Hildur Ómarsdóttir uppskriftahöfundur sem heldur úti uppskriftavefnum Hildur Ómars er þekkt fyrir að gera æðislegan eggaldinrétt sem slær ávallt í gegn og alla langar í uppskriftina. Þetta eru kasjúostsfylltar eggaldinrúllur í tómatsósu sem bráðna í munni.
„Þetta er uppáhaldsrétturinn minn til að bjóða upp á í matarboðum. Allir elska hann, bæði börn og fullorðnir og það besta að það er hægt að preppa hann snemma. Uppskriftin er einföld þó að það fylgi henni smá dútl en hún samanstendur af kasjúosti, eggaldinsneiðum og tómatsósu sem svo er raðað saman í form,“ segir Hildur.
Hildur segir að rétturinn geti staðið einn og sér en hún hafi líka verið að bera hann fram með kartöflum í ofni ásamt salati. Síðan er upplagt að bera réttinn fram með nýbökuðu brauði, eins og súrdeigsbrauði eða hvítlauksbrauði svo fátt sé nefnt.
Girnilegur réttur með kasjúostsfylltum eggaldinrúllur í tómatsósu.
Ljósmynd/Hildur Ómars
Kasjúostsfylltar eggaldinrúllur í tómatsósu
Fyrir 4
- 4 eggaldin
- ólífuolíu
- jurtasalt
Kasjúrjómaostur
- 300 g lífrænar kasjúhnetur frá Rapunzel
- 2 hvítlauksrif (eða 1/2 kúluhvítlaukur)
- safi úr 1/2 sítrónu
- 1/4 tsk. jurtasalt
- 2 dl vatn
Tómatsósa
- 1 msk. ólífuolía
- 2 gulir laukar
- 2 flöskur lífrænt tómatpassata (680 gr)
- 2-3 dl vatn (hellist í tómatflöskurnar og hrist til að ná rest úr)
- 2 msk. grænmetiskraftur
- 1 1/2 msk. rauðvínsedik
- 1 msk. herbs de provence eða ítölsk kryddblanda
Kryddraspur (valfrjálst en mæli með)
- 1/4 dl möndlumjöl
- 2 msk. næringarger
- 1 tsk. laukduft
- 1 tsk. þurrkuð steinselja
- 1 tsk. óreganó
- 1/2 tsk hvítlauksduft
- 1/2 tsk paprika
- 1/4 tsk jurtasalt
Aðferð:
- Byrjað er á að leggja lífrænar kasjúhnetur í bleyti í nokkra klukkutíma eða yfir nótt.
- Hægt er að flýta þessu skrefi með því að leggja hneturnar í heitt vatn og þá dugir að leggja þær í bleyti í 10 mínútur.
- Kasjúrjómaosturinn er svo útbúinn með því að hella vatninu af kasjúhnetunum, skola þær og koma þeim fyrir í blandara ásamt safa úr sítrónu, hvítlauk, vatni og salti og blanda þar til silkimjúk.
- Skerið eggaldinin í þunnar (ca 4mm) sneiðar, langsum, í gegnum eggaldinið, þ.e.a.s. við viljum fá langar sneiðar sem hægt er að rúlla upp.
- Raðið sneiðunum á bretti og saltið allar sneiðarnar með jurtasalti og leyfið þeim að liggja í 15 mínútur, saltið fær eggaldinið til að „svitna“.
- Þurrkið svo eggaldinsneiðarnar með eldhúsbréfi og raðið þeim á ofnplötu, dreifið smá ólífuolíu yfir þær og bakið í ofni við 180°C í 15 mínútur.
- Útbúið sósuna með því að steikja smátt saxaðan laukinn í smá olíu eða vatni.
- Þegar laukurinn er orðinn mjúkur er jurtakrafti, kryddum, tómatpassata, ediki og vatnið bætt út í og leyft að malla í um það bil 15 mínútur á lágum hita með loki.
- Hrærið reglulega í pottinum, það getur orðið afgangur af sósunni.
Samsetning
- Setjið um það bil 1 kúpta teskeið af kasjúrjómaostinum á annan endann á hverri eggaldinrúllu og rúllið eggaldinsneiðinni upp utan um ostinn.
- Raðið hverri rúllu þétt saman í eldfast mót.
- Þegar búið er að fylla formið af fylltum eggaldinrúllum má hella sósunni yfir svo hún þekji allar rúllurnar.
- Útbúið kryddraspinn með því að koma hráefnunum fyrir í krukku og hrista þeim saman.
- Dreifið yfir réttinn áður en hann fer inn í ofn.
- Hitið réttinn í um það bil 30 mínútur á 200°C.
- Berið fram með því sem hugurinn girnist.