Það er að koma helgi og þá er að svipta hulunni af helgarkokteill Matarvefsins. Að þessu sinni er það þessi vínrauði krækiberjakokteill sem var í boðið á veitingastaðnum GOTT í Vestmannaeyjum í tilefni matarhátíðarinnar MATEY sem haldin var í byrjun september þar sem mikið var um dýrðir. Þessi kokteill sló í gegn hjá matargestum og mun á efa vera aftur í boði.
Klaudia barþjónn fór í berjatínslu á Eyjunni og nældi sér í krækiber.
Ljósmynd/Berglind Sigmars
Heiðurinn af þessum kokteil á Klaudia barþjónn á GOTT og hún bjó til að mynda til heimagerðan krækiberjasafa til að setja út í kokteilinn ásamt sætu sírópi. Gaman að sjá þegar íslenska náttúran fær að njóta sín í kokteila- og matargerð en teymið á GOTT er iðið við að nýta það sem náttúran býður upp á.
Fallegur kokteill borinn fram í kampavínsglasi.
Ljósmynd/Karl Petersson
Mateyjarkokteill GOTT – Krækiberjakokteill
Fyrir 1 - Kampavínsglas
- 60 ml heimagerður krækiberjasafi (sjá uppskrift fyrir neðan)
- 30 ml Ísafold gin
- 20 ml eggjahvíta
- 20 ml sætt síróp (sjá uppskrift fyrir neðan)
- 20 ml ferskur sítrónusafi
- Klaki eftir þörfum
- Til skrauts:
- Sítrónu lavender eftir smekk
Aðferð:
- Setjið krækiberjasafa, gin, eggjahvítu, sætt síróp, sítrónusafa í kokteilhristara og fyllið upp með klökum.
- Hristið í um það bil 10 sekúndur.
- Sigtið og hellið í hátt kampavínsglas.
- Skreytið glasið með sítrónu lavender.
- Berið fram og njótið.
Heimagerður krækiberjasafi
- 2 kg fersk krækiber
- 1l vatn
- 1l sykur
Aðferð:
- Sjóðið saman allt hráefnið í um það bil hálftíma.
- Síið ávextina gegnum sigti og kælið safann niður fyrir notkun.
Sætt síróp
- 1 kg hvítur flórsykur
- 1l vatn
Aðferð:
- Sjóðið hráefnið saman þar til sykurinn hefur bráðnar alveg og kælið síðan niður.
Í kokteilnum er líka íslenskt gin.
Ljósmynd/Berglind Sigmars