Jólaútgáfan af Matarmarkaði Íslands verður haldin í Hörpu um helgina. Markaðsmömmurnar sem eru stofnendur markaðarins, segja að það verði mikið um dýrðir. Þær eru Eirný Sigurðardóttir, betur þekkt sem ostadrottning Íslands, og Hlédís Sveinsdóttir matgæðingur með meiru.
Markaðurinn hefur verið haldinn reglulega frá árinu 2011 og er elsti og stærsti matarmarkaður sem haldinn er á Íslandi. Fyrst fyrir utan osta- og sælkeraverslunina Búrið í Nóatúni.
„Síðan færðum við okkur yfir í Hörpuna árið 2014 og höfum verið þar síðan. Á jólamatarmarkaði Íslands koma saman bændur, sjómenn og smáframleiðendur víðs vegar af landinu. Vöruúrvalið er fjölbreytt en á það sameiginlegt að vera unnið af ástríðu og framleiðandinn stendur sjálfur á bak við vöruna, tilbúinn að segja frá og sýna. Markaðurinn verður haldinn á jarðhæð Hörpu í bæði Flóa og Norðurbryggju,“ segir Eirný með bros á vör.
„Það er alltaf sérstök stemning á matarmörkuðum og ég vil hvetja foreldra og forráðamenn til að taka yngri kynslóðina með og leyfa þeim að upplifa það sem þarna er í gangi. Matarmarkaður Íslands gengur út á uppruna matvæla, umhyggju framleiðenda og upplifun neytenda fyrst og fremst.“
Að sögn Eirnýjar var markaðurinn stofnaður með Slow Food hugsjónir að leiðarljósi til að tengja neytendur beint við framleiðendur og bjóða vöru sem hefur slagorðið Slow Food - Good, Clean and Fair.
„Við höfum það til dæmis sem reglu að framleiðandi vöru verður að vera á markaðnum til að miðla þekkingu, svara spurningum og fá tengingu við neytendur. Þannig að allir séu meðvitaðir um uppruna vörunnar, umhyggju framleiðandans fyrir henni og fái upplifunina beint í æð.
Margir framleiðendur hafa verið með okkur frá upphafi og hafa mótað viðburðinn með okkur. En alltaf gaman að bjóða nýja framleiðendur velkomna á matarmarkaðsfjölskylduna. Markaðurinn hefur ávallt verið vel sóttur í öllum veðrum og talning á gestum hefur verið allt frá 17 til 25 þúsund manns yfir 2 daga. Þegar mest var komu 35 þúsund gestir, en það var reyndar of mikið af því góða,“ segir Eirný og hlær.
Á matarmarkaðnum um helgina má meðal annars finna hangikjöt, villibráð, gæsalifrarmús, jólasíróp, þorskhnakka, reyktan hlýra, geitamjólkurosta, harðfisk, húðvörur með tólg, þarapopp, dökkt súkkulaði, viskí, grafið ærkjöt, reykt hreindýrakjöt, geitakasmír, ullarband og lífrænar gulrætur svo fátt sé nefnt. Listinn er mun lengri og úrvalið á, án ef eftir að koma gestum á óvart. Listinn er mun lengri og úrvalið á, án efa, eftir að koma gestum á óvart.
„Það er með öðrum orðum hægt að finna allt á veisluborðinu sem og í pakkana. Sérstaklega fyrir þau sem eiga allt, það er mjög sniðugt að gefa fallegan og góðan mat,“ segir Eirný.
„Á þessum markaði verður hann dásamlegi Róberto Tariello sem er framleiðandi í Þykkvabæ af dásemdar Salami, Salsiccia og fleira góðgæti. Hann hefur hafið innflutning á lífrænum Grana osti frá Reggiani-fjölskyldunni og á laugardaginn um klukkan 14 mun ég opna „Crack“-hjólið. Ég mun þá taka smá ostafræðsluspjall á meðan fyrir áhugasama,“ segir Eirný að lokum sem elskar fátt meira en að bjóða gestum og gangandi upp á kræsingar sem koma bragðlaukunum á flug.
Markaðurinn verður opinn bæði laugardag og sunnudag frá klukkan 11:00 til kl. 17:00 og er aðgangur ókeypis. Hægt er að fræðast nánar um markaðinn J