„Ég er með ólæknandi áhuga á mat og matargerð“

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og matgæðingur með meiru á heiður af …
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og matgæðingur með meiru á heiður af vikumatseðlinum sem er hinn girnilegasti. mbl.is/Hákon

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Rósa er mikill matgæðingur og fagurkeri og hefur gefið út nokkrar matreiðslubækur.  Hún leggur mikið upp úr því að elda sem mest sjálf og njóta með þess að borða með fjölskyldunni.

„Mér finnst mikilvægt að fjölskyldan setjist niður saman við kvöldmatarborð sem flesta daga og reyni mitt allra besta til að halda þeirri hefð. Við náum því oftast þótt annríkið sé oft á tíðum mikið. Ef ekki gefst tími til að elda sjálfur þá er hægt að grípa eitthvað tilbúið og taka með heim og borða saman, spjalla og ná jarðtengingu eftir líflegan dag,“ segir Rósa.

Rósa leggur mikið upp úr því að fjölskyldan eigi góðar …
Rósa leggur mikið upp úr því að fjölskyldan eigi góðar stundir yfir kvöldverðinum. mbl.is/Hákon

80/20 reglan er góð

„Ég legg mikið upp úr því að elda sem mest sjálf og þá úr fersku og góðu hráefni. Markmiðið er að fæðan sé um 80% hrein því þá veit ég að hún inniheldur alla þá næringu og góðu orku sem við þurfum á að halda. Þá er einfalt að njóta einhvers annars sem freistar á móti. Mjög gott að hafa 80/20 regluna til hliðsjónar.

Ég er með ólæknandi áhuga á mat og matargerð og öllu sem við kemur hráefni og áherslum í matargerðinni. Hef ég alltaf fylgst vel með straumum og stefnum í þessum efnum, enda verið eitt af aðaláhugamálunum frá unglingsaldri. Ég rækta kryddjurtir sjálf í matargerðina og er með dálitla grænmetisræktun líka. Það lyftir matreiðslunni upp í aðrar hæðir að fara út í garð og ná í og síðan nota eigin hráefni. Nú í lok október eru sumar kryddjurtirnar enn vel nýtanlegar og grænkálið í miklu fjöri. Ef aðstæður leyfðu þá gæti draumamatseðill vikunnar litið svona út hjá mér,“ segir Rósa að lokum.

Hér má sjá draumavikumatseðilinn hennar Rósu.

Mánudagur – Heimsins besti hafragrautur

„Að byrja daginn á staðgóðum og hollum morgunmat getur alveg breytt deginum og á mánudegi er tónninn gefinn fyrir vikuna. Þessi hafragrautur er sannkallaður hamingjugrautur og dásamlegt upphaf á hvaða degi sem er, svo ekki sé talað um á mánudegi. Dagurinn verður einfaldlega betri.“

Þriðjudagur – Lax sem skyndibiti

„Ég borða mikinn fisk og er lax og bleikja í algjöru uppáhaldi. Lax er stútfullur af Omega-3 og finnst mér hann ljúffengur í hvaða útfærslu sem er; eldaður, hrár, reyktur, grafinn og jafnt heitur sem kaldur. En mikilvægast er þó að ofelda ekki lax því þá verður hann þurr og ólystugur. Ég gæti haft lax eða bleikju á borðum 3-4 sinnum í viku en heimilisfólkið væri nú kannski ekki allt spennt fyrir því. Hér er einföld uppskrift úr smiðju Nönnu Rögnvaldar sem er fljótleg og freistandi.“

Miðvikudagur – Þorskhnakki og humarvorrúllur

„Á mögnuðum miðvikudegi freistar mín að útbúa þorskhnakka að forskrift snillinganna á veitingastaðnum GOTT í Vestmannaeyjum þar sem Sigurður Gíslason og Berglind Sigmars ráða ríkjum. Allur maturinn sem þau bjóða upp á, hvort heldur sem er á veitingastaðnum eða uppskriftirnar í matreiðslubókunum þeirra, er einstaklega ljúffengur og girnilegur.“

Fimmtudagur – Tortillusúpa með kjúkling

„Þessi árstími er tilvalinn fyrir yljandi og ljúffenga súpu. Matarmiklar súpur gerðar frá grunni úr góðu hráefni eru einfaldlega æðislegar. Það er einfalt og þægilegt að skella í góða súpu og gaf ég út fyrir nokkrum árum bók, „Hollar og heillandi súpur“ ,með öllum mínum uppáhaldsuppskriftum að súpum sem ég nota alltaf mikið. Hér er uppskrift að einni góðri úr bókinni en matur undir mexíkóskum áhrifum er sívinsæll hjá mínu heimilisfólki: 

Föstudagur – Pítsa Bianca með kartöflum og timian

„Það eru margir sem hafa skapað sér þá hefð að búa saman til pítsur á föstudagskvöldum þegar tími og aðstæður leyfa. Og hjá sumum er það einfaldlega ómissandi. Við höfum ekki komið okkur upp slíkri föstudagshefð þótt án efa myndu einhverjir á heimilinu óska sér þess að svo væri. En eftir að fjárfest var í pítsaofni á heimilið í fyrra hefur pítsugerðin verið mun skemmtilegri en áður því pítsurnar færast á annað plan hvað gæði og girnileika varðar. Í sumar voru pítsur með hvítum botni og ,,öðruvísi“ áleggi vinsælar á heimilinu, „pizza bianca“ eins og þær kallast á Ítalíu. Í stað hefðbundinnar tómatpítsusósu, krydds og kjötáleggs, er notaður rjómaostur á botninn og gjarnan burrata,- mozzarella- eða geitaostur ofan á. Annað álegg er til dæmir perur, humar, pekanhnetur og hunang, svo eitthvað sé nefnt og klettasalati dreift yfir pítsurnar eftir bakstur. Hvítar pítsur eru einfaldlega sjúklega góðar og góð tilbreyting. Hér fann ég tillögu að einni slíkri sem hægt er að styðjast við en svo er bara að láta hugmyndaflugið leika lausum hala og nota þá osta og hráefni sem hver og einn vill.“

Laugardagur - Sparikjúklingur

„Kjúklingur er alltaf vinsæll á heimilinu og elda ég hann mjög mikið, kjúllinn er stútfullur af próteini og möguleikarnir í matreiðslunni óþrjótandi. Kjúklingakjöt er svo frábært hráefni, langflestum finnst það gott og hægt að skala matreiðsluna „upp og niður“ eftir því hvað hentar hverju sinni. Kjúlli er frábær hversdags, til spari, á hlaupum og allt þar á milli. Ég hef í gegnum árin sífellt verið að prófa eitthvað nýtt með kjúklingakjöt eins og flestir líklega en auðvitað eru nokkrir réttir orðnir klassík og komnir með viðurnefnið „mömmukjúlli“. Hér er uppskrift sem hljómar spennandi og öðruvísi og væri gaman að prófa við tækifæri: 

Sunnudagur – Risarækjutaco með maís- og límónusalati

Við erum oft með alls kyns tacorétti í kvöldmat. Það er vinsælt og þægilegt að elda hakk eða kjúkling, setja í skálar niðurskorið grænmeti, sósur og niðurrifinn ost og bera fram. Þá getur hver og einn fyllt tortillakökurnar því áleggi sem hann vill. Undanfarin misseri hef ég verið með risarækjuþema til tilbreytingar og því fylgir annað meðlæti en þegar hakk eða kjúklingur eru aðal uppistaðan, eins og avókadó- eða mangósalsa, ferskt kóríander er ómissandi, límónur og bragðsterk sósa. Nú er svo komið að risarækjutaco hefur gjörsamlega slegið í gegn á mínu heimili og einhvern veginn geri ég aldrei nóg sama hvað ég margfalda uppskriftirnar mikið. Það er um að gera að prófa sig áfram með rækjutacorétti, velja sósur og meðlæti eftir smekk en hér er uppskrift sem kemur manni alveg í rétta gírinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert