Húsó-kanilhnútarnir eru fullkomnir með helgarkaffinu

Ómótstæðilega girnilegir kanilhnútarnir úr eldhúsinu í Húsó.
Ómótstæðilega girnilegir kanilhnútarnir úr eldhúsinu í Húsó. mbl.is/Árni Sæberg

Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans töfrar fram leyndardómsfulla uppskrift úr eldhúsi skólans. Þessi uppskrift hefur slegið í gegn hjá nemendum skólans og því ekki úr vegi að deila henni með lesendum. 

Um er að ræða upp­skrift að kanilhnútum eða kanilsnúðum. Marta María segir að baksturinn fullkomni helgarkaffið.

Það tekur ekki langan tíma baka þessa og þeir eru svo góðir þegar þeir koma rjúkandi heitir úr ofninum. Hvað er betra en ilmur af nýjum kanilhnútum?

Húsó- kanilsnúðar eða kanilhnútar

Deigið

  • 1 ¾ dl mjólk
  • 75 g smjör eða smjörlíki
  • 4 ½ tsk. ger
  • 20 g sykur
  • 250 g brauðhveiti
  • ½ tsk salt

Fyllingin

  • Brætt smjör eftir smekk
  • Kanilsykur eftir smekk
  • 1 egg til penslunar
  • E.t.v. perlusykur

Aðferð:

  1. Hellið mjólkinni í skál.
  2. Bræðið smjörið og hellið henni síðan út í skálina með mjólkinni.
  3. Leysið því næst gerið upp í volgum vökvanum.
  4. Bætið síðan restinni af þurrefnum saman við og hnoðið saman með sleif.
  5. Stráið hveiti yfir deigið og leyfið því að hefast í u.þ.b. 40 mínútur á volgum stað.
  6. Fletjið deigið út í rétthyrning.
  7. Síðan er næsta skref að smyrja fyllinguna á deigið
  8. Penslið bræddu smjöri yfir deigið.
  9. Stráið kanilsykri yfir.
  10. Næst er það samsetningin.
  11. Það er hægt að mynda alls kyns snúða. Hér nefnum við þrjár aðferðir:

- Rúllið deiginu upp í pylsu og skerið í sneiðar og raðið á plötu til að mynda hefðbundna kanilsnúða.

- Brjótið deigið í tvennt, skerið í lengjur og snúið upp á lengjurnar í spíral eins og snigil til að mynda „kanilhnúta”.

- Brjótið deigið í þrennt, eins og í viskastykkjabrot. Skerið í lengjur. Skerið aftur í lengjurnar þar til myndaðar hafa verið þrír armar úr hverri lengju, fléttið armana saman og snúið lengjunni síðan beint upp í kanilhnút.

Síðan er það lokahnykkurinn:

  1. Gott er að leyfa snúðunum að tvíhefast, hefast aftur í 10-20 mínútur.
  2. Penslið snúðana með egginu, og stráið e.t.v. perlusykri yfir.
  3. Bakið við 175°C á undir og yfir hita í um það bil 10-12 mínútur þar til snúðarnir eru orðnir gullinbrúnir. Gætið þess að ofbaka þá ekki svo þeir verði ekki of stökkir og harðir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka