Hjarta heimilisins slær í eldhúsinu hjá Katrínu Halldóru

Katrín Halldóra Sigurðardóttir söng- og leikkona er mikill fagurkeri og …
Katrín Halldóra Sigurðardóttir söng- og leikkona er mikill fagurkeri og nýtur þess að vera í eldhúsinu heima. Samsett mynd/Saga Sig

Katrín Hall­dóra Sig­urðardótt­ir, söng- og leik­kona er mikill fagurkeri og listfengin á mörgum sviðum. Hún nýtur þess að vera í eldhúsinu með fólkinu sínu og hlutirnir í eldhúsinu hennar eiga sér allir hlutverk.

Þessa dagana stendur Katrín Halldóra í ströngu en hún er á fullu sýna söngleikinn Elly á ný í Borgarleikhúsinu sem hefur notið mikilla vinsælda hjá íslensku þjóðinni. Katrín Halldóru hefur heillað þjóðina í hlutverki sínu sem Elly og þykir ákaflega lík henni og röddin er undurfögur. Hún lifir sig inn í þetta hlutverk og skilar sínu framúrskarandi vel.

Erfði það frá móður minni

Hún er líka fjölskyldumanneskja og nýtur þess að hugsa vel um heimilið sitt samhliða listinni. Hjarta heimilisins slær í eld­hús­inu hjá Katrínu Halldóru og þar safnast bæði fjölskyldan og vinir saman og eiga gæðastundir. Þegar kem­ur að því að bera fram mat og drykki skipt­ir hana líka máli að eiga fal­lega hluti sem fanga augað og gera borðhaldið fallegra.

„Ég hef mikinn áhuga á matargerð og framreiðslu. Erfði það frá móður minni. Það er gaman að leggja fallega á borð en svo þarf hins vegar að vera þægilegt að raða í uppþvottavélina og ganga frá,“ segir Katrín Halldóra.

Eldhústæki stórt áhugamál hjá mér

Katrín Halldóra deil­ir hér með les­end­um Mat­ar­vefs­ins hvað henni finnst vera ómiss­andi að eiga í eld­hús­inu og sínum uppáhaldshlutum svo fátt sé nefnt.

Hvað finnst þér ómissandi að eiga í eldhúsinu?

„Þetta er erfið spurning. Ég á erfitt með að gera upp á milli Vita Mixers blandarans sem ég elska eða KitchenAid hrærivélarinnar minnar. En þetta er reyndar stórt áhugamál hjá mér, eldhústæki. Ég á nánast öll eldhústæki eða áhöld sem framleidd hafa verið og elska að nota þau öll fyrir mismunandi eldamennsku. Sem dæmi get ég nefnt Maggi Mix matvinnsluvél með mismunandi skálastærðum og rifjárnum, mandólín til að skera grænmeti, töfrasprota til að mauka súpur eða búa til pestó, Hægsuðupott fyrir haustsúpur, airfryer, souse vide græju, djúsvél svo eitthvað sé nefnt. Maðurinn minn gerir mikið grín af mér með þetta og segir oft að rafmagnið fari af allri Reykjavík þegar ég byrja að elda,“ segir Katrín og hlær.

Áttu þér uppáhaldsglasalínu?

„Ég hef verið að safna Thule ittala glösunum í nokkur ár, er samt eiginlega búin að gefast upp á þeim þar sem þau brotna oft í uppþvottavélinni. Er að leita mér að öðrum sem myndu endast betur.“

Hvað finnst þér vera heitast í eldhúsið núna?

„Ég myndi segja stórar eyjur með steinplötu og góðir skápar, sérstaklega tækjaskápur.“

Hvaða litur er að koma sterkur inn að þínu mati?

„Myndi giska á jarðlitir og/eða hnota. Mikið um jarðlitatóna í dag.“

Royal Copenhagen uppáhaldsmatarstellið í hvítu

Uppáhaldsmatarstellið þitt?

Royal Copenhagen, ég er að safna því í hvítu. Svo fallegt að leggja það á borð, nota það spari á jólum og áramótum og afmælum.“

Uppáhaldshnífasettið?

„Ég er uppþvottavélakona svo ég kaupi bara ódýra Ikea hnífa sem mega fara í uppþvottavélina. Kannski einn daginn enda ég með einhvern flottan japanskan hníf sem ég vaska upp. Mjög ólíklegt samt.“

Plast- eða viðarbretti?

„Ég sker allt grænmeti og kjöt á plastbretti en ber mikið fram á fallegum viðarbrettum.“

Ertu með kaffivél í eldhúsinu?

„Já, ég er með Jura kaffivél fyrir baunir sem ég elska. Kemur svo gott kaffi með góðri áferð úr henni.“

Áttu þér þinn uppáhaldskaffibolla?

„Ég er að safna Royal Copenhagen svo ég á mjög fallega bolla í því stelli. En dagsdaglega nota ég bara hinn klassíska múmínbolla með mynd af múmínmömmu á.“

Breytir þú eldhúsinu eftir árstíðum, hvað varðar liti og annað slíkt?

„Nei ,en ég set lítil og sæt aðventuljós í eldhúsgluggana þegar nær dregur aðventunni.·

Eyjan uppáhaldsstaðurinn

Uppáhaldsstaðurinn í eldhúsinu?

„Eyjan, ekki spurning. Þar er helluborð og barstólar við eyjuna. Gaman þegar fólk safnast saman í kringum eyjuna þegar ég er að elda eða baka pönnukökur. Svo er ég með lítinn 4 ára aðstoðarkokk sem hefur mjög gaman af því að baka til dæmis pítsur og þá leyfi ég honum að sitja við eyjuna og fletja út og setja áleggið á.“

Áttu þér draumaeldavél? Viltu gas eða spam?

„Ég myndi helst vilja vera með tvo ofna, var einu sinni með svoleiðis og það var frábært og svo elska ég spam. Ég er alltaf eitthvað hrædd við gas, þó svo að stórar breiðar eldavélar með gasi séu alltaf rosalega fallegar.“

Ertu með kerti í eldhúsinu?

„Já, en ég er frekar eldhrædd, svo ég er með mjög falleg rafmagnskerti frekar sem loga alveg eins og venjulegt kerti og maður varla sér muninn.“

Finnst þér skipta málið að leggja fallega á borð?

„Já, svo sannarlega. Ég elska að leggja á borð, langar til dæmis ávallt í nýja dúka, dreymir núna um fallegan jarðlitaðan hördúk fyrir jólin. Svo er gaman að skreyta borðið og einnig finnst mér ómissandi að vera með fallegar servíettur sem setja punktinn yfir i-ið.“

Ertu með útieldhús?

„Nei, ég sé ekki þörf á því hjá mér. Eldhúsið mitt er staðsett við útganginn út í garð svo það þarf ekki að fara langt.“

Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið?

„Ég held að ég sé hreinlega búin að eignast allt sem mig langar í í eldhúsið. En mig dreymir hins vegar um að breyta eldhúsinu einn daginn, setja innréttingu upp í loft, með nóg af skápaplássi og svo er væri frábært að vera með tækjaskáp undir allar græjurnar sem hægt er að loka bara inni svo enginn geti gert grín af manni sem kemur í heimsókn og sér allar græjurnar uppi á borði,“ segir Katrín Halldóra og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert