglega bók sem þið hafið unnið saman. Tekur þetta ekkert á?

„Lífið er nokkuð ljúft um þessar mundir og það er mikill sigur fyrir okkur að hafa sett þessa bók saman sem minningu um þennan tíma. Við lentum bæði í kulnun í gegnum reksturinn, covid-tímabilið spilaði stórt hlutverk í því. Virk greip okkur og við fengum mikinn stuðning þar. Ég vona að við höfum lært að hlaupa aðeins hægar og passa betur upp á heilsuna okkar. Við eigum margt eftir ógert og við erum ávallt spennt fyrir nýjum áskorunum og ævintýrum en ætlum að læra af reynslunni og passa upp á jafnvægið.

Við erum óendanlega þakklát fyrir alla þá sem hafa verið hluti af sögu okkar þennan tíma og þá sem hafa sýnt okkur stuðning og meðbyr í gegnum árin, það er ómetanlegt. Við vonum að bókin veiti öðrum innblástur til að láta sína drauma rætast, ekkert er ómögulegt ef maður hefur viljastyrkinn. Við vonum að þið hringið í vini og vandamenn og eldið oftar saman og búið þannig til dýrmætar minningar. Að okkar mati á fólk að koma oftar saman og elda, þarf ekkert að vera spari eða eitthvert tilefni, góður matur og samvera á mánudegi með hlaupandi krakka í kringum matarborðið, það eru einhverjir töfrar í því.“

Bókin er augnakonfekt að njóta og hefur að geyma minningar …
Bókin er augnakonfekt að njóta og hefur að geyma minningar fjölskyldunnar á The Coocoo´s Nest í áratug. Ljósmynd/Hákon
Í vetur munu Lucas og Leifur Kolbeinsson matreiðslumeistari og eiganda …
Í vetur munu Lucas og Leifur Kolbeinsson matreiðslumeistari og eiganda La Primavera sameina krafta sína og bjóða upp á bröns um helgar á veitingastaðnum Hnoss Bistro í Hörpu. mbl.is/Hákon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert