Sandra Ósk fékk verðlaun fyrir næstbesta borgarann á heimsvísu

Sandra Ósk Pálmadóttir gerði þennan Zinger-kjúklingabringu, kartöfluskífu, kál, saxaða tómata, …
Sandra Ósk Pálmadóttir gerði þennan Zinger-kjúklingabringu, kartöfluskífu, kál, saxaða tómata, ost, camembert-smurost, rifsberjahlaup og léttmajónes og hlaut önnur verðlaun fyrir. Samsett mynd

Flest þekkjum við KFC en keðjan er önnur stærsta veitingahúsakeðja heims á eftir McDonalds en 30.000 KFC-staðir eru um heim allan í um 150 löndum. Það sem færri vita er að á hverju ári efnir KFC til keppni meðal starfsfólks um besta kjúklingaborgarann.

Keppnin fer þannig fram að fyrst er keppt í hverju landi fyrir sig og þegar niðurstaðan liggur fyrir fara sigurvegarar frá hverju landi út og keppa sín á milli. Sandra Ósk Pálmadóttir stóð uppi sem sigurvegari hér á landi og fór því í lokakeppnina sem haldin var í Sviss.

Leynivopnið íslenska hráefnið

Borgarinn sem Sandra Ósk gerði inniheldur Zinger-kjúklingabringu, kartöfluskífu, kál, saxaða tómata, ost, camembert-smurost, rifsberjahlaup og léttmajónes.

„Keppnin var ótrúlega hörð og það var svo mikið af geggjuðum borgurum. Við áttum líka að mæta með einhverja djúsí sósu með frönskunum og ég mætti með jalapeno-majó sem ég setti saman og sósan mín sló alveg í gegn,“ segir Sandra Ósk.

„Vegleg peningaverðlaun voru veitt fyrir fyrsta sætið, en því miður þá unnu heimamenn í Sviss og ég lenti í öðru sæti og fékk skurðarbretti að launum,“ segir Sandra Ósk.

Sandra Ósk segir að það hafi verið ótrúlega gaman að taka þátt í keppninni en hún hafi ekki búist við að ná svona langt. Mögulega hafi leynivopnið hennar skilað henni þessum árangri. „Ég mætti með allt hráefni með mér frá Íslandi sem hin löndin gerðu ekki. Þau lentu því mörg í brasi við að finna sömu hráefni og í heimalandinu í sína borgara, þannig að þar slapp skipulagða Ísland,“ segir Sandra Ósk.

Hún segist samt hafa vitað að borgarinn hennar væri góður og átti alveg eins von á að hann yrði vinsæll. „Þetta kombó, camembert og sulta getur ekki klikkað,“ bætir hún við. Borgarinn hefur hlotið nafnið Hangover og verður á boðstólnum hjá KFC næstu sex vikurnar bæði stakur og sem hluti af máltíð en þá fylgja 3 hot wings, franskar, gos og ávaxtahlaup í poka með.

Hangover kjúklingarborgarinn hennar Söndru Óskar verður á boðstólnum hjá KFC …
Hangover kjúklingarborgarinn hennar Söndru Óskar verður á boðstólnum hjá KFC næstu sex vikurnar. Ljósmynd/Aðsend

Stefnir að því að vinna keppnina næst

Sandra Ósk ólst upp í Þorlákshöfn en flutti á Selfoss árið 2003. Hún á mann og tvö börn, 2 og 15 ára gömul og hefur mikinn áhuga á eldamennsku. „Ég er ekki lærður kokkur en hef mikinn metnað fyrir því að elda góðan mat. Í vinnunni hjá KFC á Selfossi fæ ég því að gera það sem mér finnst skemmtilegast,“ segir Sandra Ósk.

Sandra Ósk hefur starfað hjá KFC á Selfossi síðan árið 2005 og í apríl á hún 20 ára starfsafmæli. En ætlar hún að taka þátt í þessari keppni aftur?

„Engin spurning, ég ætla að vinna keppnina hér heima og svo fara svo út og keppa aftur. Það er aldrei að vita nema ég vinni keppnina úti næst,“ segir Sandra Ósk, glöð í bragði.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka