Styrkja Mæðrastyrksnefnd um þrjár milljónir

Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri hjá Hagkaup er stoltur að geta sagt …
Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri hjá Hagkaup er stoltur að geta sagt frá að söfnun fyrir Mæðrastyrksnefnd og matargjafir á Akureyri hafi gengið virkilega vel. Samsett mynd

Mæðrastyrksnefnd eru samtök sem styðja við einstæða foreldra, öryrkja, eldri borgara og fjölskyldur með matar- og fataúthlutanir auk ýmissa styrkja sem veita efnalitlu fólki á Íslandi nauðsynlega aðstoð og úrræði. Starfsemi þeirra er virkilega mikilvæg allt árið, en ekki síst um jólin.

Dagana 3.-10. desember stóðu Hagkaup fyrir söfnun á sjálfsafgreiðslukössum í verslunum sínum. Þar bauðst viðskiptavinum Hagkaups að styrkja mæðrastyrksnefnd og mataraðstoð á Akureyri og nágrenni með því að bæta fimm hundruð krónum við innkaup sín. Hagkaup bætti svo við þá upphæð en í ár söfnuðust samtals þrjár milljónir sem Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups afhenti félögunum að því er fram kemur í tilkynningu frá Hagkaup.

„Enn eitt árið erum við stolt að segja frá því að söfnun fyrir Mæðrastyrksnefnd og matargjafir á Akureyri gekk virkilega vel. Við höfum boðið okkar viðskiptavinum að bæta 500 krónum við innkaupin sem renna óskert til þessara aðila, við þessa upphæð komum við svo með myndarlegt framlag og í ár getum við afhent 3.000.000 kr. til þessara verðugu félaga. Við erum þakklát okkar viðskiptavinum fyrir gríðarlega sterk viðbrögð við þessu kalli og þátttöku þeirra í söfnuninni. Ég vil nýta tækifærið og þakka okkar viðskiptavinum fyrir sitt framlag og óska þeim gleðilegra jóla,“ er haft eftir Sigurði Reynaldssyni framkvæmdastjóra, í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert