Steikir milljón kökur

Bakari Davíð Þór Vilhjálmsson með framleiðslu dagsins. Nýsteiktar á bakka …
Bakari Davíð Þór Vilhjálmsson með framleiðslu dagsins. Nýsteiktar á bakka og mikið er komið í dunkana. Morgunblaðið/Karítas

Laufabrauðsvertíðin hjá Ömmubakstri-Gæðabakstri í Reykjavík stendur nú sem hæst og þúsundir af kökum verða þar til á hverjum degi. Vertíðin hófst í september en þunginn verður meiri eftir því sem nær dregur jólum, samanber þá íslensku hefð að laufabrauð þykir ómissandi á hátíðarborðum landsmanna.

„Við höldum í hefðirnar. Vinnum eftir uppskriftum sem gilt hafa í áratugi,“ segir Davíð Þór Vilhjálmsson framleiðslustjóri hjá Gæðabakstri. Unnið er eftir þeim bókum í laufabrauðsgerðinni sem gilt hafa hjá Kristjánsbakaríi á Akureyri og Ömmubakstri sem lengi var í Kópavogi, en þessi vörumerki eru nú hluti af starfsemi Gæðabaksturs.

Hveiti, salt, mjólk og smjörlíki

„Uppskriftin er í sjálfu sér ekki flókin; í laufabrauð þarf hveiti, salt, mjólk og smjörlíki. Deigið er flatt út, mynstur skorin með vél og svo eru kökurnar steiktar; en að jafnaði fara um 25 í pottinn í einu. Svo þarf að raða kökunum í box eða dunka sem gerir þessa framleiðslu nokkuð mannfreka. Í dag erum við 6-7 í þessari vinnu sem stendur alveg fram að jólum. Sennilega verður skammturinn á þessari vertíð milljón laufabrauðsökur og sennilega meira til,“ segir Davíð.

Mynstrin eru vélskorin í deigið sem er steikt á nokkrum …
Mynstrin eru vélskorin í deigið sem er steikt á nokkrum sekúndum. mbl.is/Karítas


Á Norðurlandi er sterk laufabrauðsmenning, svo sem í Þingeyjarsýslum og við Eyjafjörð. Forðum daga voru laufabrauðskökurnar raunar gjarnan kallaðar fátækrabrauð meðal Norðlendinga. Þá má tiltaka að menning tengd laufabrauði nær til landsins alls og víða þekkist að fjölskyldur komi saman snemma á aðventu og dundi sér dagstund í laufabrauðsskurði. Fyrir marga markar það upphaf jólaundirbúnings. Margir vilja svo þegar að útskurðinum kemur spara sér fyrirhöfn, kaupa tilbúið frosið deig en eiga gæðastund við skurð og steikingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert