Hélt að hann hefði komið heim með djöfulinn sjálfan

Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins, mætir fyrstur til leiks …
Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins, mætir fyrstur til leiks af landsliðsteyminu með uppskrift að sínum uppáhaldsfiskrétti. mbl.is/Arnþór

Í tilefni þess að árið 2025 er mætt til leiks í allri sinni dýrð og íslenska kokkalandsliðið er að hefja undirbúning sinn fyrir næstu keppni, heimsmeistaramótið í matreiðslu sem verður árið 2026, ætlar landsliðið að deila með lesendum matarvefsins girnilegum uppskriftum.

Það verður því fiskþema á matarvefnum í janúar og febrúar sem er kærkomið eftir allar kræsingarnar um hátíðirnar. Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins, mætir fyrstur til leiks með einn af sínum uppáhaldsfiskréttum, steiktri rauðsprettu með sítrónu- og kaperssmjörsósu. Hann sviptir hulunni af uppskriftinni eins og hann framreiðir rauðsprettuna.

Auk þess að vera í kokkalandsliðinu vinnur Ísak hjá Múlakaffi. Hann á glæstan feril að baki sér í keppnismatreiðslu en hann hefur tvisvar lent á verðlaunapalli með kokkalandsliðinu, árið 2020 í 3. sæti og síðan aftur 2024 í 3. sæti á Ólympíuleikunum. Ísak vann einnig keppnina um eftirrétt ársins 2022 ásamt því að hafa lent í 2. sæti í Kokk ársins 2024.

Á margar minningar að sjá afa sinn fara út á trillunni

Fiskur hefur ávallt verið á borðum hjá Ísaki og á hann margar góðar minningar sem tengjast fiski á lífsleiðinni.

„Ég ólst upp í sjávarþorpinu Suðureyri við Súgandafjörð þar sem fiskur er gríðarlega mikilvægur. Ég á margar minningar frá því að sjá afa minn fara út á trillunni sinni og koma heim með alls konar tegundir af fiski. Ég gleymi því aldrei þegar hann veiddi skötusel en ég hélt í alvörunni að hann hefði komið heim með djöfulinn sjálfan. Annars hefur fiskur verið mjög stór partur af matreiðslunni minni, þegar ég byrjaði að vinna í veitingageiranum þá sá ég hvað var hægt að gera mikið með sjávarfangi. Fiskur er afar fjölbreytt og spennandi hráefni,“ segir Ísak.

Finnst þér mikilvægt að borða fisk reglulega?

„Klárlega. Fiskur er mjög hollur og góð vara og við á Íslandi erum ótrúlega heppin að hafa svona gott aðgengi að sjávarfangi og stutt á miðin. Íslendingar eru smá ofdekraðir á fisk því þessi gæði og ferskleika er mjög erfitt að finna annars staðar í heiminum. Við ættum að vera að borða fisk tvisvar í viku að mínu mati.

Minn uppáhaldsfiskur verður að vera þorskur

Hver er þinn uppáhaldsfiskur?

„Þetta er reglulega erfið spurning þar sem það eru svo margar fisktegundir í boði. Lúðan er alltaf geggjuð og einnig bleikjan en minn uppáhaldsfiskur verður að vera þorskur, enda er ég með húðflúr af honum. Eins og Bubbi sagði: „Þorskurinn er fólkinu allt.“

Hvaða meðlæti finnst þér best með fisk?

„Mér finnst oftast best að halda mig við einfalt og bragðgott meðlæti eins og soðið grænmeti eða létt salat. Ég veit að það hljómar ekki spennandi fyrir mörgum en við megum ekki stela sviðsljósinu frá fisknum sem verður að fá að njóta sín. Með þessum rétt sem ég er að deila með ykkur væri frábært að hafa soðnar kartöflur með bræddu smjöri og ferska kirsuberjatómata í léttu salti.“

Er einhver saga bak við réttinn?

„Ég fékk helling af svipuðum rétti í Frakklandi þegar ég var þar yfir eitt sumar en rétturinn minnir mig mikið á hvað einfaldleikinn er góður. Þegar þú ert með svona gott hráefni þá þarf ekki mikið til en þessi réttur sýnir það mjög vel,“ segir Ísak með bros á vör.

„Uppskriftin sem mig langar að deila með lesendum er auðveld en frábær leið til að borða eina af bestu fisktegundum sem völ er á, sem við höfum svo gott aðgengi að.“

Ísak býður lesendum upp á steikta rauðsprettu með sítrónu-og kaperssmjörsósu.
Ísak býður lesendum upp á steikta rauðsprettu með sítrónu-og kaperssmjörsósu. Ljósmynd/Ísak Aron Jóhannsson

Steikt rauðspretta með sítrónu- og kaperssmjörsósu

Fyrir 4

  • 4 rauðsprettuflök
  • 200 g hveiti
  • 20 g salt
  • 200 g smjör, má nota meira
  • 20 g steinselja, söxuð
  • 40 g kapersber, söxuð gróft
  • 1 stk. safi úr ferskri sítrónu

Aðferð:

  1. Byrjum á því aðfjarlægjaa beinin úr rauðsprettunni.
  2. Þerrið næst flökin og veltið þeim upp úr hveiti og salti sem hefur verið blandað saman í skál.
  3. Skellið 1/4 af smjörinu á heita pönnu.
  4. Þegar það byrjar að krauma í smjörinu skellið þá rauðsprettunni á pönnuna í u.þ.b. 3 mínútur á roðinu og 1 mínútu á aðra hliðina. Bætið rest af smjöri eins og þarf á meðan þið steikiðrestinan af flökunum.
  5. Þegar búið er að steikja fiskiná erskelltð þá söxuðum kapersberjum á pönnuna ásamt sítrónusafanum.
  6. Blandið þessu vel saman og lækkið hitann, bætið við ferskri steinselju ofan í og hellið yfir rauðsprettuna.
  7. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert