Viðskiptavinir Krónunnar eru þeir ánægðustu á matvörumarkaði, samkvæmt niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar 2024 sem kynntar voru í morgun. Krónan hlaut hæstu einkunn meðal verslana á matvörumarkaði með marktækum mun, eða 74,1 stig af 100 mögulegum. Er þetta áttunda árið í röð sem verslunin hlýtur viðurkenninguna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Krónunni.
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar tók við viðurkenningunni fyrir hönd Krónunnar og tileinkaði árangurinn öllu starfsfólki Krónunnar sem mætir til vinnu á degi hverjum með það fyrir augum að setja viðskiptavininn ávallt í fyrsta sæti.
„Við vöndum okkur í því sem við gerum og leggjum áherslu á gæði og þjónustu í heildarupplifun viðskiptavina þar sem virkt samtal skiptir höfuðmáli. Hvort sem það snýr að fjölbreyttu vöruúrvali á sem hagstæðasta verði, snjöllum og sjálfbærum lausnum, eða að skapa þægilegra og skemmtilegra umhverfi í verslunum okkar, þá stefnum við alltaf að því að gera betur í dag en í gær. Lykillinn að þessu öllu er okkar öfluga starfsfólk því það er jákvæðni þeirra, framsækni og liðsheild sem gerir Krónuna að því sem hún er,“ segir Guðrún.
Markmikið að láta í té mælingar á ánægju
Íslenska ánægjuvogin er í eigu Stjórnvísi og er framkvæmd af Prósent. Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig öðrum þáttum sem hafa áhrif á hana, s.s. ímynd, mat á gæðum og þjónustu.