„Ætlaði að fara í kokkinn en endaði inn á verslunargólfinu í Skeifunni“

Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu …
Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Hann er mikill matgæðingur og elskar að elda mat. Fátt finnst honum skemmtilegra en að bjóða sínum allra bestu í mat og eyða deginum í undirbúning og matreiðslu.

Sigurður hefur líka afar gaman að starfi sínu og segir það vera forréttindi að vinna við það sem hann hefur ástríðu fyrir og vera ávallt kringum mat.

Þá mun fyrirtækið líða undir lok

Hagkaup hefur verið þróast og blómstrað síðastliðin ár og verslunin er stöðugt í þróun. Reglulega koma nýjungar og Sigurður segir að lykillinn af velgengni Hagkaups sé að fylgjast vel með og vera ávallt með puttann á púlsinum.

„Síðustu ár hafa verið fjörug í Hagkaup, við fögnuðum í fyrra 64 ára afmæli og notuðum hið heimsþekkta Bítlalag að því tilefni. Það er ekki sjálfgefið að ná þessum aldri hjá fyrirtæki eins og Hagkaup, við erum þakklát fyrir það. Lykillinn er að vera stöðugt að þróast og fylgja nýjustu helstu breytingum sem eiga sér stað í heiminum, ef þú ert ekki stöðugt að breytast þá mun fyrirtækið líða undir lok,“ segir Sigurður.

„Við höfum átt frábær síðustu ár, unnið í nýju útliti, orðin umhverfisvænasta matvörukeðja landsins, opnað vefverslun með snyrtivöru, leikföng og veislurétti, en sú síða hefur algjörlega slegið í gegn. Þá höfum við breytt ásýnd verslana innandyra með nýjum tækjum, hillum, hillumerkingum og fleira. Við erum því stolt af nýju útliti verslana okkar í dag.“

Sigurður hefur verið lengi í þessum bransa í langan tíma og hefur ávallt jafnmikla ánægju af því. Hann hefur gaman að því að takast á við ögrandi áskoranir og hafa smá hasar í kringum sig. 

„Ég hef starfað í þessum bransa í rúm 34 ár. Ég fann þegar ég var rúmlega tvítugur að þessi hasar sem fylgir verslunarstarfinu hentaði mér vel. Þetta er ekki allra en við sem erum smá ofvirk elskum þetta umhverfi enda erum við ansi mörg sem endum lengi í þessum bransa. Það heimsækja allir verslanir daglega eða vikulega, það eru allir með skoðanir og gera til okkar kröfur. Við sem erum í þessum bransa finnst gaman að takast á við þessar áskoranir og gera betur í dag en í gær.

Slegist um hver fær að elda

Ástríða Sigurðar liggur líka í matargerð.

„Sjálfur elska ég að elda mat og reyni að elda eins oft og ég get. Konan er líka öflug í eldhúsinu þannig að það er oft slegist um það hver fær að elda. Mér finnst fátt skemmtilegra en að taka á móti fjölskyldunni eða góðum vinum, setja saman matseðil og eyða deginum í undirbúning og eldamennsku,“ segir Sigurður með bros á vör.

„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á eldamennsku og ætlaði lengi vel fara í kokkinn en endaði inn á verslunargólfinu í Skeifunni. Þegar þú hefur mikla ástríðu fyrir mat eru alger forréttindi að fá að vinna við þetta alla daga.“

Sigurður setti saman sinn draumavikumatseðil fyrir lesendur sem á svo sannarlega eftir að gleðja alla matgæðinga.

Mánudagur – Hunangsgljáður lax

Í upphafi viku finnst gott að byrja vikuna á góðum fiski, oft verður lax fyrir valinu og gjarnan með hollu og góðu grænmeti, frábær byrjun á vikunni.

Þriðjudagur – Steiktur fiskur á gamla mátann

„Ég reyni að borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku, ég er rosalega hrifinn að klassískri ýsu í raspi með lauk og remúlaði. Getur ekki klikkað.“

Miðvikudagur – Öðruvísi cannelloni

„Lasagna eða útfærsla af því er svo klassísk, mér finnst oft gott að laga til í grænmetisskúffunni og henda aukalega því grænmeti sem er á síðasta séns í sósuna. Ef það er afgangur er þetta frábært daginn eftir eða til að frysta og eiga síðar.“

Fimmtudagur – Mexíkóskt kjúklingasalat í tortillaskál

„Gott salat á sinn dag á matseðli vikunnar. Ég er hrifinn af kjúklingasalati í einhverri mynd, gott romaine er alltaf góður grunnur en gott íslensk grænmeti er líka frábær valkostur, síðan er tilvalið að skreyta með einhverju spennandi sem þú átt kannski í ísskápnum, eitthvað litríkt er tilvalið. Annars er Eva Laufey aðeins betri en ég í þessu.“

Föstudagur – Heimagerð pítsa með chorizo og kúrbít

„Við reynum að halda í hefðina á föstudögum með heimagerði pitsu. Mín uppáhalds er með pepperóní eða með annarri kryddpylsu, rauðlauk, rjómaosti og chili-olíu. Þá skal það viðurkennast að stundum kaupum pítsu og verður þá Eldsofninn oftast fyrir valinu en þar er besta pitsan í bænum að mínu mati. Ég á flottan pítsaofn sem hitar steininn upp í 500°C hita og eldar pítsuna á 90 sekúndum, hún verður alveg tryllt úr þessum ofni.“

Laugardagur – Nauta-ribeye og ljúffeng sósa

„Nauta - ribeye er smá uppáhalds ef gera á vel við sig á laugardegi, góð sósa er líka ómissandi. Bernaise eða sveppasósa steinliggur alltaf. Mér finnst best að grilla steikina, en ég grilla allt árið um kring, finnst það ómissandi hluti eldamennskunnar.“

Sunnudagur – Lambakótelettur með fylltum tómötum

„Besti maturinn sem hægt er að elda eru svo kótilettur. Ég hef þær með sérvöldu Hagkaups grillsmjöri sem er í miklu uppáhaldi. Þegar mitt besta fólk mætir er þessu skellt á grillið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert