Eftirréttasósan sem allir elska

Meistarakokkurinn Völundur Snær Völundarson kann listina að búa til eftirréttasósu …
Meistarakokkurinn Völundur Snær Völundarson kann listina að búa til eftirréttasósu sem allir elska. Saltkaramellusósan hans klikkar ekki. Ljósmynd/Saga Sig

Völundur Snær Völundsson matreiðslumeistari, alla jafna kallaður Völli, er þekktur fyrir að töfra fram kræsingar sem heilla matargesti upp úr skónum. Nú þegar hátíðirnar eru fram undan og fjölmörg matarboð og veislur handan við hornið er gott að kunna listina að gleðja matargesti með góðum eftirrétt. Þá getur skipt sköpun að vera með leynitrix, eins og eftirréttasósu sem steinliggur. Hvort sem það er með jólaísnum, marenskökunni eða öðru góðgæti.

Saltkaramellusósan hans Völundar slær ávallt í gegn. Umami-saltið í sósunni …
Saltkaramellusósan hans Völundar slær ávallt í gegn. Umami-saltið í sósunni magnar upp karamellubragðið sem tekur sósuna upp á næsta stig. Ljósmynd/Saga Sig

Völli deilir hér með lesendum uppskrift að karamellusósu sem er tilvalin með eftirréttum um hátíðarnar. „Hér er á ferðinni sósa sem lætur ekki mikið yfir sér en er alveg frábær. Þetta er hefðbundin karamella sem bragðbætt er með umami-saltinu og breytist þannig í saltkaramellusósu eins og þær gerast bestar. Umami-bragðið magnar upp karamellubragðið sem tekur sósuna upp á næsta stig. Þetta er afar einföld sósa sem er í miklu uppáhaldi og passar með flestum eftirréttum.

Eftirréttasósan sem allir elska

  • 200 g sykur
  • 85 g ósaltað smjör
  • 120 ml rjómi
  • 1 tsk. umami-salt

Aðferð:

  1. Hitið sykurinn á pönnu og hrærið stöðugt í honum.
  2. Þegar sykurinn hefur bráðnað skal blanda smjörinu saman við. Hrærið vel og ef smjörið fer að skilja sig eða sykurinn fer að hlaupa í kekki skuluð þið taka af hitanum og hræra af krafti.
  3. Bætið því næst rjómanum saman við. Við þetta fer karamellan að sjóða og þykkna hratt.
  4. Þegar þið eruð komin með ákjósanlega þykkt skuluð þið taka af hellunni, blanda saltinu saman við og leyfa karamellunni að kólna.
  5. Athugið að karamellan þykknar þegar hún kólnar þannig að ekki hafa hana of lengi á hellunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert