Gúrkuæðið heldur áfram og Hildur toppar sig

Gúrkusalatið hennar Hildar Ómars lítur vel út og það er …
Gúrkusalatið hennar Hildar Ómars lítur vel út og það er sáraeinfalt að útbúa það. Ljósmynd/Hildur Ómarsdóttir

Gúrkuæði fór eins eldur í sinu á samfélagsmiðlum í haust og gúrkurnar ruku út úr verslunum. Margir vildu meina að það væri vegna þess að allir væru að gera hið fræga gúrkusalat sem samfélagsmiðlarar voru að deila á miðlunum. Aðrir vildu meina að þetta væri árlegt, uppskeran anni ekki eftirspurn á ákveðnum tímum.

Hildur Ómars uppskriftasmiður þóttist ekki ætla falla í gúrkugryfjuna en gerði það þó og hefur verið iðin að útbúa gúrkusalat sem hefur slegið í gegn á hennar heimili. Hún deildi með fylgjendum sínum uppskriftinni af sínu uppáhaldsgúrkusalati og nú er bara að prófa.

„Ég ætlaði svo sannarlega ekki að vera ein af þeim sem hoppar á trendið en hér er ég með mitt gúrkusalat. Eftir að hafa sjálf tekið þátt í að klára gúrkurnar í búðunum og gert mér gúrkusalat oftar en tvisvar þá datt mér í hug að deila útgáfunni sem ég hef verið að vinna með. Það er nefnilega svo ferlega fljótlegt og það þarf ekki einu sinni að skola rifjárn eftir á því sósunni er bara sullað saman á 10 sekúndum,“ segir Hildur og hlær.

Gúrkusalatið hennar Hildar

  • 1 íslensk gúrka
  • 1 ½ - 2 msk. tamari sósa
  • 2 msk. hrísgrjónaedik
  • 1 ½ msk. sesamolía
  • 2 tsk. organic liquid garlic
  • skvetta organic liquid chili (það eru til tvær tegundir, chili og chili extra hot, hægt að nota báðar en hversu sterkt bragð þið fílið er smekksatriði)
  • 2 msk. sesamfræ
  • Bætið við 1 msk. af hnetusmjöri eða tahini ef þið viljið hafa salatið meira kremað eða til að breyta til.

Aðferð:

  1. Skerið gúrkuna eins og þið kjósið, hér hef Hildur lamið í hana til að mýkja og svo skorið hana í bita.
  2. Hellið sósunum út á og bætið sesamfræjunum við og hrærið.
  3. Ef þið veljið að blanda hnetusmjöri eða tahini við þá mæli Hildur með að blanda sósuna fyrst í sér skál og hella síðan yfir gúrkubitana.
  4. Salatið má borða eitt og sér en passar líka mjög vel sem viðbót við núðlurétt eða meðlæti með steiktu tófu og hrísgrjónum eða öðru með asísku ívafi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka