Jón K. B. Sigfússon matreiðslumeistari til margra áratuga á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Hann hefur komið víða við í gegnum tíðina. Hann hefur starfað á stórum og smáum veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni en tengir sig við Friðheima í Bláskógabyggð sem er hans heimabyggð. Þar hefur hann starfað frá því aðmóttaka ferðamanna hófst samhliða veitingaþjónustu.
Nú er hann aðeins farinn að hægja á og stundar ekki daglega vinnu í eldhúsi en er alltaf með hugann við mat og þá sérstaklega matinn á Friðheimum þar sem hjartað slær.
„Það hafa verið forréttindi að starfa hér með fólki sem kemur alls staðar að úr heiminum og að taka á móti áhugasömum gestum jafnt innlendum sem erlendum. Aðaláhugamál minnt er matur í víðu samhengi. Matur tengist menningu sterkum böndum. Það er mjög gaman að stúdera mat út frá ýmsum hliðum. Matvælaframleiðsla, hráefni og aðferðir við matreiðslu eru mismunandi eftir heimshlutum, löndum og landsvæðum. Það er í raun gaman að setja upp mismunandi gleraugu og skoða mat út frá menningu, sögu, þjóðfræði, landafræði, mismunandi bragði, smekk og svo framvegis,“ segir Jón sposkur á svip.
„Ef stuðst er við erlendar uppskriftir í matreiðslu er yfirleitt auðvelt að skipta út hráefni og nýta frekar ferskt íslenskt hráefni úr nærumhverfi.Til dæmis má þar nefna ferskar kryddjurtir og grænmeti sem ræktað er á Íslandi allt árið. Persónulega tek ég alltaf ferska íslenska vöru fram yfir innfluttar vörur, í því samhengi má nefna niðursoðna tómata og sitthvað fleira. Einnig er nauðsynlegt að taka mið af árstíðabundnu framboði af hráefni. Íslensk matvælaframleiðsla er í hæsta gæðaflokki í heiminum og við þurfum að styðja við bakið á henni,“ segir Jón ennfremur.
„Þegar kom að því að velja uppskriftir Matarvef mbl.is vandaðist málið. Þar er mikið úrval af girnilegum frábærum réttum, ég á hins vegar mjög erfitt með að fara eftir nákvæmum uppskriftum og í raun veit ég ekki alltaf hvernig vegferðin endar þegar ég legg af stað í eldhúsinu,“ segir Jón og hlær.
Hann tók þó saman uppskriftir af Matarvefnum og útbjó sinn draumavikumatseðil fyrir lesendur.
„Mánudagur – Plokkfiskbaka Laugalækjar
„Plokkfiskur er viðeigandi á mánudegi.“
Þriðjudagur – Ostafylltar kjúklingabringur í rjómalegi
„Girnilegar kjúklingabringur sem bragð er af gleðja ávallt.“
Miðvikudagur – Ítalskar kjötbollur með mozzarella-fyllingu
„Ég er hrifinn af bragðmiklum og góðum kjötbollum með ítölsku ívafi. Ég myndi samt nota Friðheima pastasósu í stað marinera sósunnar.“
Fimmtudagur – Ljúffengur þorskhnakki
„Mér finnst mjög gott að borða fisk nokkru sinnum í viku og sérstaklega gaman að leika sér með bragð og áferð.“
Föstudagur – Grillaður kjúklingur með fennel og sítrónu
„Ekta föstudagsmatur sem gleður bragðlaukana.“
Laugardagur – Fiskipanna með sveppum og karrí
„Fiskur er ávallt vinsæll hjá mér og mínum og herramanns matur á laugardagskvöldi.“
Sunnudagur – Súkkulaðilæri með vanillu og möndlum
„Læri er góður sunnudagsmatur og hér er lag að fara alveg nýja leið með lærið.“