Gabríel Kristinn Bjarnason keppir víða um heim með kokkalandsliðinu. Í hjáverkum skrifaði hann bókina Þetta verður veisla!
Matreiðslumaðurinn Gabríel Kristinn mætir í viðtal með brakandi ferska nýja kokkabók undir hendinni; bókina Þetta verður veisla! Bókin er stútfull af einföldum eðalréttum sem munu áreiðanlega slá í gegn í veislum landsmanna. Gabríel er reyndur kokkur þrátt fyrir ungan aldur, en hann hefur verið í kokkalandsliðinu í fimm ár eða síðan hann var aðeins tvítugur að aldri.
Gabríel á ekki langt að sækja áhugann á kokkamennsku en faðir hans, Bjarni Gunnar Kristinsson, var kokkur á Hótel Sögu, á Skrúði og Grillinu, og móðir hans, Soffía Guðbjörg Þórðardóttir, þjónn.
„Þau kynntust á Grillinu og ég var þar mikið að skottast um þegar ég var barn. Mamma sagði að buxurnar mínar hefðu alltaf verið rauðar því ég skreið um öll gólf þar á rauða gólfteppinu,“ segir hann og brosir.
„Ég hafði ekki áhuga á matreiðslu sem barn en byrjaði að vinna hjá pabba þegar ég var fjórtán ára en hann var þá kokkur í Hörpu. Ég slapp þá við unglingavinnuna og þar voru aðeins betri laun. Ég var þar í of stórum kokkagöllum að hræra í of stórum pottum. Svo þegar við vinirnir vorum að ákveða í hvaða menntaskóla við færum þá valdi ég kokkinn. Ég ætlaði aldrei að gera það en ég hafði verið mikið í kringum pabba, hann var með sjónvarpsþætti og var í kokkalandsliðinu. Í dag er hann dómari í landsliðinu,“ segir Gabríel.
„Ég fór því í MK og lærði kokkinn, en helmingurinn af náminu er að vinna á veitingastað og fór ég á Geira Smart, sem var reyndar ekki sami staður og hann er í dag. Þá unnu þar tveir kokkar sem voru í landsliðinu og þar átti ég geggjuð tvö ár. Eftir það kláraði ég samninginn á Hótel Sögu, uppi á Grilli, sem hafði alltaf verið draumurinn. Ég var síðasti neminn til að útskrifast þaðan áður en þar var lokað 2019,“ segir Gabríel sem fetaði þar með í fótspor föður síns.
„Það var alltaf markmið að ná að gera allt sem hann gerði. Eina sem er eftir er að vinna kokk ársins til að gera meira en hann,“ segir Gabríel og brosir.
Gabríel vann á veitingastaðnum Héðni og síðar á Michelin-staðnum Dill sem hann segir hafa verið frábært.
„Ég var ráðinn inn til að búa til matseðla fyrir Gunna Kalla, sem er draumadjobb,“ segir Gabríel sem tók þá ákvörðun um síðustu jól að hætta á Dill og vinnur hann nú í Fastus Expert þar sem hann selur öðrum kokkum ofna og aðrar græjur. Hann er þó síður en svo hættur að elda mat.
„Ég vil einbeita mér meira að kokkalandsliðinu því það var rosalega erfitt að vinna fimmtán tíma á dag á Dill fjóra daga í röð og taka svo fjóra daga í landsliðsæfingar. Þetta var of mikið,“ segir Gabríel og segir kokkalandsliðið æfa miklu meira en fólk geri sér grein fyrir.
„Við erum nú að æfa aðra hverja helgi í heilt ár og árið á eftir verðum við að æfa fjóra daga í viku allt árið,“ segir Gabríel og útskýrir að keppt sé í raun á tveggja ára fresti, annars vegar á heimsmeistaramóti og hins vegar á Ólympíuleikunum.
„Núna í ár lentum við í þriðja sæti á Ólympíuleikunum, sem er betri árangur en nokkurt íslenskt lið hefur náð þótt lítið sé talað um það,“ segir Gabríel, sem hefur margoft farið utan í keppnir.
„Þetta er mikil vinna, sérstaklega þegar maður notar alla frídagana sína í þetta. Ég byrjaði sem nemi hjá öllum flottu kokkunum. Mér finnst gaman að keppa í þessu; ég sé svolítið sportið í þessu. Ég náði ekki langt í fótbolta en næ að vera í þessu landsliði,“ segir Gabríel og brosir.
„Ég vann „besti ungkokkurinn á Norðurlöndunum“ árið 2020,“ segir Gabríel, en hann hefur keppt í ýmsum kokkakeppnum, meðal annars í hinni virtu Bocuse d'Or-keppni, en Gabríel var heil tvö ár að æfa sig fyrir þá keppni.
Hvernig mat eldar þú?
„Ég er mjög djarfur og finnst gaman að nota japanskar bragðtegundir; umami. Siggi á OTO hefur kannski smitað mig, en hann var yfirkokkur á Grillinu þegar ég var þar. Ég eyddi í raun fjórum árum með Sigga þannig að margt frá honum hefur límst við mig,“ segir hann.
Nú hefur Gabríel gefið út sína fyrstu kokkabók sem ber nafnið Þetta verður veisla!
„Ég hef gert mikið af því að elda í prívatveislum og finnst gaman að búa til veislurétti. Í bókinni eru margir réttir sem ég hef eldað í þessum veislum. Réttirnir eru í raun einfaldir þótt þeir líti ekki út fyrir að vera það. Mig langaði að gefa út bók með einföldum en flottum uppskriftum. Fólk getur þá fengið nýjar hugmyndir.“
Áttu þér uppáhaldsrétt?
„Það er erfitt að velja en djúpsteikta vafflan með lambatartar slær alltaf í gegn. Svo finnst mér rósavínskrapið með hvítsúkklaðimús skemmtilegur réttur.“
Gabríel deilir hér með lesendum einni uppskrift úr bókinni. Fleiri uppskriftir birtast eftir Gabríel á næstu dögum.
Ribeye-nautasteik, chili-hollandaise-sósa og kartöfluveisla
Ribeye-nautasteik
Aðferð:
Kartöfluveisla
Aðferð:
Stökk chili-hollandaise-sósa
Aðferð: