Æðislegu brúnkurnar hennar Matthildar

Matthildur Ósk Guðbjörnsdóttir bakari og silfurhafi þróaði sínar eigin brúnkur …
Matthildur Ósk Guðbjörnsdóttir bakari og silfurhafi þróaði sínar eigin brúnkur sem eru í miklu uppáhaldi. mbl.is/Árni Sæberg

Matthildur Ósk Guðbjörnsdóttir silfurhafi býður upp á helgarbaksturinn að þessu sinni en hún deilir með lesendum uppskriftinni af sínum uppáhaldsbrúnkum sem hún þróaði sjálf. Hún er ný­út­skrifuð sem bak­ari og fékk silf­ur­verðlaun á dög­un­um þegar hún tók þátt í Norður­landa­meist­ara­mót­inu í bakstri, Nordic Cup.

Matthildur er rúmlega tvítug og alin upp í Mosfellsbæ. Hún hefur haft áhuga á eldamennsku frá því hún man eftir sér. „Uppáhalds fagið mitt í grunnskóla var heimilisfræði. Foreldrar mínir eru einnig eðalsælkera heimiliskokkar og höfðu án efa áhrif á ástríðu mína fyrir matargerð og bakstri,“ segir Matthildur með bros á vör.

Örlögin höfðu áhrif

„Eftir grunnskóla fór ég í grunndeild matvæla í Menntaskólanum í Kópavogi, til að prufa og ákveða hvort ég vildi læra kokkinn eða bakarann. Þegar ég ákvað að læra bakarann skall heimsfaraldur á og lokaði öllu þannig að ég fór bara í fjarnám á meðan samkomutakmarkanir voru í gangi,“ segir Matthildur sposk á svip og bætir við að örlögin hafi síðan haft áhrif á að hún fór á nemasamning í bakaríi þar sem hún heillaðist af iðngreininni.

„Frænka mín sendi mér síðan skilaboð gegnum Instastory á Instagramsíðu sinni, þar sem uppáhaldsbakaríið hennar var að leita af nemum. Ég hafði aldrei heyrt um þetta bakarí en var strax alveg heilluð af Instagramsíðu bakarísins og sótti um. Viku seinna var ég byrjuð á samningi hjá Gulla Arnari Bakarí. Samningsárin voru viðburðarík og fékk ég að læra, vaxa og dafna i þessu frábæra bakaríi með skemmtilegu fólki,“ segir Matthildur.

Yfirmaður brauðdeildar hjá Gulla Arnari

„Ég útskrifaðist síðan í vor og fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í Hráefnisfræði bakara og stóðst sveinsprófið í lok maí. Nú er ég yfirbakari brauðdeildar hjá Gulla Arnari og keppti með íslenska Bakaralandsliðinu í The Nordic Bakary Cup í ágúst síðastliðnum.“

Landsliðið gerði sér lítið fyrir og hreppti silfurverðlaunin í keppninni. Það má því með sanni segja að Matthildur hafi fundið sína hillu í bakstrinum þar sem hún nýtur sín vel og blómstrar í leik og starfi.

„Sú fyrsta sem ég lærði utanbókar“

„Uppskriftin sem ég ætla deila með ykkur er af mínum uppáhaldsbrownies eða brúnkum eins og þær heita á góðri íslensku en hún er sú fyrsta sem ég lærði utanbókar og þróaði sjálf. Hægt er að bæta eða skipta út súkkulaðinu fyrir oreokex, karamellu eða einhverju öðru gúmmulaði og svo mæli ég með að bera kökuna fram með ís.“

Syndsamlega ljúffeng og bráðnar í munni þessi dásemd.
Syndsamlega ljúffeng og bráðnar í munni þessi dásemd. mbl.is/Árni Sæberg

Brúnkurnar hennar Matthildar

  • 225 g smjör, brætt
  • 175 g púðursykur
  • 265 g sykur
  • 4 egg
  • 1 msk. vanilludropar
  • 1 tsk. salt
  • 120 g hveiti
  • 100 g kakó
  • 200 g súkkulaði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C hita.
  2. Byrjið á því að blanda vel saman smjöri, sykri og púðursykri.
  3. Hrærið síðan vel saman við blönduna eggjum, vanilludropum og salti í um það bil 1 mínútu.
  4. Sigtið hveiti og kakó og blandið varlega saman við.
  5. Blandið loks súkkulaði saman við.
  6. Setjið síðan í form eða ofnplötu klædda bökunarpappír og dreifið jafnt úr deiginu.
  7. Setjið inn í ofn og bakið í um það bil 15-20 mínútur.
  8. Takið út og kælið aðeins áður en þið skerið í nokkrar ferkantaða bita.
  9. Berið fram með ís.
Þetta er fyrsta uppskriftinni sem Mathhildur lærði utanbókar og gerði …
Þetta er fyrsta uppskriftinni sem Mathhildur lærði utanbókar og gerði síðan að sinni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert