Helga Magga heilsumarkþjálfi er hugmyndrík þegar kemur að því að setja saman holla, góða og næringarríka rétti. Nýjasta æðið hjá henni er að fylla sætar kartöflur með ostakubbi.
„Þessi uppskrift er alveg dásamlega góð og næringarrík, hentar bæði sem aðalréttur eða sem meðlæti með kjöti eða fiski,“ segir Helga Magga en hún deildi með fylgjendum sínum á Instagram á dögunum hvernig hún býr út þessar dásemdarkartöflur.
Magnið á mann af þessum rétti er ansi misjafnt og fer svolítið eftir stærð kartöflunnar, ef þið eruð með litlar kartöflur er alveg óhætt að gera ráð fyrir einni á mann en ef þið eruð með stórar gæti ein dugað fyrir tvo.
Fylltar sætkartöflur með ostakubbi
- 2 sætar kartöflur
- 250 g ostakubbur
- 2 - 3 msk. ólífuolía
- litlir tómatar
- 2 - 3 hvítlauksrif
- fersk basilíka
- balsamik-gljái
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°C hita.
- Hitið sætu kartöflurnar fyrst í ofninum í um það bil 40 mínútur við 200°C.
- Takið þær svo út, skerið í tvennt og takið aðeins innan úr þeim til að búa til pláss fyrir ostakubbinn.
- Kryddið hvern helming með salti og pipar ásamt því að hella örlítilli ólífuolíu yfir kartöflurnar.
- Skerið ostakubbinn í 4 bita, en magnið í hvern helming af sætu kartöflunni fer þó algjörlega eftir smekk hvers og eins og einnig stærð kartöflunnar.
- Setjið síðan ostabitana ofan í kartöflurnar.
- Skerið síðan litlu tómatana í tvennt og raðið þar ofan á.
- Skerið síðan hvítlauksrifin eða kremjið og setjið yfir, hafið magn eftir smekk.
- Bakið síðan kartöflurnar aftur í um 40 mínútur við 200°C hita.
- Þá ættu kartöflurnar að vera orðnar mjúkar.
- Setjið ferska basilíku yfir hvern helming ásamt balsamik-gljáa áður en þið berið réttinn fram.