„Hreiðar Levý sagði það ekki sæma handbolta“

Hreiðar Levý Guðmundsson fyrrum landsliðsmaður í handbolta og eiginkona hans …
Hreiðar Levý Guðmundsson fyrrum landsliðsmaður í handbolta og eiginkona hans Hildur Gunnlaugsdóttir áhrifavaldur missa ekki af leik hjá íslenska landsliðinu. mbl.is/Karítas

Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og umhverfisfræðingur og eiginmaður hennar fasteignasalinn Hreiðar Levý Guðmundsson, betur þekktur sem fyrrum landsliðsmaður í handbolta, missa ekki af leik hjá íslenska landsliðinu í handknattleik.

Eins og margir glöggir lesendur þekkja er Hildur þekkt fyrir að bjóða upp á frumlegar og skemmtilegar kræsingar þegar mikið stendur til. Hún heldur úti Instagram-reikningnum Hvasso_heima þar sem hægt er að fylgjast með því sem hún tekur sér fyrir hendur hverju sinni. Hún er sniðugri en flestir í alls konar hlutum og það má með sanni segja að hún sé líka árhifavaldur.

Fjölskyldustund að horfa á leik saman

Saman eru hún og Hreiðar Levý algjörir stuðpinnar og enginn verður svikinn af því að lenda í partíi hjá þeim.

Ætlið þið að fylgjast með leikjunum hjá strákunum heima eða fara út?

„Við verðum bara heima í þetta sinn. Hreiðar Levý var að spá í að fara út en það er svo mikill gangur í fasteignasölunni hjá honum að hann komst því miður ekki. Hann horfir á alla leiki og er búinn að smita dætur okkar af handboltaáhuga, en þeim finnst algjörlega ómissandi að horfa á alla leiki. Þetta er því mikil fjölskyldustund að horfa á leik saman. Ég er líka bara mjög fegin því að þurfa ekki að horfa á Hreiðar Levý spila en mér var alltaf smá illa við það enda hrædd um að hann myndi meiðast í leikjunum,“ segir Hildur og bætir við að mikil spenna sé á heimilinu þegar leikur er á skjánum.

„Við vonum auðvitað að strákarnir komist langt í keppninni. Hreiðar heldur því fram að þeir verði óstöðvandi fyrst þeir unnu Egypta í gærkvöldi og komi þá vonandi með medalíu heim.“

Stakk upp á vatnsmelónu carpaccio

Aðspurð segist Hildur að það sé ávallt partígleði þegar leikirnir eru sýndir beint og til að vera með alvöru stemningu verði að bera fram partírétti.

Þegar við erum heima að fylgjast með leikjunum erum við oftast með fjölskyldupartí en það er svo gaman að sjá Hreiðar Levý og stelpurnar tengjast svona skemmtilega saman yfir handboltanum. Báðar yngri dætur okkar eru komnar í handbolta og eldri strákurinn hans er í unglingalandsliðinu þannig að meirihluti fjölskyldunnar er forfallinn.

Síðan er það maturinn en það er ekkert partí án kræsinga. Við erum þó ekki alltaf sammála um hvernig kræsingar við eigum að vera með en ég pæli meira í útliti veitinganna en Hreiðar í bragðinu. Ég stakk upp á að vera með vatnsmelónu carpaccio en Hreiðar vetó-aði það um leið og sagði það ekki sæma handboltanum,“ segir Hildur og hlær.

Allt tilbúið fyrir leikinn, partírrétturinn og drykkjarföng.
Allt tilbúið fyrir leikinn, partírrétturinn og drykkjarföng. mbl.is/Karítas

Nachosgleði í glasi

„Ég ákvað því að vera með ofureinfalt nachos sem er samt í huggulegu glasi. Ég elska svona einfaldan mat sem hægt er að henda saman á 5 mínútum og þetta er akkúrat þannig. Það er líka mjög hentugt sem partímatur núna á þessu mikla flensutímabili en hver og einn fær sitt glas. Í hverju glasi eru svartar baunir, eða hakk fyrir þau sem það vilja frekar, kryddaður ostur, sýrður rjómi, guacamole, salsa sósa, tómatar, rauð paprika og jalapenó. Með þessu ber ég fram nachos í skál,“ segir Hildur sposk.

Hildur töfraði fram þennan skemmtilega partírétt á augabragði og skreytti …
Hildur töfraði fram þennan skemmtilega partírétt á augabragði og skreytti að sjálfsögðu með íslenska fánanum. mbl.is/Karítas

Partíréttur í glasi og nachos

Fyrir 3 glös

  • 1 dós svartar baunir
  • 200 g rifinn ostur með mexíkókryddi
  • 1 ½ dós sýrður rjómi
  • 2 avókadó
  • smá salt
  • chilliflögur
  • hvítlaukur eftir smekk
  • límónusafi eftir smekk

Til skrauts

  • kokteiltómatar, skornir til helminga
  • rauð paprika, skorin í sneiðar eða bita
  • jalapenó, skorið í litlar sneiðar

Meðlæti

  • Nachos að eigin vali

Aðferð:

  1. Byrjið á því að gera guacamole.
  2. Skerið avókadóin, stappið saman og kryddið til með smá salti og chiliflögum, bætið við smá hvítlauk sem búið er að saxa smátt eða merja og ferskum límónusafa.
  3. Hrærið í blöndunni og þá er guacamole tilbúið
  4. Takið síðan til þrjú glös á fæti.
  5. Setjið svörtu baunirnar neðst í glösin, eða eldað nautahakk ef vill.
  6. Setjið síðan smá af rifnum osti í hvert glas.
  7. Hrærið sýrða rjómanum og bætið í glösin ofan á ostinn.
  8. Setjið síðan dágóða skeið af guacamole ofan á sýrða rjómann.
  9. Skreytið með litlum kokteiltómötum, rauðri papriku og jalapenó.
  10. Berið fram með nachosi í skál.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert