Andrea Gunnarsdóttir, sælkeri og matarbloggari, heldur ávallt upp á bleikan október með því að töfra fram bleikar og girnilegar kræsingar sem gleðja alla sælkera. Í tilefni Bleika dagsins á morgun, miðvikudaginn 23. október, ætlar hún að bjóða upp á bleika ostaköku skreytta með jarðarberjum sem er ómótstæðilega girnileg.
Meira segja Rice Krispies-ið er bleikt.
Ljósmynd/Andrea Gunnarsdóttir
Ostakaka með jarðarberjum og Rice Krispies-botni
- 5 bollar Rice Krispies
- 1⁄4 bolli smjör
- 4 bollar sykurpúðar
- Bleikur matarlitur eftir smekk
- 200 g rjómaostur
- 1 bolli flórsykur
- 1 bolli rjómi
- 1 bolli nýmjólk
- 1 pk. Royal jarðarberjabúðingur
- Jarðarber eftir smekk
- 150 g hvítt súkkulaði, brætt
Aðferð:
- Byrjið á því að klæða kringlótt 26 cm smelluform með bökunarpappír.
- Bræðið smjörið í potti.
- Bætið sykurpúðunum í pottinn þegar smjörið er bráðnað og hrærið stöðugt í þar til sykurpúðarnir eru bráðnaðir og blandan orðin slétt.
- Setjið bleikan matarlit eftir smekk saman við og hrærið vel saman.
- Takið af hitanum og blandið Rice Krispies saman við með sleif.
- Takið síðan pottinn af og setjið blönduna í smellimótið.
- Þrýstið blöndunni í botninn á smelluforminu og setjið í ísskáp.
- Þeytið saman Royal jarðaberjabúðingi og nýmjólk og setjið í ísskáp í 5 mínútur.
- Blandið saman flórsykri og rjómaosti.
- Þeytið rjómann.
- Blandið saman búðingnum, rjómanum og rjómaostblöndunni.
- Hrærið bleikum matarlit saman við eftir smekk.
- Hellið blöndunni yfir Rice Krispies-botninn, strekkið plastfilmu yfir og setjið í frysti og hafið botninn þar þangað til 2 klukkutímar eru til stefnu áður en á að bera kökuna fram.
- Bræðið þá hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði.
- Blandið smá bleikum matarlit saman við.
- Skerið jarðarber í tvennt og dýfið í brædda súkkulaðið.
- Raðið jarðarberjunum yfir kökuna.
- Bætið smá bleikum matarlit út í súkkulaðið til viðbótar og dreifið yfir kökuna.
- Berið fram með þeyttum rjóma og jarðarberjum ef vill.