Í Frakklandi er iðulega notast við Roquefort-ost sem er sérlega góður og passar vel á móti perum og hnetum, hann fæst sjaldan hér á landi en hægt er að fá Saint Agur sem hentar einkar vel. Þetta salat er tilvalið sem forréttur eða smáréttur á jóla- og áramótahlaðborðið.
Valhnetugráðostasalat með grilluðum perum og hnetu-vinaigrette
Fyrir 4
- 2 meðalstórar perur, vel þroskaðar og skornar í þunnar sneiðar
- 1-2 msk. bragðlaus olía
- 50-60 g valhnetukjarnar
- 1 salathaus af blönduðu salati eða jólasalat
- 100 g mygluostur, t.d. Saint Agur, mulinn í grófa bita
- ferskt dill, rifið eða saxað mjög gróft
Aðferð:
- Hitið grillpönnu og penslið perusneiðarnar með bragðlausri olíu, steikið sneiðarnar í 1-2 mínútur á hvorri hlið, steikingin fer eftir því hversu vel þroskaðar perurnar eru, þær þurfa styttri steikingartíma ef þær eru vel þroskaðar.
- Þurrristið valhnetukjarnana varlega á pönnu, þetta skref er ekki nauðsynlegt en gefur hnetunum aðeins meira bragð og gerir þær stökkar, passið að þær brenni ekki.
- Saxið hneturnar mjög gróft. Setjið salatið í stóra blöndunarskál, hellið helmingnum af vinaigrettunni yfir og blandið varlega saman.
- Skiptið salatinu á fjóra diska, setjið 2-3 perusneiðar á hvern disk, látið ost og hnetur ofan á og sáldrið fersku dilli yfir ásamt afganginum af salatsósunni.
- Gott sætvín eða hvítvín passar vel með þessu salati, t.d. Tokaj eða hálfsætt Riesling.
Hnetu-vinaigrette
- 6 msk. heslihnetuolía
- 2 msk. balsamedik
- 1 tsk. dijonsinnep
- ½ tsk. salt
- ½ tsk. svartur nýmalaður pipar, eða eftir smekk
Aðferð:
- Blandið öllu vel saman og smakkið til.