Berglindi dreymir um mann til að elda fyrir sig

Berglind Guðmunds lífskúnstner og frambjóðandi ljóstrar upp eldhúsleyndarmálunum.
Berglind Guðmunds lífskúnstner og frambjóðandi ljóstrar upp eldhúsleyndarmálunum. mbl.is/Karítas

Berg­lind Guðmunds lífs­k­únstner er þekkt fyr­ir að vera mik­ill gleðigjafi og leggja sitt af mörk­um til að öðrum líði vel. Hún er líka fag­ur­keri og henn­ar bestu stund­ir eru í eld­hús­inu með sínu besta fólki.

Hún starfar sem hjúkr­un­ar­fræðing­ur, far­ar­stjóri og er nú kom­in í fram­boð en hún er fram­bjóðandi Viðreisn­ar í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður. Áhuga­svið henn­ar er vítt en hún hef­ur meðal ann­ars áhuga á ferðalög­um, and­legri líðan og öllu því sem eyk­ur gæði og gleði lífs­ins. Hún held­ur úti In­sta­gramsíðunni sem ber heitið lífs­gleðin sem lýs­ir henni vel.

„Ég vil minna mig, og þá um leið aðra á að hægja á, njóta litlu hlut­anna, láta gott af sér leiða og finna þakk­lætið,“ seg­ir Berg­lind og bros­ir sínu geislandi brosi.

„Þar sem nú stytt­ist óðfluga í kosn­ing­ar vil ég hvetja fólk til að mæta á kjörstað á laug­ar­dag og kjósa. Reyna að hafa dag­inn sem huggu­leg­ast­an, skella sér í sitt fín­asta púss og eiga góða stund með fólk­inu sínu.“

Bakst­ur­inn fór í rugl

Þrátt fyr­ir mikl­ar ann­ir þessa dag­ana, þar sem hún er á kafi í miðri kosn­inga­bar­áttu, ljóstr­ar hún upp fyr­ir les­end­um Mat­ar­vefs­ins hvað henni finnst vera ómiss­andi að eiga í eld­hús­inu.

Hvað finnst þér ómiss­andi að eiga í eld­hús­inu?

„Staðal­búnaður í eld­hús­inu er ólífu­olía frá Olifa, sjáv­ar­salt frá Salt­verk, ilm­kerti og þá sér­stak­lega Storm­ur frá Urð. Áfeng­is­laust rauðvín frá Odd­bird. Já og ég verð að nefna desi­lítra­mál, mjög mik­il­vægt. Ég var án þess í nokkr­ar vik­ur og bakst­ur­inn fór í rugl. Svo elska ég öll tæki sem létta mér lífið, og í eld­hús­inu er það uppþvotta­vél­in. Ef hún bil­ar þá fer allt á hliðina.“ 

Áttu þér upp­á­halds­gla­salínu?

„Ég er voðal­ega hrif­in af iittala glös­un­um og hef verið að eign­ast þau smám sam­an. Ég á nokk­ur rauðvíns- og bjórglös frá þeim og lang­ar að eign­ast kampa­víns­glös­in. Þó ég drekki ekki áfengi þá er mér samt um­hugað að fá drykk­ina mína í fal­leg­um glös­um.“

Hvað finnst þér vera heit­asta trendið í eld­húsið núna?

„Heit­asta trendið á þess­um árs­tíma er að mínu mati alltaf huggu­leg­heit. Kósí sam­veru­stund­ir með fólk­inu okk­ar, mat­ar eða bakst­urslykt, kerta­ljós og kær­leik­ur. Með hverju ár­inu sem líður er ég alltaf meira og meira meðvituð um það hvað skipt­ir mestu máli í líf­inu og sam­veru­stund­irn­ar eru dýr­mæt­ar.“ 

App­el­sínu­gul­ur kem­ur sterk­ur inn

Hvaða lit­ur er að koma sterk­ur inn að þínu mati?

„App­el­sínu­gul­ur er að koma mjög sterk­ur inn þessa dag­ana og það gleður.“

Upp­á­halds­hnífa­settið?

Global hnífarn­ir henn­ar mömmu. Þeir eru geggjaðir.“

Plast- eða viðarbretti?

„Viðarbretti eru miklu meira kósí og fal­leg, en á sama tíma elska ég samt allt sem ég get sett í uppþvotta­vél­ina.“

Ertu með kaffi­vél í eld­hús­inu?

„Já, ég á dá­sam­lega Nespresso vél og við byrj­um alla morgna sam­an.“

Áttu þér þinn upp­á­haldskaffi­bolla?

„Besta kaffið fæ ég á Ítal­íu. Það er sama hvar á Ítal­íu ég er þá er alltaf hægt að treysta því að kaffið sé upp á tíu. Þar elska ég að byrja dag­inn á hverf­isstað og fæ mér einn rót­sterk­an espresso og sæt­meti með eins og cornetto með vanillukremi. Ég sakna svo sann­ar­lega Ítal­íu minn­ar.“

Berglind er hrifin af appelsínugulum lit og skartar hér glæsilegum …
Berg­lind er hrif­in af app­el­sínu­gul­um lit og skart­ar hér glæsi­leg­um app­el­sínu gul­um pels í eld­hús­inu með morgunkaffi­bolla sinn við hönd. mbl.is/​Karítas

Breyt­ir þú eld­hús­inu eft­ir árstíðum, hvað varðar liti og annað slíkt?

„Ég breytti eld­hús­inu mínu fyr­ir ein­hverj­um árum síðan og er bara hæst­ánægð með það. Ég er rosa­lega lít­il skreyt­ing­ar­kona, meira svona Gyða Sól, en um­kringd dá­sam­lega hæfi­leika­ríku fólki sem pikk­ar í mig og aðstoðar þegar það er kom­inn tími á breyt­ing­ar.“

Upp­á­haldsstaður­inn í eld­hús­inu?

„Eld­húsið allt en þar eru oft­ast bestu stund­irn­ar. Upp­á­haldið mitt er þegar börn­in mín fjög­ur og tengda­dótt­ir eru í mat og eru að hlæja og eiga góðan stund á meðan ég er að sinna elda­mennsk­unni. Það eru svona stund­ir þar sem ég fæ gott í hjartað.“

Áttu þér drauma­elda­vél?

„Ég er með geggjaða gaselda­vél og vel alltaf gas fram yfir annað.“ 

Ertu með kerti í eld­hús­inu?

„Já, ég elska kerta­ljós og aðallega ilm­kerti. Ég er með ilm­kerta­blæti á háu stigi og elska að fá góða lykt á heim­ilið.

Berglind er með ilmkertablæti á háu stigi að eigin sögn …
Berg­lind er með ilm­kerta­blæti á háu stigi að eig­in sögn og elsk­ar að fá góða lykt á heim­ilið. mbl.is/​Karítas

Elsk­ar að vera kring­um þannig fólk 

Finnst þér skipta máli að leggja fal­lega á borð?

„Já, það skipt­ir 100% máli upp á upp­lif­un­ina og hversu vel maður nýt­ur mat­ar­ins og ég elska að vera í kring­um fólk sem er þannig. En yf­ir­leitt þá brussa ég öllu á borðið í flýti. Er samt að æfa mig í nú­vit­und­inni og gera hluti hægt og vel, það má segja að það sé enn rými til bæt­ing­ar. En yfir hátíðir og á tylli­dög­um legg ég metnað og alúð í borðskreyt­ing­ar og þannig dúlle­rí.“ 

Hvað dreym­ir þig um að eign­ast í eld­húsið?

„Mann til að elda fyr­ir mig, smá grín en samt eig­in­lega bara alls ekki.“ 

Áttu grill?

„Já, ég á We­ber ferðagrill sem er fínt á litlu svöl­un­um mín­um og gott til síns brúks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert