Meiri möguleikar með Kaffi Grund

Á Kaffi Grund Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna í nýja …
Á Kaffi Grund Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna í nýja kaffihúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Kaffi­húsið Kaffi Grund var opnað í nýj­um garðskála, sem snýr að Hring­braut í Reykja­vík og teng­ist aðal­bygg­ing­unni, skömmu fyr­ir nýliðin jól. Það er sér­stak­lega hugsað fyr­ir íbúa og aðstand­end­ur þeirra en jafn­framt opið fyr­ir aðra gesti, að sögn Karls Ótt­ars Ein­ars­son­ar, for­stjóra Grund­ar­heim­il­anna frá 2023.

Grund er elsta heim­ili lands­ins fyr­ir aldraða, var tekið í notk­un 29. októ­ber 1922 og verður því 103 ára í haust. Har­ald­ur Sig­urðsson var fyrsti fram­kvæmda­stjór­inn. Gísli Sig­ur­björns­son tók við eft­ir and­lát hans og var for­stjóri 1934 til dauðadags 1994. Guðrún Birna Gísla­dótt­ir tók við af föður sín­um. Gísli Páll Páls­son var fram­kvæmda­stjóri í Ási og for­stjóri í Mörk sam­hliða Guðrúnu og svo for­stjóri allra Grund­ar­heim­il­anna 2019 til 2023 en hef­ur verið starf­andi sem stjórn­ar­formaður síðan. Karl Óttar vek­ur at­hygli á að þótt Grund­ar­heim­il­un­um hafi verið stýrt af sömu fjöl­skyld­unni sé Grund sjálf­seign­ar­stofn­un. „Hún á sig sjálf, all­ar eign­irn­ar nýt­ast í öldrun­arþjón­ustu og ekki er hægt að greiða út arð.“

Eden-hug­mynda­fræðin

Karl Óttar bend­ir á að mörg her­bergi á Grund séu lít­il og rými til að taka á móti mörg­um gest­um af skorn­um skammti, en unnið sé að því að breyta aðstöðinni í átt til nú­tímakrafna. Í tengsl­um við ald­araf­mælið hafi sú hug­mynd verið rædd að bæta úr aðstöðunni. „Við byrjuðum fyrst og fremst á því að hugsa um heim­il­is­fólkið og gesti þess,“ seg­ir Karl Óttar. „Við vild­um gefa fólk­inu kost á þess­ari til­breyt­ingu, að geta farið sam­an á kaffi­hús. Þetta teng­ist líka Eden-hug­mynda­fræðinni okk­ar, sem snýst um að fólk haldi sjálf­stæði sínu og reisn. Það gef­ur íbú­un­um mikið að geta boðið fólk­inu sínu á kaffi­hús.“

Sam­kvæmt Eden-hug­mynda­fræðinni er lögð áhersla á að vinna gegn ein­mana­leika og van­mætti og leiða með nánd, sam­veru, stuðning og gleði að leiðarljósi. „Hún bygg­ist líka á teng­ing­um við sam­fé­lagið sem við búum í, meira lífi,“ út­skýr­ir Karl Óttar. Kaffi­húsið auki mögu­leika á að fá fleiri í heim­sókn, eins og til dæm­is fólk með börn, og fjöl­breyti­leik­inn verði því meiri. „Það hef­ur mikið gildi fyr­ir fólkið okk­ar að fylgj­ast með öðrum.“

Suðurg­arður­inn hef­ur ekki nýst nægi­lega vel, þar sem aðgengi út í hann hef­ur aðeins verið að norðan­verðu, en með garðskál­an­um er kom­in opin leið út í garðinn, þar sem gest­ir geta setið í góðu veðri. „Þetta er mik­il og já­kvæð breyt­ing,“ seg­ir Karl Óttar en í garðskál­an­um eru sæti fyr­ir 30 manns og þeim má fjölga ef vill. Kaffi­húsið er opið alla daga frá klukk­an 13.00 til 17.00 og var af­greiðslu­tími kaffi­húss­ins Kaffi Mark­ar á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Mörk á Suður­lands­braut hafður til hliðsjón­ar. „Þessi tími hef­ur virkað ágæt­lega þar,“ seg­ir Karl Óttar, en Kaffi Mörk var tekið í notk­un 2019.

Boðið er upp á smurt brauð og kök­ur auk heitra og kaldra drykkja, en vín­veit­inga­leyfi er í vinnslu. Starfs­fólk eld­húss­ins og versl­un­ar­inn­ar sinn­ir þjón­ust­unni. Bak­ari er í eld­hús­inu á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Ási í Hvera­gerði. „Hann sér um bakst­ur á öllu brauði og bakk­elsi, bæði fyr­ir kaffi­hús­in og hjúkr­un­ar­heim­il­in,“ upp­lýs­ir Karl Óttar.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert