Auður Ögn Árnadóttir hjá 17 Sortum elskar fátt meira en að bera fram fallegar sælkera kræsingar sem fanga bæði augu og mun. Hún er byrjuð að undirbúa sig fyrir Bleika daginn sem fram undan á morgun, miðvikudaginn 23. október. Dagurinn er tileinkaður öllum konum sem hafa greinst með krabbamein og landsmenn eru hvattir til að taka þátt og sýna þannig stuðning í verki.
Hún ætlar að bjóða fjölskyldunni upp á þennan gullfallega tiramísú-eftirrétt sem tileinkaður er Bleiku slaufunni. Auður er þekkt fyrir sínar ljúffengu kökur og fallegu kökuskreytingar hjá 17 Sortum líkt og meðeigandi hennar Sylvía Haukdal en einhverjir töfrar gerðust þegar þær byrjuðu að leiða saman krafta sína í kökugerð.
Gullfallegt er að bera þennan rétt fram í fallegu háu kokteilglasi og skreyta með ferskum hindberjum.
mbl.is/Karítas
Innblásturinn fenginn í Frakklandsferð
„Þegar ég fór að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera fyrir Bleiku slaufuna var úr mörgu að velja. En að lokum fékk ég innblástur úr Frakklandsferð í haust þar sem allir markaðir voru fullir af hindberjum og ég kynntist þar nýjum drykk sem ber heitið Itallicus Spritz. Ég, eins og flestir, er komin með nettan leiða fyrir Aperol Spritz og langaði að prófa eitthvað nýtt og barþjónn einn í Nice benti mér á þennan. Hann er mög ferskur og með góðum sítruskeim sem spilar vel með hindberjunum,“ segir Auður.
Nýjasti uppáhalds líkjörinn hennar Auðar sem hún fékk í Nice í Frakklandi.
mbl.is/Karítas
Þessi fangar bæði augu og munn.
mbl.is/Karítas
Tiramísú Bleiku slaufunnar
Fyrir 6
Hindberjarsíróp
- 100 g hindber (mega vera frosin)
- 1,5 dl vatn
- 2 msk. Itallicus líkjör
- 2 msk. sítrónusafi
- 50 g sykur
Mascarponeblanda
- 70 g eggjahvítur
- 40 g eggjarauður
- 100 g sykur (skipt í tvennt)
- 250 g mascarpone-ostur
- 2 tsk. vanilla
Annað:
- 12 Lady fingers (keypt tilbúið)
Aðferð:
- Setjið öll innihaldsefni í sírópinu í blandara og látið ganga í nokkrar sekúndur.
- Sigtið í skál og setjið til hliðar.
- Þeytið síðan helminginn af sykrinum saman við eggjarauðurnar og vanilluna þar til blandan verður létt og ljós.
- Blandið mascarpone-ostinum saman við og þeytið þar til blandan verður til kekkjalaus.
- Þeytið síðan hinn helminginn af sykrinum með eggjahvítunum þar til þær eru stífþeyttar og blandið þeim þá saman við ostablönduna með sleikju.
- Takið Ladyfingers og veltið upp úr hindberjasírópinu, gott að láta kexið draga það vel í sig.
- Setjið í botninn á skálum eða staupum og hellið svo ostablöndunni yfir.
- Kælið í minnst tvo tíma eða yfir nótt.
- Gott er að setja annaðhvort afganginn af hindberjasírópinu yfir, eða frostþurrkuð hindber eins og Auður gerði hér.
- Skreytið með ferskum hindberjum og berið fram.
Bleiki liturinn fær að njóta sín hjá Auði á Bleika deginum.
mbl.is/Karítas