„Ég lifi til að borða ekki öfugt“

Vigdís Másdóttir er mikill nautnaseggur og elskar að útbúa mat. …
Vigdís Másdóttir er mikill nautnaseggur og elskar að útbúa mat. Hún gæti ekki hugsað sé lífið án matar. mbl.is/Karítas

Vig­dís Más­dótt­ir, kynn­ing­ar- og markaðsstjóri Mekó, er mik­ill nautna­segg­ur og elsk­ar að út­búa mat. Hún er áhuga­kokk­ur og menn­ing­ar­neyt­andi að eig­in sögn.

„Ég lifi meira til að borða ekki öf­ugt, ég elska að út­búa mat, gefa góðu fólki að borða og njóta þess að hverfa inn í heim hrá­efna og dunda mér í eld­hús­inu. Oft er ég þar í marga klukku­tíma. Ég fæ mikla út­rás fyr­ir sköp­un­arþörf­ina í eld­hús­inu og oft­ar en ekki er ég að prófa mig áfram með ákveðin krydd, áferð og sam­setn­ing­ar. Það fyll­ir mig ró og gleði þegar vel tekst til, sem er auðvitað ekki alltaf,því er ávallt sér­stök spenna sem fylg­ir því að prófa eitt­hvað nýtt,“ seg­ir Vig­dís dreym­in á svip.

„Þar sem geðheilsu­mál eru sem bet­ur fer í umræðunni í dag, vil ég nota tæki­færið og hvetja ykk­ur öll til þess að vera dug­leg að leika og eld­húsið er frá­bær staður til þess. Að nýta það sem er til í skáp­un­um, maður veit aldrei hvaða ljúf­meti verður til í svo­leiðis leik,“ seg­ir Vig­dís og glott­ir.

Fer líka eft­ir því hvernig veðrið er

Vig­dís ljóstr­ar hér upp sín­um skemmti­legu staðreynd­um um mat­ar­venj­ur sín­ar og upp­á­haldsveit­ingastaði svo fátt sé nefnt.

Hvað færðu þér í morg­un­mat?

„Tví­buri með at­hygl­is­brest á ekki auðvelt með að halda í rútínu þó að það sé auðvitað best, þannig að ég er ekki al­veg nægi­lega dug­leg að borða morg­un­mat. Sér í lagi á virk­um dög­um, þá er það helst soðið egg. Ann­ars á ég það til að fara alla leið um helg­ar og út­búa dög­urð með öllu til­heyr­andi og þá fer það al­gjör­lega eft­ir því í hvernig stuði ég er í. Það fer líka eft­ir því hvernig veðrið er, hvað er á dag­skrá þann dag­inn og enda­laus­ar aðrar breyt­ur. Ég á mjög erfitt með stöðnun og verð sí­fellt að breyta til og prófa nýja hluti.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Þetta er flók­in spurn­ing því ég er sjaldn­ast með fasta mat­ar­tíma, nema þá fyr­ir dótt­ur mína. En ég elska ost, hann verður mjög oft fyr­ir val­inu og svo súkkulaði eða annað nammi, ég er al­gjör nammig­rís. Ég er með aðstöðu í Bóka­safni Kópa­vogs og þar vinna marg­ir sæl­ker­ar sem bjóða ávallt upp á eitt­hvað gúm­melaði á kaffi­stof­unni.“

Finnst þér ómiss­andi að borða há­deg­is­verð?

„Já, það finnst mér. En ég er reynd­ar mjög oft á hlaup­um í há­deg­inu, við bjóðum upp á svo marga viðburði í menn­ing­ar­líf­inu í há­deg­inu í Kópa­vog­in­um. En menn­ing­in er svo nær­andi að það skipt­ir ekki máli að ég borði seint þá daga. Nýja upp­á­haldið eru pítsurn­ar á veit­ingastaðnum Kronik­unni í Gerðarsafni.“

Hvað áttu alltaf til í ís­skápn­um?

„Egg, ost, og þá alltaf par­mes­an, límónu eða sítr­ónu, tóm­ata og hvít­lauk. Ég geymi samt yf­ir­leitt með tóm­at­ana og hvít­lauk­inn á eld­hús­borðinu.“

Borðar þú þorramat?

„Já og þá eru súru pung­arn­ir í upp­á­haldi, það er eitt­hvað við sýruna sem mér finnst mjög gott, rétt eins og límón­ur sem ég elska.“

Jóm­frú­in klass­ík

Þegar þú ætl­ar að gera vel við þig í mat og drykk og vel­ur veit­ingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Ég er eins og veðrið, það breyt­ist mjög ört. Til að mynda er klass­ík að fara á Jóm­frúna – danska æv­in­týrið svík­ur aldrei. Vín­stúk­an 10 sop­ar er æði í vina­hitt­inga, þar eru geggjaðir smá­rétt­ir, frá­bær vín og ynd­is­leg þjón­usta. Slipp­ur­inn, sem er því miður að kveðja í sum­ar, en þar er virki­lega góður og áhuga­verður mat­ur. Það verður far­in píla­gríms­för til Eyja í sum­ar. Sumac hef­ur lengi verið í upp­á­haldi hjá mér, hrá­efn­in þar eru mjög að mínu skapi.

Mér finnst líka gam­an að fara á veit­ingastaðinn Hjá Jóni á Parlia­ment hót­el­inu við Aust­ur­völl. Það er virki­lega fal­leg­ur staður, frá­bært úr­val af kampa­vín­um og fágaður mat­ur. Síðan er risottoið á Kast­rup við Hverf­is­götu með því betra sem ég hef smakkað á æv­inni. Fisk­ur og fransk­ar á Vega­mót­um á Bíldu­dal er ómiss­andi ef þið eruð fyr­ir vest­an, þar er fersk­leik­inn í fyr­ir­rúmi. Ann­ars hef ég aldrei verið svik­in af eðal­máltíð sem fram­reidd er af Fann­eyju Dóru Sig­ur­jóns­dótt­ir, Leifi Kol­beins og Viðari Reyn­is­syni,“ seg­ir Vig­dís með bros á vör.

„Ann­ars ef ég fer aðeins út fyr­ir land­stein­ana, til London þar sem Heiðrún Björns­dótt­ir syst­ir býr, þá myndi ég klár­lega nefna Zaf­feranos, sem hinn magnaði Gi­orgio Loca­telli opnaði 1995 en hann er að vísu ekki leng­ur viðriðinn staðinn. Dá­sam­leg ít­ölsk stemn­ing, mat­ur­inn dýrðleg­ur og þjón­ust­an al­veg mögnuð, manni líður smá eins og nonna, sem þýðir amma á ít­ölsku, sé í eld­hús­inu og maður sitji við borðstofu­borðið henn­ar,“ bæt­ir Vig­dís við.

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Ein­fald­leika, ekki of mikið, fer al­veg eft­ir því í hvaða skapi ég er í en oft­ast er það parma­skinka, kletta­sal­at og par­mes­an.“

Hvað færð þú þér á pyls­una þína?

Þá er það ein með öllu, en lítið af hrá­um.“

Elsk­ar ostr­ur og kampa­vín

Hver er upp­á­halds­rétt­ur­inn þinn?

„Mjög erfið spurn­ing, þetta er eins og þurfa að gera upp á milli barn­anna sinna. Ég elska ostr­ur og kampa­vín, var að taka eft­ir því á mat­seðlin­um á Brut en á eft­ir að prófa þar, sem ég efa ekki að verði gott eins og allt sem þau bjóða upp á. Ég er klár­lega á leiðinni þangað. Núna í vetr­arkuld­an­um væri ég al­veg til í ný­bökuð hveiti­brauðin hjá ömmu Esther á Patró, með mikl­um osti og bragðmiklu kaffi.“

Hvort vel­ur þú kart­öfl­ur eða sal­at á disk­inn þinn?

„Eins og ávallt þá er það háð stemn­ingu, hvar og hvenær en bæði jafn gott.

Finnst þér súkkulaði gott?

„Al­mátt­ug­ur, já og þá í öllu formi.“

Hef­ur þú borðað á Michel­in-stjörn­ustað?

„Já, sem er alltaf upp­lif­un en mér finnst miklu skemmti­legra, og oft­ast betra fyr­ir budd­una, þegar ég fer er­lend­is að leita uppi „Bib Gourmand“-staði, það er yf­ir­leitt eitt­hvað nýtt og mjög spenn­andi. Ég mæli ein­dregið með því.“

Hver er upp­á­halds­drykk­ur­inn þinn?

„Það er fátt sem slær ís­lenska vatn­inu við, við erum mjög hepp­in með það. Kampa­vín á alltaf við, hægt er að para það við næst­um all­an mat og öll tæki­færi og er svo fjári gott. En það verður að vera þurrt.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert