Ólöf Ólafsdóttir konditori, fyrrverandi meðlimur íslenska kokkalandsliðsins og rithöfundur mun gefa lesendum Matarvefarvefsins góð húsráð í vetur. Ráðin hennar Ólafar munu nýtast þeim sem hafa gaman að því að baka og skreyta kökur.
Ólöf gaf út bókina Ómótstæðilegir eftirréttir í fyrra sem inniheldur meðal annars afar góð ráð fyrir bakstur og eftirréttagerð.
Hún starfar sem konditori á veitingastaðnum Monkeys og á heiðurinn af eftirréttseðlinum sem hefur notið mikilla vinsælda meðal matargesta. Hún hefur mikla ástríðu fyrir vinnunni sinni og segir fátt meira gefandi en gefa fólki að borða.
Fyrsta heilræði sem Ólöf ætlar að gefa okkur er hvaða blóm er vert að nota þegar skreyta á kökur og eftirrétti.
„Blóm sem skreyting í köku- og matargerð hefur verið mjög vinsæl í gegnum árin. En passaðu hvaða blóm eru æt og hvaða blóm ber að varast. Blóm geta nefnilega valdið magabólgum, uppköstum og niðurgangi. Dæmi um þannig blóm er til dæmis brúðarslör sem hefur verið afar vinsælt í gegnum árin. Mitt allra uppáhaldsblóm til að skreyta með er annaðhvort fjólur eða orkideur.“
Hægt er að fylgjast með Ólöfu á Instagramsíðu hennar hér.