Varð ástfanginn af ístertunni í Danmörku

Bjarni Viðar Sigurðsson leirlistamaður gerir ávallt þessa nougat-ístertu með marens …
Bjarni Viðar Sigurðsson leirlistamaður gerir ávallt þessa nougat-ístertu með marens um jólin og fær sér púrtvín með. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Bjarni Viðar Sigurðsson hefur starfað sem leirlistarmaður um árabil og framleiðir fallega og vinsæla leirlínu þar sem hann leikur sér bæði með liti og form. Hann er með verkstæði á heimili sínu en hann selur muni sína í fleiri verslunum. Bjarni töfrar fram ístertu sem hann hefur gert í 25 ár.

Bjarni fann uppskriftina í Danmörku þegar hann bjó þar.
Bjarni fann uppskriftina í Danmörku þegar hann bjó þar. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Það getur samt verið svolítill erill á verkstæðinu á Þorláksmessu þar sem viðskiptavinir koma við og kaupa síðustu gjafirnar og ég þarf líka að vera á galleríinu niðri í bæ þar sem ég sel afurðir mínar. Oftast höfum við farið niður í bæ á Þorláksmessukvöldi, en ég hef trú á því að það verði breyting þar á í ár, þar sem okkur langar í meiri slökun og að njóta. Við skreytum jólatréð þetta kvöld að sið fjölskyldunnar og notum tímann til að undirbúa fyrir aðfangadag. Ég hef þá hefð alla aðfangadaga að vakna klukkan 8 að morgni og byrja undirbúning kvöldverðarins. Ég kaupi mér alltaf 30 ára púrtvín, sem ég opna klukkan 8 að morgni og fæ mér glas af því sem ég sötra af á meðan undirbý jólamáltíðina. Ég byrja yfirleitt á rauðkálinu og fæ mér síðan góðan morgunmat. Síðan hefst ég handa við öndina sem er jólamaturinn okkar á aðfangadag, læt sósuna malla allan daginn. Síðan er mjög mikilvægur siður að leggja á borð, gera það eins jólalegt og hægt er. Stundum vil ég hafa það yfirskreytt, stundum látlaust, allt eftir því í hvaða skapi ég er hverju sinni,“ segir Bjarni, spurður um Þorláksmessu.

Matgæðingur með margréttað á aðfangadag

Bjarni borðar ferskan hvítan aspas í forrétt, síðan er önd í aðalrétt með öllu tilheyrandi en eftirrétturinn er mismunandi fá ári til árs. Þegar jólamáltíðin er afstaðin segir Bjarni að hefð sé fyrir því hjá þeim að fara í falleg náttföt, gera kósí með kertaljósum og skapa rólegt og fallegt andrúmsloft áður en þeir setjist niður til að opna pakkana. „Við fáum okkur ístertuna, sem ég gef ykkur uppskrift að, þegar liðið er aðeins frá öllum matnum. Með henni fáum við okkur annaðhvort kampavín, púrtvínið góða eða bara gott koníak.“

Innihaldið í jólapakkanum komi á óvart

Þegar Bjarni er spurður hvort eitthvað sé á óskalistanum í jólapakkann þá segir hann svo ekki vera. „Mér finnst gaman að fá pakka og vil að innihaldið komi mér á óvart. Það hefur aldrei skipt mig miklu máli að það sé stór gjöf, heldur hugurinn á bak við. Ég sjálfur gef yfirleitt hverjum og einum fleiri en einn eða tvo pakka. Ég ólst upp í stórum hópi systkina og vorum við yfirleitt fram á nótt að pakka gjöfum, magnið var svo mikið. Mér finnst alltaf gaman að dúllast við pakkana, fá sér ístertu, kjafta, „kósa“ sig í náttfötunum og slaka gjörsamlega á eftir vinnusamt ár.“

Rauðvínskrap á milli rétta

Bjarni er mikill matgæðingur og þarf ekki að hugsa sig um þegar hann er inntur eftir góðu sælkeraráði. „Það er eitt sem ég geri alltaf yfir jól og áramót og það er ískrap. Á aðfangadag er ég með rauðvínskrap sem ég ber fram á eftir forréttinum en það kemur skemmtilega bragðlaukum í gang. Þessi uppskrift er þannig að það er eins og maður sé að bragða á sjálfu jólatrénu, mjög skemmtilegt. Á gamlárskvöld hef ég kampavínskrap, það er ferskt og elegant á bragðið.“

Gefur stellinu sínu frí á aðfangadag

Varla þarf að spyrja Bjarna að því hvaða jólastell hann noti og þó. „Ég nota stellin sem ég framleiði mikið árið um kring og þess vegna gef ég því frí á aðfangadag. Þá nota ég stell sem er framleitt af Lene Bjerre, það er hvítt með gráu mynstri og mjög einfalt. Á jóladag nota ég ýmist mitt eða Lene Bjerre, svo er gaman að blanda þeim saman. Ég nota mismunandi glös, læt hvern og einn fá sína gerð, það þarf ekki að hafa allt eins. Ég nota bara það sem ég er í skapi fyrir hverju sinni.“

Var að til klukkan þrjú um nótt þegar ístertan var gerð fyrst

Bakstur er alltaf stór partur af jólunum hjá Bjarna. „Það hefur alltaf verið hefð hjá mér að baka hinar og þessar smákökur, finnsku brauðin eru mitt uppáhald hvað þær varðar en ég er þó farinn að baka meira kökur og tertur núorðið. Það er þó mikilvægt að hafa einhverjar tegundir af smákökum, hér áður fyrr bakaði ég allt u.þ.b. átta tegundir, en það hefur minnkað á efri árum. Ístertuna geri ég um hver jól, enda ótrúlega hátíðleg, falleg og bragðgóð. Ég hef gert hana í u.þ.b. 25 ár. Ég fann uppskriftina í Danmörku þegar við bjuggum þar, og varð bara ástfanginn af henni. Ég ákvað eitt kvöld að gera hana og fá mér púrtvín með. Ykkur að segja fór mikið af púrtvíninu, því ég var að til klukkan að verða þrjú um nóttina. Hún virðist flókin í fyrstu en er það í raun ekki, ég var staðráðinn í því að ég myndi aldrei gera hana aftur, aldrei. Nú hef ég gert hana eins og áður segir í um 25 ár, og hef ég ekki sleppt úr einu ári. Sniðugt er að baka marengsinn daginn áður, gera svo ísinn kvöldið eftir. Þess má geta að ég læt ísinn ekki harðna of mikið á milli laga þegar kakan er sett saman. Ég rétt set hana inn í frystinn svo hún taki sig aðeins, u.þ.b. 30 mínútur og þá set ég næsta lag ofan á.“

Nougat-ísterta með marens

fyrir 12

Marensbotnar:

  • 4 eggjahvítur
  • 150 sykur

Aðferð:

  1. Stífþeytið eggjahvíturnar. Þeytið 1/3 af sykrinum með eggjahvítunum en hrærið afganginum saman við með sleif.
  2. Teiknið tvo hringi á bökunarpappír eftir 26 cm smelluformi og skiptið blöndunni á milli þeirra. Bakið í eina klst. við 125°C og látið standa í ofninum á meðan marensinn kólnar.

Marsípanís

  • 4 eggjarauður
  • 4 msk. sykur
  • 1 vanillustöng
  • 100 marsípan, rifið
  • ½ dl rjómi
  • 75 g hakkaðar möndlur
  • 50 g dökkt súkkulaði, saxað

Aðferð:

  1. Þeytið eggjarauður, sykur, vanillukorn og setjið marsípan saman við.
  2. Þeytið rjómann og blandið honum saman við eggjablönduna.
  3. Setjið blönduna í frysti í einn til tvo tíma og blandið síðan hnetunum og súkkulaðinu saman við ísinn til að blandist allt vel saman.

Núggatís

  • 100 g mjúkt núggat
  • 2 eggjarauður
  • 1 msk. sykur
  • 3 dl rjómi

Aðferð:

  1. Bræðið núggatið yfir vatnsbaði, kælið.
  2. Þeytið eggjarauður og sykur saman. Þeytið rjómann.
  3. Þeytið núggatið saman við eggjablönduna, bætið rjómanum varlega saman við með sleikju svo loftið fari ekki úr honum.
  4. Látið ísinn í frysti.

Samsetning

  1. Setjið einn marensbotn í botninn á smelluforminu og hellið helmingnum af marsípanísnum yfir og setjið í frysti í u.þ.b. eina klst. eða þar til ísinn er orðinn sæmilega stífur.
  2. Takið formið út úr frystinum og setjið lag af núggatís yfir og frystið í eina klst.
  3. Setjið síðasta lagið af ísnum í formið, leggið marensbotninn yfir og frystið í a.m.k. fjórar klst. Þá er ístertan tilbúin.
  4. Takið hana úr frysti u.þ.b. 30 mínútum áður en hún er borin fram.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert