Gellur í kryddlegi er einn af vinsælustu fiskréttunum hans Leifs Kolbeinssonar, matreiðslumeistara og eiganda veitingastaðarins La Primavera, sem í boði hafa verið á matseðli staðarins.
Undirrituð hefur verið svo heppin að fá að njóta þess að bragða af þessum ómótstæðilega góðu gellum og þvílíkur unaður er það fyrir bragðlaukana.
Smjörsósan er hreint lostæti og passar ákaflega vel með gellunum. Rétturinn nýtur ávallt mikilla vinsælda og gellurnar rjúka út þegar þær eru á boðstólum.
Stutt er fyrir Leif til fisksalana að velja sér ferskt og nýtt hárefni.
Ljósmynd/Ari Magg
Gellurnar eru alltaf vinsælar
„Gellur eru alltaf vinsælar hjá okkur. Þá kemur sér vel að vera á þessum frábæra stað við höfnina og hafa marga fastagesti sem eru sólgnir í fiskinn hjá okkur. Þar eru gellurnar engin undantekning,“ segir Leifur með bros á vör, en hann er svo heppinn að vera við höfnina og geta farið beint til fisksalanna og fengið nýjan og ferskan fisk daglega.
Marshallshúsið stendur á fallegum stað við höfnina út við Granda.
Ljósmynd/Ari Magg
Leifur deilir hér með matarvefnum uppskriftinni að gellum í kryddlegi. Uppskriftina ásamt fleiri hefðbundnum réttum af matseðli La Primavera má finna í matreiðslubók Leifs „Tuttugu og fimm ástæður til að fanga“. Bókin fæst til að mynda á veitingastöðum La Primavera, annars vegar í Marshallshúsinu og í Hörpu.
Ómótstæðilega girnilegar gellurnar hans Leif með smjörsósu sem bráðnar í munni.
Ljósmynd/Ari Magg
Gellur í kryddlegi
- 800 g gellur (skolaðar í köldu vatni, skeggsnyrtar og þerraðar)
- 8 hvítlauksgeirar (rifnir fínt með rifjárni)
- 100 ml ólífuolía
- 1 tsk. þurrkaður chilli
- 1 knippi basilíka (saxað)
- 1 knippi steinselja (saxað)
- 1 egg
- 50 ml mjólk
- salt og pipar eftir smekk
- 200 g smjör (kalt í bitum)
- 100 ml hvítvín
- 50 ml rjómi
- 50 ml hvítvínsedik
- 1 skalottlaukur (fínt saxaður)
- 1 sítróna (safi)
Aðferð:
- Byrjið að blanda saman í skál, ólífuolíu, hvítlauk, chilli, steinselju og basilíku.
- Hrærið vel saman og leggið hreinsaðar gellurnar í löginn.
- Látið marínerast í kæli í a.m.k. 24 klukkustundir.
- Sósuna lagið þið með því að setja skalottlaukinn, hvítvínið og edikið í þykkbotna pott. Fáið suðuna upp við vægan hita og sjóðið niður þar til vökvinn þykknar og minnir á síróp, bætið þá rjómanum út í og hitið.
- Bætið við köldu smjöri, bita fyrir bita, þar til sósan hefur þykknað og fengið á sig fallegan gljáa.
- Smakkið til með salti og pipar.
- Sigtið sósuna og geymið við hliðina á hellunni.
- Sósan má ekki hitna um of og alls ekki sjóða aftur, þá skilur hún sig.
- Takið gellurnar úr maríneringunni og þerrið á klút.
- Þeytið saman egg og mjólk í skál og setjið gellurnar út íeggjablönduna.
- Steikið gellurnar í olíu á vel heitri pönnu.
- Gætið þess að setja ekki of mikið af gellum á pönnuna í einu.
- Steikið gellurnar 4–5 mínútur á hvorri hlið, kryddið með salti og pipar, kreistið yfir safa úr sítrónu og berið fram með smjörsósunni.