Andrea vendir kvæði sínu í kross

Andrea Ylfa Guðrúnardóttir með Bedros og Fridu eigendum bakarísins Socker …
Andrea Ylfa Guðrúnardóttir með Bedros og Fridu eigendum bakarísins Socker Sucker sem er staðsett í Stokkhólmi í Svíþjóð. Ljósmynd/Aðsend

Andrea Ylfa Guðrún­ar­dótt­ir fram­reiðslu­meist­ari hef­ur af­rekað mikið á stutt­um tíma á fram­reiðslu­ferli sín­um. Hún út­skrifaðist árið 2020 og þá var hún ein­ung­is tví­tug. Frá út­skrift hef­ur hún klárað meist­ar­ann og unnið titil­inn fram­reiðslumaður árs­ins tví­veg­is, árin 2022 og 2023.

Hún hef­ur einnig út­skrifað einn fram­reiðslu­nema og verið að dæma í fram­reiðslu­keppn­um, má þar nefna Eurosk­ills sem er virt Evr­ópu­mót í iðngrein­um.

Eng­in logn­molla hef­ur verið kring­um Andr­eu en hún tók þátt í að opna einn vin­sæl­asta veit­ingastað í Reykja­vík, OTO, við Hverf­is­götu árið 2023.

„Við feng­um þá viður­kenn­ingu að vera besti veit­ingastaður­inn á Íslandi árið 2024 og náðum þar að auki að vinna okk­ur inn Michel­in-meðmæli, sem er stór áfangi og mik­ill heiður í veit­inga­geir­an­um,“ seg­ir Andrea með bros á vör.

Færði sig yfir í eft­ir­rétta­heim­inn

Eft­ir framúrsk­ar­andi ár­ang­ur og vel­gengni í starfi sínu ákvað hún að skipta um svið. Andrea vendi kvæði sínu í kross og skipti um vett­vang á síðasta ári. Hún færði sig yfir í eft­ir­rétta­heim­inn og skráði sig á mat­reiðslu­samn­ing og ætl­ar að leggja áherslu á nám í pas­try chef eða eins og sagt er á ís­lensku nám í köku­gerð. Und­an­farna mánuði hef­ur hún dval­ist í Stokk­hólmi í Svíþjóð að læra pas­try og unir hag sín­um vel.

„Ég skráði mig á mat­reiðslu­samn­ing síðastliðið sum­ar en ætla að leggja áherslu á pas­try þar sem áhug­inn minn ligg­ur þar. Ég hef því dval­ist eins og áður sagði í Stokk­hólmi að læra pas­try í baka­rí­inu Socker Sucker, sem býður upp á fal­lega eft­ir­rétti ásamt góðu bakk­elsi og kon­fekti,“ seg­ir Andrea full eld­móðs.

„Mig langaði frek­ar að taka kokk­inn held­ur en bak­ar­ann vegna þess að kokk­ur­inn er með góðan grunn og öðru­vísi vinnuaðferðir sem höfða til mín. Aðalástæðan fyr­ir breyt­ing­unni er að ég hef mjög gam­an af tækn­inni og aðferðunum við eft­ir­rétta­gerð og ís­gerð, til að mynda eins og að gera gelato. Ásamt því að búa til kon­fekt og súkkulaðiskraut,“ seg­ir Andrea sem er full eft­ir­vænt­ing­ar.

„Það er svo mikið í boði og margt hægt að læra, á flest­um veit­inga­stöðum sem ég hef unnið á hef ég aðstoðað við að gera eft­ir­rétt­ina. En ég hef alltaf haft gam­an af því að baka og hef verið að prófa mig áfram í eld­hús­inu síðan ég var lít­il.

Þegar ég fer heim í sveit­ina til ömmu og afa prufa ég mig áfram í hinu og þessu sem mig lang­ar til þess að læra að gera. Þeir sem fylgja mér á In­sta­gram hafa fengið að sjá hitt og þetta sem ég hef verið að búa til í eld­hús­inu hjá þeim,“ seg­ir Andrea og hlær.

Lengi verið á dag­skránni að skipta

„Það hef­ur lengi verið á dag­skránni hjá mér að skipta yfir í pas­try. Í byrj­un árs 2023 var ég búin að taka þá ákvörðun að hætta á þáver­andi veit­ingastað og loks­ins skipta yfir í eld­húsið. En þá bauðst mér tæki­færi til að opna veit­ingastað, byrja frá grunni og vera þar veit­inga­stjóri. Það býðst ekki á hverj­um degi og þarna var ég aðeins 23 ára göm­ul. En ég var samt alltaf áfram með það á bak við eyrað að fara yfir í pas­try.“

Andrea neit­ar því ekki að mik­il breyt­ing sé að fara úr saln­um yfir í eld­húsið. „Press­an er klár­lega öðru­vísi og það er erfiðara að sjá og vita ekki hvað er að ger­ast frammi í sal. Í eld­hús­inu er oft eins og maður hafi ekki und­an öll­um pönt­un­un­um og erfiðara að sjá kvöldið fyr­ir sér en þegar þú ert í saln­um. Þá sérðu ná­kvæm­lega all­ar bók­an­ir, ef gest­ir koma seint og ef kvöldið stefn­ir í ein­hverja vit­leysu. En í eld­hús­inu er erfiðara að sjá fram í tím­ann.

Á fyrstu vökt­un­um í eld­hús­inu átti ég al­veg erfitt með að hoppa ekki fram að hjálpa til, mig klæjaði al­veg í putt­ana. En það er líka gott að hafa upp­lifað hvort tveggja.

Andrea Ylfa er afar ánægð í bakaríinu í Stokkhólmi og …
Andrea Ylfa er afar ánægð í baka­rí­inu í Stokk­hólmi og hef­ur lært heil­mikið í pas­try-gerð. Ljós­mynd/​Aðsend

Besta vin­kon­an fyr­ir­mynd­in

Hef­ur þú ávallt haft ástríðu fyr­ir bakstri og köku­skreyt­ing­um?

Já, held­ur bet­ur. Ólöf Ólafs­dótt­ir, oft kölluð eft­ir­rétta­drottn­ing­in, er besta vin­kona mín og fyr­ir­mynd er konditor. Ég hef auðvitað nýtt hvert ein­asta tæki­færi sem gefst til að vera með henni í þeim verk­efn­um sem hún tek­ur sér fyr­ir hend­ur sem tengj­ast eft­ir­rétt­um og pas­try.

Hvað er það sem heill­ar þig mest?

„Þegar kem­ur að bakstri og eft­ir­rétt­um er það oft­ast fyr­ir gleðileg til­efni, hvað er betra en að vera með fal­lega köku sem fang­ar bæði augu og munn í af­mæl­is- eða ferm­ing­ar­veisl­unni? Það er svo gam­an og gef­andi að búa til eitt­hvað sjálf­ur og gleðja aðra.“

Marg­fald­ir verðlauna­haf­ar eiga baka­ríið

Þú ákvaðst einnig að læra er­lend­is, skipt­ir það sköp­un?

„Mig langaði til þess að vinna með flott­um fag­mönn­um og læra af þeim ásamt því að búa til sterk­ara tengslanet. Brans­inn er svo lít­ill heima á Íslandi þegar kem­ur að eft­ir­rétt­um og pas­tr­yrétt­um, það er mun minna í boði,“ seg­ir Andrea og bæt­ir við að hún hafi verið ein­stak­lega hepp­in með baka­ríið sem hún fékk samn­ing hjá.

„Baka­ríið heit­ir Socker Sucker og er staðsett í Stokk­hólmi í Svíþjóð. Baka­ríið býður upp á fal­lega eft­ir­rétti, ásamt góðu bakk­elsi og kon­fekti.

Eig­end­urn­ir eru þau Bedros og Frida, Bedros er bak­ari og Frida er konditor, þau eru bæði marg­fald­ir verðlauna­haf­ar í sín­um fög­um. Bedros er þjálf­ari hjá sænska bak­ara­landsliðinu ásamt því að hafa verið val­inn ann­ar besti bak­ari í heimi árið 2019. Frida er í sænska kokka­landsliðinu og er Evr­ópu­meist­ari,“ seg­ir Andrea.

„Þau sáu ný­verið um kvöld­verðinn á Nó­bels­verðlauna­hátíðinni sem er hald­in hér í Stokk­hólmi. Bedros sá um brauðið og Frida hannaði eft­ir­rétt­inn. Það var ótrú­lega skemmti­legt að sjá hvernig und­ir­bún­ing­ur­inn fór fram fyr­ir svona stór­an kvöld­verð og vinn­an sem fór í þetta var svaka­leg.“

Sýnishorn af pastry kræsingum.
Sýn­is­horn af pas­try kræs­ing­um. Ljós­mynd/​Aðsend

Smá menn­ing­ar­sjokk

Hvernig var und­ir­bún­ing­ur­inn fyr­ir jóla­hátíðina þegar kom að bakstri, var hann svipaður og hér heima?

„Hér á Socker Sucker er allt búið til frá grunni, allt frá kon­fekti yfir í kök­ur. Í Svíþjóð er mik­il jóla­hefð að baka jóla­kök­ur og bakk­elsi með saffr­an, fyr­ir mér var það smá menn­ing­ar­sjokk þar sem við Íslend­ing­ar not­um saffr­an all­an árs­ins hring í mat­ar­gerð. Það var vissu­lega furðulegt að smakka sætt brauð með saffr­an, hvað þá saffr­an croiss­ant.“

Andrea er afar ánægð með þá reynslu sem hún hef­ur fengið úti og hlakk­ar til að koma heim reynsl­unni rík­ari. „Næst á dag­skrá er að flytja í heima­bæ­inn minn, Ak­ur­eyri, og vinna á veit­ingastaðnum Múla­bergi,“ seg­ir Andrea að lok­um með bros á vör.

 

Fagurfræðin er til staðar þegar þessir réttir eru skreyttir.
Fag­ur­fræðin er til staðar þegar þess­ir rétt­ir eru skreytt­ir. Sam­sett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert