„Líklega einn vinsælasti miðvikudagsmaturinn í sögunni“

Gunnlaugur Arnar Ingason bakari og konditori á heiðurinn af vikumatseðlinum …
Gunnlaugur Arnar Ingason bakari og konditori á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Gunn­laug­ur Arn­ar Inga­son bak­ari og konditor, alla jafna kallaður Gulli Arn­ar, á heiður­inn af vikumat­seðlin­um að þessu sinni. Nýliðið ár var anna­samt hjá Gulla Arn­ari, bæði í baka­rí­inu og einka­líf­inu og fæðing yngri son­ar­ins var án efa hápunkt­ur­inn í lífi hans eins og hann seg­ir sjálf­ur frá.

„Það er nóg framund­an á kom­andi vik­um og mánuðum í baka­rí­inu. Fyrri part­ur árs er alltaf skemmti­leg­ur tími fyr­ir bak­ara lands­ins en ber þar hæst að nefna okk­ar stærstu daga eins og bónda- og konu­dag, Valentínus­ar­dag og svo auðvitað þjóðhátíðardag­inn sjálf­an í bakarí­um lands­ins, bollu­dag­inn,“ seg­ir Gulli Arn­ar full­ur til hlökk­un­ar.

„Við bjóðum ávallt upp á okk­ar flottu eft­ir­rétti og eru þeir mjög vin­sæl­ir á svona sér­stök­um dög­um til að mynda á dög­um eins og Valentínus­ar­degi og bónda­degi. Þá koma marg­ir viðskipta­vin­ir sem vilja gleðjast og eiga góða kvöld­stund með ást­inni sinni.

Konu­dag­ur­inn er einn af okk­ar upp­á­halds­dög­um

Konu­dag­ur­inn er einn af okk­ar upp­á­halds­dög­um. Þá fyll­ist baka­ríið af viðskipta­vin­um sem vilja gleðja kon­urn­ar í sínu lífi og kaupa brauð, bakk­elsi og konu­dag­stertu,“ seg­ir Gulli Arn­ar og bæt­ir við að hon­um þyki fátt skemmti­legra en að skreyta kræs­ing­ar fyr­ir ást­ina.

„Það sem var vin­sælt í fyrra í baka­rí­inu voru fyr­ir­tækjapakk­arn­ir okk­ar sem voru mikið pantaðir. Til að mynda fyr­ir föstu­dagskaffi hjá fyr­ir­tækj­um, svo fátt sé nefnt. Þá pant­ar viðkom­andi ein­fald­lega fyr­ir þann fjölda sem starfar á hans vinnustað og við sjá­um um rest. Þá sker­um við niður brauð og bakk­elsi og röðum fal­lega á bakka. Það eina sem viðkom­andi þarf að gera er að sækja bakk­ana í baka­ríið og setja síðan á hátíðar­borðið á sín­um vinnustað eða þar sem hann ætl­ar að slá í gegn með kræs­ing­um. Ég mæli með því að all­ir sem eru að sjá um föstu­dagskaffið í vinn­unni eða ann­ars staðar að senda á mig línu og við græj­um þetta,“ seg­ir Gulli Arn­ar með bros á vör.

„Eft­ir að hafa gert upp árið í fyrra er ég mjög ánægður og stolt­ur af vexti baka­rís­ins. Ég er því full­ur eld­móðs að halda áfram á nýju ári með spenn­andi nýj­ung­ar, flott­ar vör­ur og góða þjón­ustu.“

Hápunkt­ur­inn þegar við eignuðumst okk­ar annað barn

Mikið hef­ur líka verið að gera í einka­líf­inu hjá Gulla Arn­ari og fjöl­skyld­an stækkaði á síðasta ári. „Hápunkt­ur árs­ins var vafa­laust í nóv­em­ber þegar við Kriste Þórðardótt­irl, kon­an mín, eignuðumst okk­ar annað barn. Við erum kom­in með tvo stráka á heim­ilið, Arn­ar Inga sem er 21 mánaða og Elm­ar Inga sem er 2 mánaða. Það er því mjög líf­legt á heim­il­inu núna, mik­ill gaura­gang­ur. Svo erum við auðvitað með Havanese-hund­inn, hann Bósa, sem má ekki gleym­ast,“ seg­ir Gulli Arn­ar sposk­ur á svip.

Fjölskyldan stækkaði í nóvember á síðasta ári og þá eru …
Fjöl­skyld­an stækkaði í nóv­em­ber á síðasta ári og þá eru strák­arn­ir orðnir tveir. Gulli Arn­ar og kon­an hans Kristel Þórðardótt­ir eru hér með frumb­urð sinn, Arn­ar Inga. Ljós­mynd/​Aðsend

„Eft­ir að hafa átt mjög nota­lega stund um jól og ára­mót með fjöl­skyld­unni þar sem maður fékk að ná and­an­um og slaka á eft­ir mikla keyrslu yfir mánuðina á und­an eru gengn­ir, þá kem ég tví­efld­ur til leiks á nýju ári og er spennt­ur fyr­ir kom­andi verk­efn­um. Það er gott að kom­ast aft­ur í rútínu en eft­ir að hafa lifað á „take away“ mat í nán­ast tvo mánuði þar sem yngri dreng­ur­inn kom í heim­inn í miðri jóla­törn og rútínu­leysi var al­gjört enda ekki mikið eldað á heim­il­inu þá.“

Frumburðurinn, Arnar Ingi, hefur fengið að fara mikið í bakaríið …
Frumb­urður­inn, Arn­ar Ingi, hef­ur fengið að fara mikið í baka­ríið með pabba sín­um og finnst það ekki leiðin­legt. Ljós­mynd/​Aðsend

Gulli Arn­ar gaf sér tíma til að setja sam­an sinn drauma­vikumat­seðil eins og hann lang­ar til að hafa hann þessa vik­una.

Mánu­dag­ur – Gratín­eraður þorsk­ur

„Ég er að reyna að skapa þá hefð á heim­il­inu að borða fisk á mánu­dög­um. Ég elska fisk, en hef ekki verið nógu dug­leg­ur að elda eða borða hann. Ég er því að reyna að koma því í vana. Það sem er mik­il­væg­ast þegar maður er með tvo gaura heima sem þurfa alltaf at­hygli og eru á mjög svo ólíku þroska­stigi er ein­föld mat­ar­gerð. Ég er því mjög hrif­inn af upp­skrift sem þess­ari þar sem allt er sett í eitt fat og inn í ofn. Lít­il vinna, ein­fald­ur frá­gang­ur, fljót­leg matseld og all­ir sátt­ir.“

Þriðju­dag­ur – Grjóna­graut­ur með lifr­ar­pylsu

„Grjóna­graut­ur er í miklu upp­á­haldi hjá Arn­ari Inga syni okk­ar. Elda­mennsk­an heima snýst núna mikið um að hafa barn­væn­an mat sem er í upp­á­haldi hjá hon­um. Grjóna­graut­ur er því mikið eldaður á mínu heim­ili.“

Miðviku­dag­ur – Las­anja með lúx­us-ostasósu

„Las­anja klikk­ar ekki, lík­lega einn vin­sæl­asti miðviku­dags­mat­ur í sög­unni. Ég geri svo hvít­lauks­brauð úr súr­deigs­brauðinu úr baka­rí­inu. Arn­ar Ingi borðar þetta yf­ir­leitt með öllu and­lit­inu og svo beint í bað. Aðal­kost­ur­inn við þetta er samt án vafa af­gang­ur­inn í há­deg­inu dag­inn eft­ir.“

Fimmtu­dag­ur – BBQ Taquitos með ranch sósu og fersk­um maís

„Kjúk­linga­vefj­ur er eitt­hvað sem er ein­falt og þægi­legt að gera. Það er líka mjög gott að vera með vefj­ur í boði þegar maður er að taka til í ís­skápn­um. Græn­meti á síðasta snún­ing, kjöt, sós­ur og fleira, allt beint í vefju.“

Föstu­dag­ur – Heima­gerð pítsa

„Heima­gerð pítsa er full­kom­in til að njóta á föstu­dags­kvöldi. Hér er mikið sport hjá stóra bróður að setja áleggið á pítsuna. Þetta er því fín afþrey­ing eft­ir leik­skóla, að koma heim og gera pítsu. Þetta er ávallt frek­ar frjáls­leg stund en skemmti­leg.“

Laug­ar­dag­ur - Kjúk­linga­borg­ari

„Kjúk­linga­borg­ar­inn slær alltaf í gegn hjá okk­ur. Eft­ir að við eignuðumst strák­ana er líka skemmti­legt að vera með mat sem strák­arn­ir geta hjálpað til við að elda. Arn­ar Ingi er mjög áhuga­sam­ur um eld­húsið, það mun koma síðar hjá Elm­ari Inga.“

Sunnu­dag­ur – Ris­arækjutaco

„Upp­á­halds­kvöld­in mín þar sem maður slak­ar á eft­ir anna­sama viku. Þar sem baka­ríið er lokað á mánu­dög­um hafa sunnu­dags­kvöld­in verið frek­ar heil­ög hjá mér, þetta eru mín föstu­dags­kvöld ef svo má segja. Hérna höf­um við stund­um tekið af­ganga og til­tekt í ís­skápn­um fyr­ir dreng­inn, svæf­um strák­ana og höf­um svo eldað „late dinner“ eða eins og við segj­um á ís­lensku, síðbú­inn kvöld­verð, eft­ir að allt er komið í ró á heim­il­inu. Eitt af því sem er í upp­á­haldi hjá bæði mér og konu minni, Kristel, er rækju-taco.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert