Sigurður Már Guðjónsson bakarameistari og kökugerðarmaður á heiðurinn af helgarbakstrinum að þessu sinni. Sigurður á og rekur Bernhöftsbakarí sem staðsett er í hjarta miðborgarinnar við Klapparstíg 3. Hann er orðinn frægur fyrir að bjóða upp á rjómabollur til sölu allan ársins í hring um helgar og þær rjúka út líkt og heitar lummur.
„Þær seljast ávallt upp og það er deginum ljósara að Íslendingar eru sólgnir í rjómabollur,“ segir Sigurður og hlær.
Á dögunum gerði Sigurður nýja útgáfu af bollum með nýrri fyllingu og skreytti með vanillurjóma, jarðarberjum og myntulaufum með glæsilegri útkomu. Þær slógu í gegn og færri fengu en vildu. Hann ákvað að deila uppskriftinni með lesendum Matarvefsins.
„Innblásturinn fékk ég frá Sumarköku Sofiu sem ég gerði í sumar þar sem jarðarber, myntulauf og vanillurjóminn gera útslagið. Þessi uppskrift gefur um 20 stykki bollur. Meðfylgjandi er uppskrift af heimagerðum möndlumassa en það er líka hægt að kaupa tilbúinn Odense kransamassa í næstu matvöruverslun ef fólk vill spara sér tíma,“ segir Sigurður.
Ef ykkur langar að slá í gegn í næsta helgarkaffi eru þessar málið.
Girnilegar sælkerabollurnar hennar Sofiu og gullfallegar.
mbl.is/Karítas
Sælkerabollur Sofiu
Vatnsdeigsbollur
20 stk.
- 380 g vatn
- 140 g smjör
- 10 g salt
- 280 g hveiti
- 10 stk. egg
Aðferð:
- Hitið vatn að suðu ásamt smjörinu og saltinu.
- Bætið síðan hveitinu út í á meðan hrært er stöðugt og ristið blönduna þar til hún losnar frá trésleifinni og botninum á pottinum.
- Setjið strax í hrærivélapott og látið kólna niður þar til deigið orðið volgt.
- Notið spaðann og blandið smám saman eggjunum saman við.
- Magnið af eggjum sem þið bætið við fer eftir því hversu þykk blandan er.
- Deigið á að vera aðeins seigt.
- Ef eggja magnið er of hátt lekur þetta allt út við bakstur og hrynur saman.
- Fyllið sprautupoka með stjörnustút (nr. 13) og sprautið deigið á plötu í rósettu.
- Bakið í forhituðum ofni við 210°C hita þar til bollurnar hafa lyft sér og bakið vel (þurrt) til að koma í veg fyrir að þær falli saman.
- Bökunartími er um það bil 25 mínútur, það fer reyndar eftir ofnum og getur vel verið allt að 35 mínútur fyrir stórar bollur.
Möndlumassi
- 200 g hýðislausar möndlur
- 100 g flórsykur
- 1 msk. eggjahvíta
- 1 tsk. vatn
Aðferð:
- Hrærið möndlurnar í matvinnsluvél í grófan mola, ekki ofblanda.
- Setjið í skál og bætið eggjahvítunni, vatni og flórsykri saman við.
- Hrærið þar til það byrjar að blandast eins og deig.
- Þrýstið í pylsuform, pakkið inn og setjið í ísskáp þar til nota á massann.
Fylling
- 200 g möndlumassi
- 100 -150 ml mjólk
- 1 msk. flórsykur
Aðferð:
- Vigtið 200 g af möndlumassanum (afganginn til að nota í annan tíma).
- Rífið möndlumassann í skál og bætið svo mjólkinni og saman við til að fá slétt deig með flórsykrinum.
- Það ætti að vera gott og mjúkt til að sprauta, þið gætuð þurft að bæta við meiri mjólk en tilgreint er ef massinn er of stífur.
Vanillurjómi
- 1 l rjómi
- 2 stk. vanillustangir
Aðferð:
- Stífþeytið rjómann með vanillufræjunum innan úr vanillustöngunum.
Samsetning:
- Skerið bollurnar í tvennt, sprautið um 45 g af fyllingu á botninn og sprautið svo um 50 g vanillu rjóma ofan á.
- Setjið lokið á og sigtið flórsykur yfir.
- Í lokin er sprautuð rósetta í miðjuna og skreytt með jarðarberi og myntulaufum eftir smekk.
Syndsamlega gott að njóta.
mbl.is/Karítas