Karen Jónsdóttir, alla jafna kölluð Kaja, konan bak við Kaja Organic heildsöluna heldur ótrauð áfram að koma með nýjar vörur á markað þrátt fyrir hækkað verð á lífrænum vörum eins og súkkulaði og ávöxtum.
En sérstaða Kaju er að allar vörurnar frá henni eiga það sameiginlegt að vera lífrænt vottaðar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir ákveðnum vörum sem boðið var upp á á kaffihúsinu og Kaja hefur ákveðið að bregðast við.
Nýjasta varan frá Kaju er lífrænt granóla sem hún segir vera hefðbundið og einfalt, það inniheldur aðeins hafra, sólblómafræ, agave og kókosolíu.
„Ástæðan fyrir þessum einfaldleika er að gefa fleirum kost á að versla íslenska lífræna framleiðslu, því hráefnishækkanir eru að valda okkur miklum vandræðum. Verðhækkanir á þurrkuðum ávöxtum og súkkulaði eru svakalegar en þar er ég að sjá allt að 70% verðhækkun á innkaupsverði. Þetta hefur leitt til þess að við höfum þurft að endurskoða okkar verð,“ segir Kaja og bætir við að það sé margt sem getur haft áhrif á verð vörunnar.
„Kaja Organic er örframleiðandi á heimsmælikvarða og því getum við ekki fengið föst ársverð eins og risaframleiðendurnir svo við kaupum hráefnin inn á heimsmarkaðsverði með þeim sveiflum sem því fylgja. Meginorsök þessara miklu verðhækkana nú eru uppskerubrestir bæði vegna flóða og svo þurrka en það telst vera bein afleiðing af loftlagsbreytingum, eitthvað sem fæstir leiða hugann að þegar talað er um þetta stóra vandamál. Af þeim sökum er það gífurlega mikilvægt að sporna við loftlagsbreytingum svo matarverð til framtíðar haldist í eðlilegu horfi og m.a. til þess að Kaja haldi velli,“ segir Kaja alvörugefin.
„En við höldum ótrauð áfram íslenskri framleiðslu, krossleggjum fingur og vonum að þessar hækkanir gangi til baka. Við vonum að uppskera ársins verði betri,“ segir Kaja að lokum.