Kransakakan fyrir kampavínsflöskuna sló í gegn

Falleg framsetning á guðaveigum og kræsingum sem steinliggja þegar veislu …
Falleg framsetning á guðaveigum og kræsingum sem steinliggja þegar veislu skal gjöra. Ljósmynd/Sjöfn

Um áramótin pantaði ég kransakökuhring hjá Bernhöftsbakaríi og litla kransakökubita þar sem mig langaði til að bjóða upp á kransaköku, bitana og fersk íslensk jarðarber með kampavíninu þegar nýja árinu var fagnað.

Danir hafa til að mynda þann sið að bjóða upp á kransaköku og kampavín á áramótunum og gaman að sjá hversu margir halda í þá hefð og meðal annars þeir Íslendingar sem hafa dvalist þar á áramótum.

Hefðin hjá mér og mínum er að bjóða upp á kokteilsnittur með freyðandi drykkjum þegar nýju ári er fagnað og nýjasta viðbótin við veislukræsingarnar er kransakakan og bitarnir.

Kransakakan og kransakökubitarnir parasta afar vel með freyðandi drykkjum. Mjög …
Kransakakan og kransakökubitarnir parasta afar vel með freyðandi drykkjum. Mjög hátíðlegt yfirbragð að tvinna þessu saman, hvort sem það er fyrir áramót eða aðrar tækifærisveislur eins og útskriftir. Ljósmynd/Sjöfn

Sykurminni en gengur og gerist

Sigurður Már Guðjónsson bakarameistari og kökugerðarmaður hjá Bernhöftsbakaríi sá um baksturinn og ljóstraði því upp að kransakakan væri mun sykurminni en gengur og gerist. Það sé 20% minni sykur í þessari uppskrift en í klassískum uppskriftum. Hann hefur verið að þróa uppskriftina og er afar ánægður með útkomuna.

Þegar veislu skal gjöra er upplagt að bjóða upp á þessa ef boðið er upp á freyðandi drykki. Kransakökudýrðin með kampavíninu ásamt kransakökubitunum og ferskum jarðarberjum fangar bæði augu og munn og parast dásamlega vel saman.

Þessi uppskrift dugar fyrir 4 hringja kransaköku utan um flösku og fyrir 50 stykki af kransakökubitum.

Kransakökuhringur fyrir kampavínsflösku

Kransakökudeig

  • 1 kg ODENSE kransamassi XX
  • 400 g sykur
  • 90 g eggjahvítur
  • 200 g kransakökuglassúr

Aðferð:

  1. Blandið Kransa XX, sykri og eggjahvítu saman og setjið í loftþétt box og geymið í kæli fyrir notkun.
  2. Kransakökudeiginu er rúllað út í pylsu og skorið í rétta lengd, til að mynda eftir stærð flöskunnar sem á að fara í kransakökuhringinn.
  3. Bakið við 230°C hita í 10-12 mínútur.
  4. Eftir að hringirnir hafa kólnað eru þeir sprautaðir með glasúrnum (sjá uppskrift fyrir neðan), settir saman og skreyttir að vild.

Kransakökuglassúr

Uppskriftin er ætluð fyrir 150 g.

  • 174 g flórsykur
  • 27 g eggjahvítur

Aðferð:

  1. Hrærið sigtaðan flórsykrinum saman við eggjahvítuna.
  2. Hrærið þar til glassúrinn getur myndað mynstur án þess að renna saman.
  3. Setjið í sprautupoka með þunnum stútt eða útbúið sprautupoka úr bökunarpappír og skreytið með glassúrunum að vild.
  4. Upplagt er að skreyta kransakökuna líka með dökku súkkulaði og bera hana fram með ferskum íslenskum jarðarberjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert