„Léttsaltaðar gellur, kinnar og hrogn með miklu smjöri er lostæti“

Nanna Ósk Jónsdóttir sælkeri með meiru býður upp á vikumatseðilinn …
Nanna Ósk Jónsdóttir sælkeri með meiru býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. Samsett mynd

Nanna Ósk Jónsdóttir sælkeri með meiru sviptir hulunni af draumamatseðli vikunnar. Hún leggur mikið upp úr því að eiga huggulegar samverustundir með fjölskyldunni, þegar gesti ber að garði og er mikil stemningskona.

Nönnu finnst hvert augnablik vera safn dýrmætra minninga. Hún er mikill orkubolti og er sjaldnast bara með einn bolta á lofti í einu. Hún er tveggja barna móðir, mikil barnagæla og fagnar því að verða amma á nýju ári.

Hún er athafnakona, frumkvöðull á sviði danslista og stofnað fyrirtæki á því sviði, er með stúdentspróf frá Verzló og með meistarapróf í viðskiptafræði.

„Ég starfa í dag sem ritstjóri Sumarhússins og Garðsins hjá Birtingi enda er ég þeirrar skoðunar að konur geti ávallt á sig blómum bætt. Þessa dagana er ég einnig í diplómanámi til kennsluréttinda fyrir grunn- og framhaldsskólastig hjá Menntavísindasviði HÍ,“ segir Nanna sem nýtur þess að hafa nóg að gera. Hún hefur ávallt verið virk í félagsstarfi. „Í dag er ég ritari í stjórn foreldraráðs Verzlunarskóla Íslands og sit í varastjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna.“

Elskar að nostra við listina að búa til ljúffenga rétti

„Síðan er það matarástin, þegar ég gef mér tíma til að matreiða og baka elska ég að nostra við listina að búa til ljúffenga rétti og dísæta eftirrétti,“ segir Nanna og brosir. „Mér finnst afar gott að vera með fisk í matinn. Allur heimilismatur er í uppáhaldi og léttsaltaðar gellur, kinnar og hrogn með miklu smjöri finnst mér algjört lostæti.”

Nanna gaf sér tíma til að setja saman draumavikumatseðilinn sinn og ætlar að reyna sitt besta til að láta hann verða að veruleika.

Mánudagur - Lambakótilettur með kryddjurta-brauðskel

„Mér finnst mikilvægt að viðhalda gömlum hefðum frá þeim sem eldri eru og ylja börnunum upp við sömu réttina og ég ólst upp við. Það er svo annað mál, hvort þau kunni endilega að meta það”, segir Nanna og glottir. „Fínt að byrja vikuna á góðum heimilismat. Eins og lambakótilettum í raspi sem ég steiki upp úr miklu smjöri og býð upp á rauðkál, kartöflumús, orabaunir og rababarasultu með. Þess vegna valdi ég þessa uppskrift.“

Þriðjudagur- Pasta með risarækjum og hvítlauk

„Ég elska allt ítalskt og elda reglulega pasta með risarækjum.”

Miðvikudagur – Lasagna að hætti Jamie Olivers

Allir ítalskir réttir eru sérstakt áhugamál hjá mér og lasagna er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Það er sérstök stund hjá mér að spila ítalska tónlist, fá mér léttvín og matreiða þennan ljúffenga rétt. Ég set nánast hvítlauk í allt og engin undantekning er á því hér. Síðan set ég mikið af fersku basil og tómötum bæði í réttinn og skreyti.“

Fimmtudagur - Bleikja í taílenskri sesam- og engifermaríneringu

„Við elskum fisk og borðum hann að minnsta kosti tvisvar til þrisvar í viku. Mér finnst ávallt gott að fá fiskinn í góðri sósu og skella honum beint í ofninn með kartöflumús. Ég matreiði fisk gjarnan í ólífuolíu og bæti við chili, límónu, fersku engifer og kóríander og bæti síðan við grófu salti. Uppáhaldsfiskurinn minn er bleikja, silungur og lax en mér finnst langa og steinbítur einnig vera ljúfmeti.“ 

Föstudagur - Perusalat með önd

Þetta salat finnst mér vera af betri gerðinni. Ég elska ferskt salat, granatepli, mandarínur, perur, fetaost, önd og góða dressingu.”

Laugardagur - Humarpasta af betri gerðinni

„Einn af mínum uppáhaldsréttum er humarpasta sem ég elda reglulega og hann slær oftast í gegn hjá mér. Ég kaupi humar í skel, sker í miðjuna og steiki hann upp úr hvítlauk. Ég bæti síðan við fersku chili, kóríander og rjóma og set mikið af parmesan-osti út á.”

Sunnudagur - Grillað nauta rib-eye með fylltum sveppum og piparsósu

„Það er alltaf stemning að fá soninn til að hjálpa mér að grilla um helgar enda er hann ansi lunkinn við það. Nautakjöt er í sérlegu uppáhaldi, iðulega sérvalið. Með því eru gjarnan steiktir hvítlaukssveppir, bakaðar kartöflur og annað ljúfmeti.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert