Nýir eigendur hafa tekið við Kampavínsfjelaginu og horfa björtum augum til framtíðarinnar. Þríeykið, Jóhanna Húnfjörð, Hrefna Sætran og Styrmir Bjarki Smárason, eru nýju eigendurnir og keyptu félagið af Stefáni Einar Stefánssyni fjölmiðlamanni sem stofnaði Kampavínsfjelagið & co ehf. árið 2020. Félagið flytur inn vín auk þess að standa fyrir kynningum á vínum og viðburðum þar sem vínin spila aðalhlutverkið.
Hrefna er landsmönnum vel kunnug en hún er veitingahúsaeigandi, matreiðslumeistari, hefur gefið út matreiðslubækur og verið í sjónvarpi. Nýjasta hlutverk hennar er að vera kampavínsinnflytjandi. Styrmir er einnig veitingahúsaeigandi og vínþjónn og Jóhanna framreiðslumaður og kampavínsinnflytjandi, líkt og meðeigendur hennar. Saman eiga þau og reka veitingastaðinn Fiskmarkaðinn og Uppi bar.
Íslendingar eru sólgnir í kampavín miðað við þann áhuga sem hefur sést á kampavíni undanfarin ár og má tala um ákveðna vitundarvakningu í þeim efnum. Fólk er farið að kynna sér vínin betur og aðsókn í Kampavínfjelagið hefur verið afar góð. Félagar hafa fengið fræðslu um vínin og skyggnst í heim vínhúsanna sem öll eiga sína á leyndardóma um framreiðsluna.
Þríeykið er stórhuga um næstu skref félagsins og ætlar að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á nýju ári. Fyrsti viðburðurinn er framundan á fimmtudaginn, 16. janúar næstkomandi, og þá verður skálað í kampavíni fyrir nýju ári.
Hver er tilurð þess að þið ákváðuð að fjárfesta og taka við Kampavínfjelaginu af Stefáni Einari?
„Við höfum verið að kaupa vínin af honum fyrir Fiskmarkaðinn og Uppi frá því hann byrjaði að flytja þau inn. Hann hefur haldið nokkra viðburði á stöðunum okkar og við fengið tækifæri á að kynnast vel þeim framleiðendum sem voru komnir inn í Kampavínsfjelagið.
Frábær vín og hágæða vörur þarna á ferð svo þegar það kom til að taka við rekstrinum þá var þetta auðvelt, já,“ segir Hrefna og brosir.
„Það er akkúrat það sem við viljum standa fyrir og höfum gert í gegnum árin. Að bjóða upp á hágæða vörur á veitingastaðnum Fiskmarkaðnum og vínbarnum Uppi og svo núna fyrir fólk að njóta þeirra heima, bjóða upp á fjölbreytta viðburði og veislur.“
Hafið þið mikla ástríðu fyrir kampavíni og sögu þess?
„Já, mjög mikla ástríðu og það var það sem leiddi okkur Stefán Einar saman. Ég hef mikinn áhuga á víni og góða þekkingu. Mjög gott að geta unnið við áhugamálið sitt og deilt því með öðrum,“ segir Styrmir og bætir við að honum þyki sagan bak við kampavín afar heillandi.
„Og líka vinnan bak við hvernig kampavínið er búið til. Oft fara rosalegar lengdir í framleiðslu á kampavíni. Seinni gerjunin verður að gerast í flöskunni til að geta kallað það kampavín. Geri og sykri er svo bætt út í kampavínið og það þarf að liggja í flöskunni í 15 mánuði. Mikil fræði eru á bak við allt ferlið. Búbblurnar eru svo fínar í alvöru kampavíni sem er mjög aðlaðandi.“
Hvað eru vínhúsin mörg sem þið eruð í samstarfi við?
„Við erum í samstarfi við fimmtán framúrskarandi vínhús í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Austurríki og fleiri munu koma á næstu mánuðum og árum. Við erum líka með hvítvín, freyðivín, rauðvín og sake. Allt þekkt og eftirsótt vörumerki,“ segir Jóhanna og bætir við að þau séu ávallt með augun opin fyrir nýjum vínhúsum.
Eru kampavínin sem þið flytjið inn í boði á veitingastöðunum ykkar, Fiskmarkaðinum og Uppi bar?
„Já, þau hafa verið það í mörg ár. Staðirnir okkar hafa ávallt haft fókus á góðu úrvali af víni sem Kampavínsfjelagið hefur alltaf haft. Við kaupum líka af öðrum birgjum þær vörur sem passa inn hjá okkur. Það skiptir okkur mestu máli að bjóða upp á gott hráefni fyrir okkar gesti,“ segir Jóhanna ennfremur.
Nýja árið rísandi og spennandi tímar framundan
Eru breytingar fyrirhugaðar á starfseminni eftir að þið tókuð við?
„Það verða í raun ekki miklar breytingar á starfseminni í sjálfu sér, en auðvitað erum við með skemmtilegar hugmyndir og plön til að gera klúbbinn sem Kampavínsfjelagið heldur utan um ennþá betri. Við viljum auka vöruúrval, veita framúrskarandi þjónustu og halda vel utan um klúbbinn okkar og búa til skemmtilegar upplifanir og minningar saman. Við erum stolt af nýju heimasíðunni okkar sem ber heitið kampavinsfjelagid sem við mælum með að fólk skoði vel sem hefur áhuga,“ segir Jóhanna sem er orðin mjög spennt fyrir komandi tímum.
Hvernig sjáið þið árið fyrir ykkur?
„Rísandi myndi ég segja. Við öll þrjú höfum svo mikla ástríðu fyrir því sem við erum að gera og stöndum fyrir. Með þessu tækifæri getum við eflt okkur enn frekar og gert fleiri spennandi hluti sem okkar viðskiptavinir fá að njóta,“ segir Styrmir.
„Það verða áhugaverðir viðburðir í boði hjá okkur og enn fleiri en hafa verið síðustu ár. Við munum halda sama sniði á mörgu og þar mun Stefán Einar vera okkur innan handar áfram en einnig munum við kynna nýjungar. Þar má nefna opnar vínkynningar, samstarf við fleiri veitingastaði í borginni og á landsbyggðinni. Fleiri leyndardómar um starfsemina eiga eftir að líta dagsins ljós,“ bætir Jóhanna við.
Hvernig gerist maður meðlimur í kampavínsfjelaginu?
„Við ákváðum að vera með hámark af meðlimum í klúbbnum svo allir fengju það pláss sem þeir eiga skilið og góða athygli en við bættum við nokkrum plássum um áramótin svo það eru nokkur laus pláss í augnablikinu. Það er hægt er að nálgast allar upplýsingar um dagskrána og skráningu inni á heimasíðunni okkar,“ segir Jóhanna.
Þríeykið horfir björtum augum á framtíðina og finnur mikið fyrir áhuga fólks á kampavíni.
„Við sjáum það að eftirspurnin eftir kampavíni verður meiri með hverju ári og það má í raun segja að kampavín sé í tísku. En Kampavínsfjelagið flytur ekki einungis inn kampavín heldur einnig gæðavín frá hvítvíns- og rauðvínsframleiðendum. Við erum þegar komin með nýjan framleiðanda í sigtið sem kemur væntanlega í febrúar sem er mjög áhugavert. Svo eru nokkrir á lista sem munu detta inn á næstunni,“ segir Styrmir.
Aðspurð segir Hrefna að fyrsti viðburðurinn sé handan við hornið. „Fyrsti viðburður ársins hjá meðlimum verður haldinn á fimmtudaginn, eins og áður hefur komið fram,en hann verður á veitingastaðnum Monkeys svo það er ekki seinna vænna en að skrá sig í fjelagið strax í dag,“ segir Hrefna að lokum með sínu geislandi brosi.