Kryddbrauð – þetta gamla góða

Gamla, góða kryddbrauðið klikkar aldrei. Svo gott nýbakað með smjör …
Gamla, góða kryddbrauðið klikkar aldrei. Svo gott nýbakað með smjör og osti. mbl.is/Eyþór

Kryddbrauð er dásamlegt brauð sem hefur lengi verið vinsælt á íslenskum heimilum og klikkar aldrei. Það er bragðmikið, mjúkt og er fullkomið hvort sem þú nýtur þess eitt og sér eða smurt með smjöri og osti.

Árni Þorvarðarson kann sitt fag og það er eins og …
Árni Þorvarðarson kann sitt fag og það er eins og að komast í fjársjóð að komast í uppskriftabókina hans. mbl.is/Eyþór

Þetta brauð hentar vel fyrir helgarkaffið, vinnustaðakaffið eða hversdagslegar stundir þar sem þú vilt gleðja bragðlaukana. Hér er uppskriftin að kryddbrauði sem kemur úr smiðju Árna Þorvarðarsonar, bakara og fagstjóra við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi, sem slær alltaf í gegn.

Kryddbrauð

  • 252 g sykur
  • 105 g smjörlíki
  • 2 stk. egg (u.þ.b. 105 g)
  • 76 g síróp
  • 252 ml heitt vatn
  • 387 g hveiti
  • 2 tsk. natrón (8 g)
  • ½ tsk. engifer, malað (1 g)
  • 1 tsk. negull, malaður (4 g )
  • 1 tsk. kanill (4 g)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C og smyrjið bökunarform eða klæðið það með bökunarpappír.
  2. Þeytið saman sykur og smjörlíki eða olíu og hrærið þar til blandan verður létt og mjúk.
  3. Bætið við eggjunum, einu í einu, og hrærið vel á milli.
  4. Blandið sírópinu saman við heita vatnið og hellið því varlega í deigið meðan þið hrærið.
  5. Í annarri skál skulu þið blanda saman þurrefnunum, hveiti, natróni, engifer, negul og kanil.
  6. Bætið þurrefnunum smám saman út í blautefnin og hrærið þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.
  7. Hellið deiginu í formið og bakið í 50-60 mínútur, eða þar til prjónn kemur hreinn úr miðju brauðsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert