Kristín Amy Dyer, alla jafna kölluð Amy, er dolfallin áhugamanneskja um mat og heilbrigðan lífsstíl. Hún elskar fátt meira en að snæða en að snæða með litlu dóttur sinni og eiga með henni gæðastundir þegar matur er annars vegar.
„Aðalsportið hjá mér þessa dagana er að reyna finna rétti sem 13 mánaða dóttir mín elskar. Ég sló rækilega í gegn þegar ég skellti í þessa einföldu graskerssúpu en í frostmiklum janúarmánuði og þegar flensutímabilið er í hámarki, þykja mér súpur eiga vel við. Sér í lagi þar sem þær eru oft sneisafullar af næringarefnum og ekki skemmir að dóttir mín bendir á súpuskálina og heimtar meira á sínu ungbarnamáli og er í raun að segja: „Mamma, ég vil fá meira”.
Girnilega graskerssúpa sem Amy ber fallega fram.
Ljósmynd/Aðsend
Það er gaman að segja frá því að grasker eða butternut squash er ekki grænmeti eins og ég upprunalega hélt, heldur ávöxtur. Þessi ávöxtur er afar næringarríkur en hann inniheldur meðal annars A, C og E vítamín sem og ríkulegt magn trefja. Þessi súpa dekrar því aldeilis við ónæmiskerfið og meltinguna,“ segir Amy lukkuleg.
„Ég hef tekið eftir því að sumir steikja graskerið eða það rótargrænmeti sem þeir notast við í súpur, en ég tel það bragðbæta súpuna að baka það í ofni. Ef það er síðan afgangur, þá er fullkomið að skella því í kæli og gæða sér á súpunni í hádegismat næsta dag,“ segir Amy að lokum.
Amy nostrar við súpugerðina og segir það skipta sköpun að leggja metnað í matargerðina.
Ljósmynd/Aðsend
Barnvæn graskerssúpa
Fyrir 2
- 1 l grænmetissoð (eða vatn og grænmetiskraft)
- 500 g grasker (Butternut Squash)
- 1 laukur
- 3 hvítlauksgeirar
- 2 meðalstórar gulrætur
- 1,5 cm ferskt engifer
- ½ dl kókosmjólk í dós
- Salt og pipar eftir smekk
- ½ tsk. túrmerik (valkvætt)
Aðferð:
- Byrjið á því að stilla ofninn á 180°C og leyfið honum að hitna á meðan þið skerið graskerið í litla bita.
- Raðið graskerinu á ofnplötu klædda bökunarpappír og veltið því aðeins upp úr ólífuolíu, salti og pipar.
- Setjið síðan inn í ofn í um það bil 25-35 mínútur.
- Á meðan graskerið er í ofninum, fínskerið þá laukinn og gulræturnar og rífið síðan engifer og hvítlauksgeira niður.
- Hitið grænmetissoðið í potti.
- Steikið fínt skorna laukinn, gulræturnar, engiferið og hvítlaukinn upp úr ólífuolíu í öðrum meðalstórum potti.
- Kryddið grænmetið aðeins til á meðan þið steikið það og bætið svo meira kryddi eftir smekk seinna í ferlinu þegar þið látið súpuna malla.
- Sameinið grænmetið og grænmetissoðið í einn pott og bætið við graskerinu þegar það er orðið bakað og mjúkt í gegn.
- Leyfið þessu aðeins að malla saman í potti áður en þið maukið súpuna með töfrasprota eða setjið í blandara.
- Þegar þið eruð búin að blanda öllu saman, bætið þá við kókosmjólkinni og kryddið súpuna meira ef ykkur finnst það eiga við.