Byggði Big Ben klukkuturninn úr piparkökum

Heba Guðrún Nielsen gerði sér lítið fyrir og hannaði og …
Heba Guðrún Nielsen gerði sér lítið fyrir og hannaði og byggði Big Ben-klukkuturninn í London úr piparkökum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Heba Guðrún Nielsen gerði sér lítið fyrir og hannaði og byggði Big Ben-klukkuturninn í London úr piparkökum. Big Ben er stórfenglegt mannvirki og töfrandi að sjá þessa glæsilegu byggingu byggða úr piparkökum og í jólabúning.

Big Ben er stórfenglegt mannvirki og töfrandi að sjá þessa …
Big Ben er stórfenglegt mannvirki og töfrandi að sjá þessa glæsilegu byggingu byggða úr piparkökum og í jólabúning. mbl.is/Arnþór Birkisson

Í fyrra gerði hún fallegasta Eiffelturn sem sést hefur hér á landi úr piparkökum en Eiffelturninn er eitt frægasta mannvirkið í París. Síðan toppaði hún sig nokkrum dögum síðar og gerði Tower Bridge-brúnna frægu í London úr piparkökum með stórkostlegri útkomu.

Dundar sér við að setja saman piparkökuhús fyrir jól

Heba Guðrún er 24 ára gömul stelpa frá Seltjarnarnesi sem hefur áhuga á allri handavinnu og nýtur þess að skapa með höndunum. Listrænir hæfileikar hennar skína í gegn þegar piparkökumannvirkin eru skoðuð og hún kann svo sannarlega til verka þegar hanna á módelbyggingar. Hún hannar verkin sín sjálf frá grunni, setur saman og skreytir á einstaklega fallegan hátt.

Heba Guðrún hugsar fyrir hverju smáatriðið. Klukkuturninn er fagurlega skreyttur.
Heba Guðrún hugsar fyrir hverju smáatriðið. Klukkuturninn er fagurlega skreyttur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hún elskar þennan árstíma og þá blómstra líka sköpunarhæfileikarnir. „Jólin eru uppáhaldstíminn minn á árinu og elska ég allt sem tengist þeim. Undanfarin jól hef ég dundað mér við að setja saman flott piparkökuhús. Þá vel ég mér yfirleitt einhverjar þekktar og sögulegar byggingar til þess að skapa úr piparkökum og skreyta. Í ár hannaði ég og byggði Big Ben-klukkuturninn í London, sem var bæði skapandi og krefjandi verkefni, en það gefur mér ávallt mikla ánægju að sjá lokaútkomuna,“ segir Heba Guðrún og brosir.

Hver var fyrsta fræga byggingin sem þú gerðir úr piparkökum?

„Fyrsta stóra piparkökuhúsið sem ég bjó til var um jólin 2022. Þá bjó ég til nokkurs konar Brownstone-hús, sem New York-borg er þekkt fyrir. Það tók mig um þrjár vikur að hanna það og setja saman. Ég hef í heildina sett saman fimm piparkökubyggingar. Stundum hefur mér ekki fundist nóg að gera bara eitt hús hver jól,“ segir Heba Guðrún og hlær.

Heba Guðrún byrjar á því að teikna húsin upp, byggja …
Heba Guðrún byrjar á því að teikna húsin upp, byggja þau svo í pappa og skera út mót. Síðan þarf að skera út hvern og einn hluta úr piparkökudeigi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aðspurð segir Heba Guðrún að það sé misjafnt hversu langan tíma tekur að hanna og setja saman mannvirki eins og þessi piparkökuhús.

„Það fer eftir hversu stór byggingin á að vera og hversu erfitt er að hanna hana. Sumar eru auðveldari en aðrar en það tekur mig sirka tvær vikur. Það felur í sér að teikna húsin upp, byggja þau í pappa og skera út mót. Svo þarf að skera út hvern og einn hluta úr piparkökudeigi, ég vil helst frysta deigið yfir nótt áður en ég baka hlutana.

Falleg lýsing kemur frá Big Ben og jólasnjórinn fær að …
Falleg lýsing kemur frá Big Ben og jólasnjórinn fær að njóta sín. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fyrst og fremst er vert að hafa í huga að æfingin skapar meistarann. Þetta á bara að vera skemmtilegt og ekki hafa áhyggjur af því ef húsin eru ekki fullkomin því það er alltaf hægt að fela þau með kremi.“

Um það bil mánuð að hanna og setja saman Big Ben

Big Ben-klukkuturninn er stórt mannvirki og útkoman á verki Hebu Guðrúnar er stórkostleg. „Ég var um það bil mánuð að hanna Big Ben og setja hann saman frá grunni. Þetta er áhugamál sem ég sinni þegar ég hef tíma, samhliða vinnunni minni. Að mínu mati finnst mér Big Ben hafa verið mest krefjandi byggingin til þess að setja saman en uppáhaldspiparkökuhúsin sem ég hef gert eru Big Benog Eiffelturnin.“

„Vil að vinna mín hvetji aðra“

Heba Guðrún vill láta gott af sér leiða og hvetja aðra til dáða í verkefni sem þessu. „Ég vil að mín vinna hvetji aðra til að prufa eitthvað nýtt, jafnvel þótt það virðist krefjandi í fyrstu. Piparkökuhús þurfa ekki að vera fullkomin til að vera falleg og einstök,“ segir Heba Guðrún og brosir sínu fallega og einlæga brosi.

Flauelsslaufurnar setja fallegan svip á bygginguna.
Flauelsslaufurnar setja fallegan svip á bygginguna. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert