Valhnetan barst til landanna við Miðjarðarhaf fyrir u.þ.b. tvö þúsund árum og Rómverjar og Grikkir neyttu hennar í töluverðu magni. Rómverjar trúðu að neysla á valhnetum hefði jákvæð áhrif á kynhvötina, sem er raunar ekki fjarri lagi því enn í dag er mælt með henni til að auka frjósemi karla. Hneturnar voru meðal annars notaðar til að lita ull og til að fríska andardráttinn eftir laukát. Einnig var til siðs í rómverskum brúðkaupum að brúðguminn dreifði valhnetum til ungmenna meðan þau sungu ósiðsamleg lög. Til marks um hversu mikilvæg og algeng valhnetan var í Rómaveldi þá fundust nokkrar í musteri Ísisar við uppgröft á borginni Pompeii sem grófst undir ösku árið 79 þegar eldfjallið Vesúvíus gaus.
Valhnetur þykja með eindæmum næringarríkar enda innihalda þær u.þ.b. 65% af góðri fitu í hverjum 100 g. Fitusýrurnar í hnetunum eru taldar geta lækkað slæmt kólesteról í blóði. Í 100 g af valhnetum eru tæplega 700 hitaeiningar en vegna háa fituinnihaldsins veita þær góða orku í langan tíma og fólk verður lengi satt. Valhnetur innihalda u.þ.b. 15 g af próteini og 9 g af trefjum í hverjum 100 g en trefjar bæta meltingu og hafa lækkandi áhrif á blóðsykur. Í rannsókn sem birtist í The New England Journal of Medicine kom í ljós að fólk sem borðaði hentur reglulega glímdi síður við hjartasjúkdóma.
Valhnetur eru einnig taldar hafa góð áhrif á heilastarfsemina, þær geti bætt minnið og minnkað líkur á heilahrörnunarsjúkdómum, samkvæmt Journal of Alzheimer's Disease. Þær innihalda einnig töluvert magn af B-vítamíni og magnesíum sem stuðla að bættri andlegri líðan.
Þetta frábæra hráefni er ekki bara hollt heldur einstaklega bragðgott líka, valhnetan er með svolítið beiskt og örlítið feitt hnetubragð með vott af sætum tónum en bragðið getur breyst töluvert við eldun. Valhnetukjarnar eru notaðir í fjölbreytta rétti hvort sem er heilir, malaðir eða saxaðir smátt. Þeir henta í ýmsa sæta rétti svo sem bökur, kökur, eftirrétti og í konfekt og súkkulaði. Þeir eru frábærir í ýmis salöt, pastarétti, pestó og í bæði kjöt- og fiskrétti. Ristaðir valhnetukjarnar eru sérlega góðir út á salöt og út á gríska jógúrt eða með hafragrautnum. Passið að kjarnarnir brenni ekki við þegar þeir eru ristaðir þá verður bragðið töluvert rammt.
Það er því alveg augljóst að valhnetur eru sannkallað ofurfæði og hæfileg dagleg neysla hefur margvísleg jákvæð áhrif á heilsuna. Mælt er með því að neyta u.þ.b. 30-40 g af valhnetum á dag, það er talið nægjanlegt magn til að njóta hollustuáhrifanna án þess að innbyrða of mikið magn af hitaeiningum.