Finnur Prigge, ungi bakarinn knái og meðlimur í bakaralandsliði Íslands, á heiðurinn af uppskriftinni fyrir helgarbaksturinn. Hann er einstaklega hæfileikaríkur bakari og er iðinn við að þróa uppskriftir frá bernskuárunum og/eða sem eiga sér sögu með stórfenglegri útkomu.
Þar sem aðventan er handan við hornið býður Finnur lesendum upp á dásamlega uppskrift að sörum sem eiga eftir að fanga bæði augu og munn.
Sörurnar hans er guðdómlega ljúffengar og mikið augnakonfekt.
Ljósmynd/Finnur Prigge
„Þessa uppskrift þróaði ég í 10. bekk og hef gert þær öll jól síðan. Ég hef pakkað þeim fallega inn í jólabúning og gefið vinum og vandamönnum fyrir hátíðirnar. Það hefur ávallt slegið í gegn þar sem ég nota eingöngu besta hráefni sem ég hef aðgang að. Til að mynda nota ég ávallt espressoskot en ekki instant kaffi og svo þar sem súkkulaðibragðið á að vera mjög ríkjandi nota ég alltaf Callebaut-súkkulaði frá Belgíu sem fæst í Hagkaup. Bragðið gerir gæfumuninn,“ segir Finnur og brosir.
Sjáið handbragðið hans Finns hér fyrir neðan:
Fullkomin stærð á söru.
Ljósmynd/Finnur Prigge
Sörur úr belgísku súkkulaði
Botnar
- 4 eggjahvítur
- 240 g flórsykur
- 250 g möndlumjöl
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°C hita.
- Stífþeytið eggjahvítur og blandið á meðan flórsykri og möndlumjöli í sér skál.
- Blandið þeyttu eggjahvítunum saman við í nokkrum hlutum með sleikju og passið að hræra ekki allt loftið úr deiginu.
- Sprautið með sprautupoka 2-3 cm doppur á smjörpappír og bakið í um það bil 10 mínútur.
Dökkur súkkulaðiganash
- 75 g rjómi
- 150 g Callebaut-súkkulaði
Aðferð:
- Setjið rjóma í pott og hitið að suðu.
- Blandið súkkulaðinu við og setjið til hliðar.
Krem
- 200 g flórsykur
- 4 eggjarauður
- 1 tsk. vanilludropar
- 30 g síróp, hitað í örbylgjuofni
- 300 g mjúkt smjör
- 1 espresso skot (kalt)
- 225 g dökkur súkkulaðiganash
Aðferð:
- Þeytið saman eggjarauður og flórsykur þar til blandan verður létt og ljós.
- Setjið síróp, vanilludropa út í og svo smjörið í nokkrum hlutum.
- Setjið dökka súkkulaðiganashinn út í og blandið vel saman
- Loks hellið þið espressoskotinu út í á miðlungshraða og blandið saman þar til áferðin verður létt og falleg.
Hjúpur
- 300 g Callebaut-súkkulaði
- 50 g kakósmjör
Samsetning:
- Snúið botnunum við og sprautið eða smyrjið kremi á þá.
- Setjið í kæli yfir nótt.
- Temprið súkkulaði og kakósmjör eins og stendur á súkkulaðipakkningunni.
- Dýfið sörunum í súkkulaðið þannig að súkkulaðið hjúpi kremið og kyssi botninn.
- Frystið og geymið þar fyrir notkun.