Í tilefni Bleika dagsins á morgun, miðvikudaginn 23. október, ætlar að Hanna Thordarson leirlistakona og ástríðubakari að baka þessa dýrðlegu snúðaslaufu sem hefur fengið nafnið Bleika slaufan.
Gaman að leika með ný form
Hanna er einstaklega lagin við að galdra fram kræsingar sem fanga bæði augu og munn og hér er hún með snúða sem mynda þessa fallegu slaufu.
„Mér finnst bara svo gaman að leika mér með nýjar útgáfur og ný form. Að þessu sinni er það slaufuform en það má líka rúlla upp í einn stóran snúð og baka í leirpotti eða baka 18 aðskilda snúða. En það má klárlega gleðja einhvern með einni bleikri slaufu í tilefni Bleika dagsins á morgun. Þannig langar mig að styðja málefnið í verki og allar þær konur sem hafa fengið krabbamein,“ segir Hanna.
Á Bleika deginum eru landsmenn hvattir til að fara alla leið með bleika litinn, klæðast bleiku, bjóða upp á bleikar kræsingar, lýsa upp umhverfið í bleiku og sýna þannig í verki stuðning sinn til allra þeirra kvenna sem greinst hafa með krabbamein.
Hanna deilir hér með lesendum Matarvefsins uppskriftinni og bendir einnig á að upplagt að búa hindberjafyllinguna til fyrr um daginn eða daginn áður en baka á snúðaslaufuna.
Sjáið handbragð Hönnu hér fyrir neðan.
Girnilega snúðaslaufan hennar Hönnu og skemmtileg framsetning.
Ljósmynd/Hanna Thordarson
Bleika slaufan
Deig
- 3 tsk. þurrger
- 1 egg
- 3 dl mjólk
- 100 g smjör
- ½ dl sykur
- 1 tsk. saltflögur
- 1 tsk. kardimomma – steytt
- 8 – 9 dl hveiti
Aðferð:
- Byrjið á því að bræða smjör í potti.
- Þegar smjörið er bráðnað bætið þá mjólkinni saman við ásamt egginu og blandið saman (þá fæst oft mátulegur hiti, má alls ekki vera hærri en 37°C)
- Setjið þurrger, kardimommu og sykur saman í skál og blandið skvettu af mjólkurblöndunni saman við, hrærið saman.
- Bætið síðan við afgangi af mjólkurblöndunni ásamt hveiti, ágætt að setja 4 – 5 dl fyrst og hræra saman með sleikju.
- Blandið síðan saman við afgangi af hveitinu ásamt salti og hnoðið.
- Setjið klút yfir og látið hefast þar sem lítill trekkur er í um það bil eina klukkustund (yfirleitt tvöfaldast deigið að stærð).
- Takið deigið úr skálinni og setjið yfir hveitistráð borð.
- Fletjið út með kökukefli þannig að það verði ca. 40×50 cm að stærð.
- Dreifið smjörblöndunni yfir og síðan nær allri hindberjablöndunni eða dreifið sem einni blöndu, ágætt að fara ekki alveg að brúnunum (sjá uppskrift af fyllingunni fyrir neðan).
- Rúllið deiginu upp og togið aðeins í endana þannig að rúllan verði jafnari.
- Skiptið rúllunni í tvennt, skiptið síðan hverjum helmingi í þrjá hluta og svo hverjum þriðjungi í þrennt.
- Þetta verða 18 snúðar sem er raðað á smjörpappír og mótið úr þeim slaufu.
- Hægt er að mynda ýmislegt úr þeim eða hafa þá staka ef vill.
- Þegar þið eruð að skipta deiginu niður er gott að gera fyrst far með hnífnum og skera svo alveg niður þegar búið er að áætla stærð snúðanna, fyllingin getur aðeins lekið úr en það má bara dreifa því yfir snúðana eða setja það í kremið.
- Þegar þið myndið hjarta eða eitthvað annað þannig að snúðarnir liggja þétt saman er gott að hafa smá bil á milli þar sem þeir stækka við bakstur.
- Hitið ofninn í 215°C (yfir- og undirhiti) og leggið klút yfir slaufuna á meðan ofninn er að hitna.
- Þegar ofninn hefur náð hitanum, pískið þá eggið og penslið snúðinn með því. Bakið snúðinn í 15 – 20 mínútur, fylgist vel með síðustu mínúturnar svo hann verði ekki of dökkur.
- Látið snúðaslaufuna kólna.
- Þegar snúðaslaufan hefur kólnað þá setjið þið kremið yfir, sjá uppskrift fyrir neðan.
- Byrjið á því að sigta flórsykri yfir slaufuna og hellið síðan hindberjakreminu yfir hér og þar. Gott að nota skeið eða gaffal til að dreifa úr því, má vera frjálslegt.
- Berið fram og njótið í góðum félagsskap.
Fylling
- 50 g smjör
- 180 – 200 g frosin hindber
- ½ dl flórsykur
- 150 g hvítar súkkulaðiperlur
- 1 egg til að pensla með
Aðferð:
- Bræðið smjör ásamt hvíta súkkulaðinu og blandið vel saman.
- Maukið saman hindber og flórsykur, til dæmis með töfrasprota.
- Sumir eru ekki hrifnir af kornunum í hindberjunum og þá má sigta þau frá.
- Sigtaður safi er u.þ.b. 2 dl – ágætt að taka tæplega ¼ – ½ dl frá í kremið (bara eftir því hvað maður vill hafa mikið krem).
- Það má alveg blanda saman bræddu hvítsúkkulaðinu saman við hindberjasafann.
Krem ofan á
- ¼ – ½ dl sigtuð/ósigtuð hindberjablanda
- ½ – 1 dl rjómaostur (má sleppa)
- 1 – 1½ dl flórsykur
Aðferð:
- Blandið flórsykri saman við það sem eftir er af hindberjablöndunni.
- Bætið við rjómaosti og hrærið vel saman þar til blandan verður slétt og fín.
- Geymið þar til snúðaslaufan verður tilbúin.